Jónsmessugleði fimmtudaginn 20. júní
Hin árlega Jónsmessugleði Grósku verður haldin fimmtudaginn 20. júní kl. 19:30-22:00 á göngustígnum við strandlengjuna í Sjálandi
-
Frá Jónsmessugleði 2018
Hin árlega Jónsmessugleði Grósku verður haldin fimmtudaginn 20. júní kl. 19:30-22:00 á göngustígnum við strandlengjuna í Sjálandi. Gefum - gleðjum - njótum eru einkunnarorð hátíðarinnar sem nú er haldin í ellefta sinn.
Fjölmargir myndlistarmenn taka þátt í Jónsmessugleði og setja upp myndlistarsýningu sem stendur eingöngu þetta eina kvöld. Eins og endranær verða fjölbreytileg listaverk til sýnis við Strandstíginn í Sjálandshverfi Garðabæjar. Auk félaga úr Grósku, myndlistarfélagi Garðabæjar, koma gestalistamenn frá Kópavogi, Hafnarfirði, Reykjavík og Blönduósi. Sýnd verða málverk á striga, innsetningar og önnur verk og hægt verður að fylgja fjölbreytilegum þráðum því þemað er að þessu sinni „Þræðir“.
Jónsmessugleði Grósku teygir sig inn í Jónshús til málverkasýningar eldri borgara og til ungu listamannanna í Skapandi sumarstarfi sem sýna vestast við Strandstíginn og verða líka með önnur listatriði. Ungir sem aldnir láta ljós sitt skína enda er Jónsmessugleði fyrir fólk á öllum aldri. Auk sjálfrar sýningarinnar verða margir skemmtilegir listviðburðir á dagskrá, svo sem söngur, tónlist, leiklist og fleira.
Bæjarstarfsmenn og sumarvinnuhópar umhverfisátaks aðstoða með uppsetningu, frágang og ýmsa skipulagningu hátíðarinnar.
Viðburður á fésbókarsíðu Grósku.