Niðurstöður ytra mats í leikskólanum Hæðarbóli
Leikskólinn Hæðarból í Garðabæ var einn af fjórum leikskólum á landinu sem var valinn í ytri úttekt mennta- og menningarmálaráðuneytisins á síðasta ári.
-
Leikskólinn Hæðarból
Leikskólinn Hæðarból í Garðabæ var einn af fjórum leikskólum á landinu sem var valinn í ytri úttekt mennta- og menningarmálaráðuneytisins á síðasta ári. Þar er lagt mat á starfsemi skólanna með því markmiði að kanna gæði starfsins.
Niðurstöðurnar voru gerðar opinberar nú fyrir stuttu og skrifaði Sigurborg Kristjánsdóttir, leikskólastjóri Hæðarbóls, grein um málefnið sem birtist í Garðapóstinum þann 6. febrúar sl. Hér að neðan má lesa greinina en einnig má lesa nánar um matið á vef Hæðarbóls.
Niðurstöður ytra mats í leikskólanum Hæðarbóli
Menntamálastofnun hefur umsjón með ytra mati á leikskólum fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Í ytra mati felst að matsaðilar Menntamálastofnunar leggja mat á starfsemi viðkomandi skóla með hliðsjón af gildandi viðmiðum sem annars byggja á lögum, reglugerðum og aðalsnámskrá. Er það gert með skoðun á fyrirliggjandi gögnum um starfsemi leikskólans, vettvangsheimsóknum matsaðila og viðtölum við börn, starfsfólk skóla og foreldra.
Leikskólinn Hæðarból lenti í lukkupottinum þegar hann var valinn, einn af fjórum leikskólum á landinu, í úttekt mennta- og menningarmálaráðuneytisins á síðasta ári. Markmið með úttektinni er að kanna gæði starfs í leikskólum samkvæmt 17. gr. laga um leikskóla sem er:
- Að veita upplýsingar um skólastarf, árangur þess og þróun til fræðsluyfirvalda, starfsmanna leikskóla, viðtökuskóla og foreldra.
- Að starfsemi skóla sé í samræmi við ákvæði laga, reglugerða og aðalnámskrá leikskóla.
- Að auka gæði náms og leikskólastarfs og stuðla að umbótum.
- Að tryggja að réttindi barna séu virt og að þau fái þá þjónustu sem þau eiga rétt á samkvæmt lögum.
Framkvæmd matsins
Matsaðilar Menntamálastofnunar sem framkvæmdu matið byrjuðu á að afla sér upplýsinga um leikskólann áður en þeir komu í vettvangsathuganir og tóku viðtöl. Þeir kölluðu eftir ýmsum gögnum sem varpað gætu ljósi á leikskólastarfið, ýmist á prentuðu máli eðarafrænu formi. Matsmenn dvöldu þrjá daga á vettvangi og gerðu vettvangsathuganir á öllum deildum leikskólans. Tekin voru rýniviðtöl við deildarstjóra, leikskólakennara og aðra fagaðila í starfi með börnum, sérkennara, foreldra og börn. Einstaklingsviðtal var tekið við leikskólastjóra, aðstoðarleikskóla-stjóra og sérkennslustjóra og haft var samband við leikskólafulltrúa fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar.
Fylgst var með uppeldi, kennslu- og starfsháttum, leik og námi, velferð og líðan barna, faglegu starfi og skipulagi náms og námsaðstæðna í leikskólanum. Matsmenn fylltu út gátlista fyrir vettvangsathugun á deild og gáfu einkunn fyrir vísbendingar um gæðastarf sem myndar grunn að heildarmati og gefur mynd af leikskólastarfi á þeim meginþáttum sem viðmiðin ná til. Matsmenn fóru hver og einnyfir þau gögn sem aflað var fyrirfram að lokinni leikskólaheimsókn, unnu saman að úrvinnslu gagna og komust að sameiginlegum niðurstöðum varðandi þá þætti sem metnir voru.
Með ytra mati er unnið að öllum þessum markmiðum og sérstök áhersla lögð á að efla og styðja innra mat og gæðastjórnun leikskóla, styðja við leikskólastjórnendur og leikskólakennara í umbótum á eigin starfi, hvetja leikskólakennara til að vinna saman að því að bæta eigin starfshætti og vera leikskólum hvati til frekari skólaþróunar.
Metnaðarfullt starf á Hæðarbóli
Ytra mat með vettvangsathugunum, viðtölum og greiningu gagna í leikskólanum Hæðarbóli leiddi í ljós að þar fer fram metnaðarfullt leikskólastarf. Stefna leikskólans með áherslu á Uppeldi til ábyrgðar birtist vel í starfinu. Fagleg stjórnun leikskólans er góð og hann er vel mannaður leikskólakennurum og öðru fagfólki. Til fyrirmyndar er hvernig hvatt er til og veitt svigrúm fyrir þróunarstarf og hvernig litið er til mannauðs við skipulag faglegs starfs. Starfsandi er góður, gleði og virðing ríkir og starfsfólki er hrósað fyrir vel unnin störf. Ákvarðanataka einkennist af lýðræðislegum vinnubrögðum.
Matið staðfesti einnig hvernig lögð er áhersla á að líta á leikskólann sem eina heild og er nám og kennsla skipulögð með það að leiðarljósi að börnin á eldri deildum blandist í vinnustundum. Í frjálsa leiknum hafa börnin einnig val um að fara á milli deilda. Börnunum líður vel í leikskólanum og að mati foreldra felst styrkur leikskólans meðal annars í stöðuleika, fagmennsku og metnaði starfsfólks. Vel er haldið utan um vinnu með sérkennslubörn og stuðning við starfsfólk sem sinnir sérkennslu.
Vel er staðið að innra mati í leikskólanum er þátttaka barna í matinu til fyrirmyndar og einnig það hvernig leitað er eftir hugmyndum foreldra um leiðir til umbóta. Tækifæri til umbóta felast helst í því að leita leiða til að bæta aðstöðu barna og starfsmanna í Hæðarbóli og gera lagfæringar á útileiksvæði. Einnig að auka í lýðræðislega þátttöku barna í ákvörðunum sem varða skipulag og viðfangsefni og endurskoða námsgögn leikskólans og aðgengi barnanna að þeim.
Næsta verkefni okkar í leikskólanum er að gera gott starf betra og auka þátttöku barnanna í ákvörðunum í gegnum valkerfi og endurskoða námsgögnin. Einnig er það hlutverk okkar að vinna með bæjaryfirvöldum að lagfæringu á útisvæði og bæta aðstöðu barna og starfsmanna. Áhugasamir geta nálgast skýrsluna á vefsíðu leikskólans, haedarbol.is.
Sigurborg Kristjánsdóttir, leikskólastjóri Hæðarbóls