Kennir leikskólabörnum stærðfræði í gegnum leiki og tilraunir
14. mars er alþjóðlegur dagur stærðfræðinnar eða pí-dagurinn. Nicoleta Mihai, stærðfræðikennari við 5 ára leikskóladeildar í Sjálandsskóla, og kollegar hennar í Sjálandsskóla ætla að halda hátíðlega upp á daginn. Hún segir afar skemmtilegt að kenna yngstu kynslóðinni stærðfræði í gegnum leiki og spennandi tilraunir.
Nicoleta Mihai er stærðfræðikennari og deildarstjóri 5 ára deildar í Sjálandsskóla. Nicoleta er frá Rúmeníu, þar lagði hún stund á stærðfræðinám og útskrifaðist með mastersgráðu í því fagi 2008.
Nicoleta flutti til Íslands árið 2012. Upphaflega ætlaði hún sér að kenna íslenskum grunnskólabörnum stærðfræði en fyrst vildi hún ná góðum tökum á íslenska tungumálinu. „Ég ákvað að byrja að vinna í leikskóla til að læra tungumálið og ætlaði svo að kenna stærðfræði í grunnskóla. En mér fannst svo skemmtilegt að vinna með fimm ára börnum að ég ákvað að halda áfram að kenna á því skólastigi.“
Hún segir stærstu áskorunina í sínu starfi hafa verið að finna leiðir til að kenna fimm ára börnum stærðfræði á skemmtilegan hátt. „Og auðvitað er skemmtilegasta kennsluaðferðin í gegnum leik þar sem börnin fá að rannsaka og uppgötva. Á þessum aldri snýst stærðfræði ekki um verkefnablöð eða að leggja á minnið – hún snýst um að rannsaka, leika sér og læra á heiminn í kringum sig,“ segir Nicoleta sem hefur lagt áherslu á að breyta allri kennslu í lítil ævintýri.
„Fyrstu árin í lífi barns eru mikilvæg fyrir vitsmunaþroska þess. Rannsóknir benda til þess að sú færni sem börn öðlast í leikskóla sé grunnurinn fyrir flóknari stærðfræðihugtök sem þau munu kynnast á seinni námstigum.
Grundvallaratriði eins og að telja, þekkja tölustafi, skilja samlagningu og frádrátt og að ná tökum á formum og mynstrum er nauðsynlegur grunnur fyrir áframhaldandi stærðfræðinám og einnig annað nám.“
Hennar markmið í kennslu er að gera stærðfræði spennandi fag. „Með því að kynna þau snemma fyrir stærðfræði þá öðlast þau jákvætt viðhorf til viðfangsefnisins og þegar börn fást við stærðfræðihugtök á skemmtilegan og gagnvirkan hátt þá þróa þau með sér sjálfstraust og trú á eigin getu.“
Halda hátíðlega upp á Dag stærðfræðinnar
Nicoleta og annað starfsfólk í 5 ára deild í Sjálandsskóla ætla að halda hátíðlega upp á Dag stærðfræðinnar. Þemað í ár er listir og sköpun.
„Þá langar okkur að læra um Picasso og skoða hvernig hann notaði form í málverkum sínum. Í framhaldinu munum við hvetja börnin til að búa til sín eigin „Picasso-málverk“ með geómetrískum formum. Svo munum við gera byggingar með því að nota tannstöngla og leir og búa til mynstur með því að nota gaffla, skeiðar og önnur eldhúsáhöld, mynt, bækur, blýanta, greinar, laufblöð , steina og annað sem okkur dettur í hug.“
Nicoleta segir afar skemmtilegt og gefandi að kenna yngstu kynslóðinni og fylgjast með þeim uppgötva stærðfræðina í umhverfi sínu. „Með skemmtilegum tilraunum læra þau að stærðfræði snýst ekki eingöngu tölur heldur er hún alls staðar, í öllu sem þau gera. Að telja skref á meðan við göngum, flokka leikföng eftir lit eða bera saman stærð laufblaða er allt stærðfræðileg reynsla.“
Stærðfræðikennsla undir berum himni
Nicoleta segir stærðfræðikennslu og útiveru eiga vel saman og möguleikana óteljandi hvað stærðfræðitilraunir utandyra varðar.
„Við í 5 ára deild í Sjálandskóla erum að vinna þróunarverkefni um útinám og við erum svo heppin að hafa hana Hrafnhildi, útinámskennari í Sjálandsskóla, okkur innan handar. Í útikennslunni gerum við alls konar skemmtilegt: tjöldum, kveikjum varðeld, lærum bók- og tölustafi, æfum okkur að telja og deila svo dæmi séu tekin.“
Hún segir markmið útikennslunnar m.a. vera að efla félagsfærni nemenda þar sem þau læra að vinna saman, deila hugmyndum með hvort öðru og eiga í skilvirkum samskiptum.
Hún tekur dæmi: „Eitt sinni fengu börnin spjöld með tölustöfunum og unnu tvö og tvö saman. Annað barnið var þjálfari og hitt var leikarinn. Þjálfarinn bað leikarann um að lesa fyrir sig tölustaf og síðan átti leikarinn að finna í umhverfinu jafn marga hluti og tölustafurinn sagði til um, t.d. laufblöð eða steina. Það var gaman að sjá börnin vinna saman, leita, telja, hjálpa hvert öðru og leiðrétta ef það þurfti.“
Annar leikur sem vakti mikla lukku hjá krökkunum er svokallaður steinaleikur. „Kennarinn felur þá steina sem er merktir frá einum upp í tíu úti í garði og börnin eiga að finna þá og raða þeim í rétta röð. Þetta er mjög hvetjandi fyrir börn, svolítið eins og páskaeggjaleit. Þau vildu gera þetta aftur og aftur.“
Nicoleta tekur einnig skemmtilega vettvangsferð í Grasagarðinn sem dæmi en þar fengu börnin það samvinnuverkefni í nokkrum hópum að finna hluti í náttúrurunni til að skapa fallegt mynstur úr, eitthvað sem auðvelt er að framkvæma með forvitnum krökkum.