Hanna Dóra og Snorri Sigfús flytja vögguvísur á hádegistónleikum 2. mars
Miðvikudaginn 2. mars kl. 12:15 heldur hádegistónleikaröðin Tónlistarnæring í sal Tónlistarskóla Garðabæjar áfram eftir stutt heimsfaraldurshlé.
-
Hanna Dóra og Snorri Sigfús stíga á svið í hádegistónleikaröðinni Tónlistarnæring í sal Tónlistarskóla Garðabæjar miðvikudaginn 2. mars kl. 12:15.
Miðvikudaginn 2. mars kl. 12:15 heldur hádegistónleikaröðin Tónlistarnæring í sal Tónlistarskóla Garðabæjar áfram eftir stutt heimsfaraldurshlé. Vögguvísur og sönglög um drauma með yfirskriftinni Hádegisdraumar verða flutt af Hönnu Dóru Sturludóttur mezzósópran og Snorra Sigfús Birgissyni píanóleikara en lögin sem þau flytja eru eftir Wagner, Grieg, Fauré, Pál Ísólfsson og Snorra Sigfús.
Aðgangur er ókeypis en tónleikaröðin er kostuð af menningar- og safnanefnd Garðabæjar í samstarfi við Tónlistarskóla Garðabæjar. Listrænn stjórnandi er Ólöf Breiðfjörð menningarfulltrúi. Engar takmarkanir eru lengur á fjölda gesta á tónleikana og því allir sannarlega velkomnir.
Um flytjendur: Hanna Dóra hefur um árabil verið ein af okkar fremstu söngkonum og átt farsælan feril á óperusviði og tónleikapalli víða um heim og hlaut árið 2014 Íslensku tónlistarverðlaunin sem söngkona ársins. Þó Hanna Dóra hafi sungið fjölda lykilhlutverka í óperum, bæði erlendis og í Íslensku óperunni, hefur hún lagt áherslu á flutning nýrrar tónlistar. Hanna Dóra hefur lagt sitt á vogarskálarnar í söngkennslu og er aðjúnkt og fagstjóri söngs við tónlistardeild Listaháskóla Íslands.
Snorri Sigfús Birgisson er ekki aðeins öflugur píanóleikari heldur einnig tónskáld en hann stundaði framhaldsnám í píanóleik í Bandaríkjunum eftir nám hjá m.a. Jóni Nordal og Árna Kristjánssyni. Snorri Sigfús lærði tónsmíðar hjá Þorkeli Sigurbjörnssyni en fór svo í frekara tónsmíðanám til Osló og Amsterdam. Hann hefur starfað í Reykjavík sem tónskáld, píanóleikari og tónlistarkennari sem og stjórnandi frá því hann snéri aftur heim úr námi árið 1980.