8. sep. 2011

Ísland afhjúpað í sundlauginni

Málverkið Ísland var afhjúpað í sundlaug Garðabæjar þriðjudaginn 6. september sl. Verkið var unnið í sumar á bökkum sundlaugarinnar af listamanninum Birgi Rafni Friðrikssyni. Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður menningar- og safnanefndar fengu þann heiður að afhjúpa verkið formlega og greina frá heitinu. Í leiðinni þökkuðu þau listamanninum fyrir þennan skemmtilega listgjörning
  • Séð yfir Garðabæ

Málverkið Ísland var afhjúpað í sundlaug Garðabæjar þriðjudaginn 6. september sl. Verkið var unnið í sumar á bökkum sundlaugarinnar af listamanninum Birgi Rafni Friðrikssyni. Gunnar Einarsson bæjarstjóri og Áslaug Hulda Jónsdóttir formaður menningar- og safnanefndar fengu þann heiður að afhjúpa verkið formlega og greina frá heitinu.  Í leiðinni þökkuðu þau listamanninum fyrir þennan skemmtilega listgjörning sem hefur vakið mikla athygli á meðal sundgesta í sumar.  Við þetta tækifæri var sundlaugargestum boðið ókeypis í sund og gestir gátu notið góðra og heilsusamlegra veitinga. Verkið er staðsett úti á vegg við sundlaugina í Ásgarði.


Frá vinstri: Birgir Rafn Friðriksson, Áslaug Hulda Jónsdóttir og Gunnar Einarsson

Til sýnis næstu tvö árin

Sundlaugargestir hafa í sumar getað fylgst með framvindu verksins frá upphafi og hafa þeir verið óhræddir við að ræða við listamanninn um verkið á meðan á vinnunni stóð.  Birgir Rafn hefur einnig verið duglegur að lýsa vinnunni á fésbókarsíðu sinni þar sem hann hefur birt margar myndir af verkinu. Verkið er í raun ákveðinn listgjörningur og hugmyndin er að listaverkið fái að hanga úti við sundlaugina næstu tvö árin.  Verkið gæti því breyst á þeim tíma og ráða þar veður og vindar mestu um.   Ef vel heppnast þá er hægt að endurtaka leikinn og fá annan listamann til að búa til listgjörning í sundlauginni eftir tvö ár.

Um verkið


Verkið Ísland fjallar um umbreytingu (e.transformation) og listamaðurinn reyndi að láta sem flesta þætti verksins endurspegla þann útgangspunkt. Táknin í myndinni sýna þessi órofatengsl milli menningarinnar og náttúrunnar, hvernig menningin sjálf er með í sýn okkar á náttúruna og hvernig náttúran aftur kastar ljósi á menninguna á hverjum tíma. 

Birgir Rafn Friðriksson ritar hér nokkur vel valin orð um verkið (pdf-skjal)