5. maí 2025

Margar góðar uppástungur skiluðu sér í hugmyndakassana

Nú hefur verið farið yfir þær ábendingar og hugmyndir sem skiluðu sér í hugmyndakassa sem komið var fyrir í Jónshúsi, í Smiðjunni og Litla koti í byrjun árs.

Öldungaráð, sem í sitja kjörnir fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, ásamt fulltrúum frá félagi eldri borgara í Garðabæ, Álftanesi og fulltrúa Heilsugæslunnar í Garðabæ, hefur að undanförnu unnið að endurskoðun á aðgerðaáætlun fyrir eldra fólk í Garðabæ. Í aðgerðaáætluninni er sjónum m.a. beint að ýmsum aðgerðum sem bæta og styrkja þjónustu til eldra fólks, þar á meðal er félagsstarfið.

Boðið er upp á fjölbreytt félagsstarf í Jónshúsi, Smiðjunni og í Litla koti á Álftanesi. Þar taka félög eldra fólks og bæjarfélagið höndum saman og bjóða upp á ýmsa virkni, m.a. í formi námskeiða og fræðslu sem er vel sótt af stórum hópi eldra fólks. Öldungaráð taldi því mikilvægt að fá endurgjöf á þá þjónustu, einnig hugmyndir og ábendingar um það sem betur mætti fara.

Útbúin voru eyðublöð sem hægt var að fylla út og skila í þar til gerða hugmyndakassa sem voru settir upp á þeim stöðum þar sem starfið fer fram. Þá gafst þátttakendum tækifæri á að koma sínum hugleiðingum, hugmyndum og óskum á framfæri á einfaldan og aðgengilega hátt. Nú hefur verið farið yfir þær ábendingar og hugmyndir sem skiluðu sér í hugmyndakassana.

Hugmyndakassarnir komnir til að vera

Upp úr kassanum komu til dæmis ábendingar um hvernig mætti betrumbæta þjónustuna en einnig uppástungur um skemmtilega viðburði og hugmyndir um tómstundir og afþreyingu sem mætti færa inn í þá dagskrá sem nú þegar er boðið upp á.

Harpa„Það er alltaf mikilvægt að fá endurgjöf, hugmyndir og sjónarmið þeirra aðila sem nýta sér þjónustuna og kviknaði þessi hugmyndin á fundi Öldungaráðs að gefa fólki kost á að koma með sín sjónarmið og ábendingar í hugmyndakassa. Hugmyndakassarnir voru settir upp á þeim stöðum þar sem boðið er upp á félagsstarfið; í Jónshúsi, Smiðjunni og í Litla koti á Álftanesi. Margar góðar ábendingar duttu í kassana og það verður svo metið hvort og hvernig unnt sé að útfæra þær hugmyndir inn í starfið,“ segir Harpa Rós Gísladóttir, formaður Öldungaráðs.

Hún segir hugmyndakassana komna til að vera. „Við munum setja þá upp reglulega til þess að gefa sem flestum kost á að koma sínum hugmyndum á framfæri og þá mögulega einnig til að fá fram sjónarmið tengd annars konar þjónustu til eldra fólks,“ segir Harpa.

Hún bætir við að það einnig komi til greina að gefa fólki færi á að kjósa um þær hugmyndir sem fram koma og unnt sé að framkvæma.

„Það skiptir okkur miklu máli að fá endurgjöf á þjónustuna sem veitt er og því var ánægjulegt að sjá að margt fólk gaf sér tíma til að skila inn sínum hugmyndum og ábendingum í hugmyndakassana, fyrir það erum við þakklát,“ segir Harpa.