Kvennahlaupið á laugardag kl. 11
Kvennahlaupið heldur upp á 30 ára afmæli í ár. Í Garðabæ verður hlaupið frá Garðatorgi laugardaginn 15. júní kl. 11. Að venju verður upphitun á undan fyrir hlaupið en þrjár vegalengdir eru í boði: 2, 5 og 10 km.
-
Kvennahlaupið verður haldið í 30. sinn laugardaginn 15. júní 2019. Hlaupið í Garðabæ hefst á Garðatorgi með upphitun kl. 10 en hlaupið sjálft er kl. 11.
Kvennahlaupið heldur upp á 30 ára afmæli í ár. Í Garðabæ verður hlaupið frá Garðatorgi laugardaginn 15. júní kl. 11. Að venju verður upphitun á undan fyrir hlaupið en þrjár vegalengdir eru í boði: 2, 5 og 10 km. Hér má nálgast upplýsingar um lokanir á götum vegna hlaupsins.
Fyrsta Kvennahlaupið var haldið árið 1990. Upphaflega var markmið hlaupsins að fá fleiri konur út að hreyfa sig og að hvetja konur til þátttöku í starfi íþróttahreyfngarinnar á Íslandi. Þau markmið hafa um margt náðst þar sem konur hreyfa sig mun meira í dag en fyrir 30 árum, íslenskar íþróttakonur eru að ná frábærum árangri á heimsvísu og margar konur í forsvari fyrir íþróttahreyfinguna hérlendis. Sjóvá Kvennahlaup ÍSÍ er haldið á yfir 80 stöðum á landinu og víða erlendis.
Í dag er áherslan ekki hvað síst á samstöðu kvenna, að hver njóti þess að hreyfa sig á sínum forsendum og eigi ánægjulega samverustund með fjölskyldu og vinum. Hlaupið er árviss viðburður hjá mörgum konum sem taka daginn frá til að hlaupa með dætrum, mæðrum, ömmum, systrum, frænkum og vinkonum sínum og margir karlmenn slást líka í hópinn. Við hvetjum allar konur í Garðabæ að fjölmenna á Garðatorg á laugardaginn og eiga góða stund.
Ekki þarf að skrá sig sérstaklega í hlaupið. Hægt er að kaupa boli á hlaupastöðunum og kosta þeir 2000 kr. fyrir 13 ára og eldri og 1000 kr. fyrir 12 ára og yngri.
Einnig er hægt að ganga frá kaupum á bol fyrir hlaup inni á TIX.is
Fyrir áhugasama sýndi RÚV heimildamynd um sögu Kvennahlaupsins sem má nálgast hér.