4. mar. 2025

Lestur er lykillinn – góð ráð um lestur fyrir börn

Í Garðabæ starfa tveir talmeinafræðingar á leikskólasviði, þær Kristín Theódóra og Sara Bjargardóttir. Þær gefa hér góð ráð í tilefni þess að Evrópudagur talþjálfunar er á næsta leiti.

Ár hvert, þann 6. mars er Evrópudagur talþjálfunar haldinn hátíðlegur á meðal talmeinafræðinga í Evrópu, þema ársins í ár er Eflum málumhverfi barna. Dagurinn er ætlaður sem almenn vitundarvakning á störfum og þjónustu talmeinafræðinga.

Í Garðabæ starfa tveir talmeinafræðingar á leikskólasviði, það eru þær Kristín Theódóra og Sara Bjargardóttir. Kristín og Sara eru hluti af sérfræðiþjónustu Garðabæjar og sitja í skólaþjónustuteymi með öðrum fagaðilum innan Garðabæjar.  Í tilefni þess að Evrópudagur talþjálfunar er á næsta leita vilja þær benda á gagnlegt efni sem kemur sér vel fyrir foreldra og forráðafólk barna sem eru að ná tökum á tali, máli og lestri.

Kristín Theódóra og Sara segja mikilvægt að lesa daglega fyrir börn frá unga aldri til að þjálfa upp tal og tjáskipti. 

Lestur…

  • er mikilvæg leið til að styrkja tengsl barns og foreldris.

  • eflir orðforða og málskilning barns.

  • veitir tækifæri til að heyra sjaldgæf orð.

  • styrkir hljóðkerfisvitund sem er mikilvæg færni fyrir lestrarnám.

  • eflir athygli og úthald við hlustun.  

  • hvetur til samræðna.

  • gefur tækifæri til endurtekningar á orðum og setningum. 

  • ýtir undir samveru í gegnum bókalestur og er dýrmætt veganesti fyrir barnið.

Mikilvægt að velja bækur við hæfi

Hér benda Kristín og Sara á gagnleg ráð um lestur fyrir börn eftir aldri. Þýðing Margrétar Samúelsdóttur, talmeinafræðings, af vefnum todaysparent.com. Einnig benda þær á hugmyndir að hentugu lesefni fyrir börn en mikilvægt er að velja bækur við hæfi.

Lestur fyrir börn yngri en 1 árs: 

Náðið athyglinni: Á milli 6 og 12 mánaða kviknar bókaáhugi hjá börnum, þ.e. þau fara að skoða þær sem leikföng. Bækur með mismunandi áferð og flipum ná athygli þeirra. Ekki verða hissa ef þau taka bókina frá þér og setja hana í munninn, það er eðlilegt á þessum aldri.  

Einfaldleikinn: Bækur sem eru með einfaldar myndir og einföld orð hjálpa börnum að læra orðaforða. Ef það er fleiri en ein mynd á blaðsíðunni, mundu þá að benda á myndina sem passar við það sem þú segir. 

Lesvefurinn: Hugmyndir að bókum 1-2 ára

Lestur fyrir 2 – 3 ára  

Lesið um heiminn þeirra: 2 ára börn eru tilbúin fyrir bækur með flóknari myndum og sögum. Best er að velja sögu sem þau tengja við, t.d. sem fjalla um að fara út að leika eða svefnrútínuna.  

Hafið gaman: Ef þú átt barn sem á erfitt með að sitja kyrr fyrir sögulestur er gott að grípa í bækur með tökkum, flipum eða álíka til að halda áhuga barnsins á bókinni.  

Spyrjið spurninga: Börn vilja oft lesa sömu söguna aftur og aftur. Þegar þið hafið lesið bók nokkrum sinnum og þekkið söguna er gott að spyrja barnið hvað gerist næst. T.d. ef þið lesið Litla græna hattinn og segið „viltu kaupa mig?“ að hika og segja „hvað sagði konan/strákurinn?“ og reyna að fá fram „nei ég vil ekki kaupa þig“ svar. Einnig er hægt að tengja söguna við raunheiminn, t.d. „átt þú svona hatt/á amma svona hatt?“ eða tala um hatta eða húfur sem barnið á.   

„Lesið“ myndirnar: Þegar þið flettið á næstu blaðsíðu, reynið að hinkra og athuga hvað barnið segir. Ef barnið lítur á myndina og segir „hundur hlaupa“ getið þið svarað með lengri setningu, „já, hundurinn hleypur hratt“. Slíkar lengingar, þ.e. þegar þið svarið barninu með aðeins lengri og flóknari setningu, hjálpa barninu að læra málfræði og ný orð hraðar. 

