11. mar. 2025

Hópur nemenda í Tónlistarskóla Garðabæjar skemmtu sér á landsmóti

Í febrúar fór hópur nemenda frá Tónlistarskóla Garðabæjar til Akureyrar og tók þar þátt í Landsmóti skólalúðrasveita. Linda Margrét Sigfúsdóttir, aðstoðarskólastjóri Tónlistarskólans í Garðabæ, var framkvæmdastjóri mótsins. Hún segir ferðina hafa gengið eins og í sögu og að nemendur hafi bæði haft gagn og gaman af þátttökunni.

„Samband íslenskra skólalúðrasveita (SÍSL) hefur frá árinu 1969 haldið landsmót fyrir lúðrasveitir landsins. Sveitunum er getuskipt í A, B og C sveitir og hver hópur hefur kost á að fara á landsmót annað hvert ár og að þessu sinni voru það C sveitir landsins eða elstu sveitir landsins sem fjölmenntu á Akureyri,“ segir Linda sem fylgdi um 20 nemendum á landsmótið, flest á aldrinum 13 til 17 ára.

„Mótið gekk ótrúlega vel. Það var allt með okkur í liði, við fengum gott færi norður, æðislegt veður á Akureyri og maturinn frá Matur og Mörk var frábær. Og það er nú þannig að ef ungmenni á þessum aldri fá nóg að borða þá gengur yfirleitt allt vel,“ útskýrir Linda.

Í heildina tóku um 170 nemendur þátt í mótinu og var þátttakendum skipt í tvær aldursskiptar sveitir: 9. bekkur og yngri og svo 10. bekkur og eldri.

„Svo æfði allur hópurinn saman tvö verk undir stjórn Rúnars Óskarssonar. Á milli æfinga var farið í sund, við fengum danskennslu og svo var mjög skemmtileg kvöldvaka þar sem rapparinn Saint Pete kom fram með nokkur lög. Hljómsveitin Nussun ásamt tónlistarmanninum Húgó hélt uppi stuðinu á ballinu og krakkarnir dönsuðu fram eftir kvöldi,“ segir Linda.

Eitt markmiðið með mótinu er að stuðla að íslenskum útsetningum fyrir skólalúðrasveitir.

Hópurinn þéttari fyrir vikið

Í lok móts voru haldnir tónleikar í Hofi og þar myndaðist góð stemning. „Það var mjög fín mæting á tónleikana. Þetta var helgin fyrir vetrarfríið í Garðabæ þannig að nokkrar fjölskyldur nemenda í okkar sveit voru á Akureyri þessa helgi og komu á tónleikana og ætluðu svo að vera áfram í góða veðrinu fyrir norðan,“ segir Linda.

Að hennar sögn hafa nemendur bæði gagn og gaman af því að taka þátt í mótum sem þessum. „Ég sá hvernig okkar góði hópur frá Garðabær varð enn þéttari í ferðinni og svo mynduðust líka ný vináttusambönd við nemendur í öðrum hljómsveitum. Það er svo gaman og hollt fyrir alla að fá að æfa og spila í svona stórum hljómsveitum. Stór hljómsveit býður upp á fjölbreyttari útsetningar og annan hljóðheim en minni hljómsveitir og það getur verið mikið „kikk“ að upplifa það. Á landsmótum erum við ekki að keppa, heldur eru allir jafningjar og allir jafn mikilvægir og hafa það sameiginlega markmið að ná sem bestum tökum á þeim tónverkunum sem flutt eru. Það er líka mjög spennandi og gefandi að fá að spila fyrir áhorfendur í stórri hljómsveit í góðum sal. Þetta er ómetanleg reynsla fyrir nemendur, reynsla sem eflir sjálfstraustið og nýtist þeim áfram út í lífið,“ segir Linda að lokum og bendir áhugasömum á meðfylgjandi myndband frá landsmótinu.