Lestur fyrir 3 ára 

Víkkið lesefnið: Börn á þessum aldri eru að færast yfir í sögur með einföldum söguþræði. Lesið bækur þar sem sögupersónan glímir við vandamál, reynir að leysa vandamálið og að lokum er hamingjusamur endir. Einnig er hægt að kynna börnum fyrir fræðslubókum um t.d. risaeðlur eða sólkerfið, oft 3-4 setningar á blaðsíðu.  

Fylgið textanum: Ef það eru margar myndir á blaðsíðunni, bendið þá á þær myndir sem þið eruð að tala um. Ef það er bara ein mynd á blaðsíðunni skuluð þið benda á textann í staðinn fyrir myndina. Þannig læra börn að maður les ofan frá og niður, frá vinstri til hægri, og að allir þessir stafir myndi orð og heild sem ber merkingu.  

Útskýrið nýjan orðaforða: Þegar þið rekist á orð sem barnið hefur ekki heyrt áður er gott að útskýra orðið. T.d. ef orðið er gegnsósa - „hann varð gegnsósa í rigningunni“ er hægt að segja „það þýðir að hann varð rosalega blautur, blautur alveg í gegnum fötin“.  

Takið eftir tilfinningum: Á sama hátt er gott að stoppa og ræða um tilfinningar, hvernig líður sögupersónunni? Að setja sig í spor annarra og skilja hvernig öðrum líður er flókið fyrir ung börn. Það að stoppa og tala um hvað orðin þýða hjálpar. Það er hægt að segja t.d. „Hann vill dótið en hinn strákurinn er að leika með það. Hvernig heldur þú að honum líði?“ Svo er hægt að tengja það við raunveruleikann og segja t.d. „Manstu þegar þú vildir dót sem annar lék með?“ Þannig er hægt að nota bækur til að byggja ekki eingöngu upp læsi heldur einnig samkennd og læra að leysa úr vandamálum. 

Lesvefurinn: Hugmyndir að bókum 3 – 4 ára

Lestur fyrir 4 og 5 ára

 Flækið sögurnar: Börnin hafa nú færst úr því að lesa einfaldar „vandi-lausn“ bækur yfir í bækur sem fjalla um margþætt mál, eru með undirliggjandi söguþráð og sögupersónur með andstæðar langanir.  

Finnið orðin: Á þessu aldri er hægt að einbeita sér að for-læsi, þ.e. kenna börnum að orð eru mikilvæg og einbeita sér að skrifuðum orðum. Bendið á orð sem ríma og orð sem byrja á sama staf/hljóði.  

Lesið orð sem eru á myndunum, t.d. stoppmerki eða búðarmerking, svo barnið þroski með sér þá hugmynd að orð beri merkingu.  

Spáið fram í tímann: Spyrjið barnið hvað það heldur að muni gerast næst í sögunni. Það hjálpar þeim að hugsa um reynslu sem hluta af atburðarrás. Það er færniþáttur sem þau þurfa að þroska til að geta komið heim úr leikskólanum og sagt frá hvað gerðist yfir daginn. 

Lesvefurinn: Hugmyndir að bókum 5-6 ára.

Lestur fyrir 6 ára og eldri

Ekki hætta!: Margir foreldrar hætta að lesa fyrir börnin sín á þessum aldri því börnin eru farin að geta lesið sjálf. Þegar börn byrja að lesa þá byrja þau á mjög einföldum bókum sem bæta ekki við orðaforða og ályktanir og hafa oftast ekki flókinn söguþráð. Því er mikilvægt að halda áfram að lesa fyrir þau.  

Kaflaskiptar bækur: Færið ykkur yfir í kaflaskiptar bækur með fáum eða engum myndum. Þær eru góðar til að heyra flóknari söguþræði og flóknara mál, t.d. flóknari setningamyndun sem við notum ekki oft í daglegu tali. (Gaman fyrir foreldra líka að lesa aftur sumar af sínum uppáhaldsbókum úr barnæsku).  

Untitled-design-7-

Tengið saman: Haldið áfram að eiga í samræðum um það sem þið lesið og talið um hvernig það tengist lífi barnsins og fyrri reynslu þess. Það undirbýr þau fyrir að færast úr „læra að lesa“ yfir í „lesa til að læra“ sem er nauðsynleg færni frá þriðja bekk og upp úr í grunnskóla.  

Hafið gaman: Það sem skiptir mestu máli er að hafa lestrarstundina ánægjulega, láta þau upplifa gleði af lestri. Þegar börn læra að lesa missa þau oft áhugann á bókalestri því bækurnar sem þau lesa eru ekki skemmtilegar. Þegar þau geta farið að lesa það sem þau hafa áhuga á þá viljum við að lestraráhuginn sé til staðar svo þau haldi áfram að lesa