5. ágú. 2011

Öflugt sumarstarf ungs fólks

Lokið er atvinnuátaksverkefni fyrir um 200 ungmenni í Garðabæ sem fram fór í júní og júlí.
  • Séð yfir Garðabæ

Lokið er atvinnuátaksverkefni fyrir um 200 ungmenni í Garðabæ sem fram fór í júní og júlí. Verkefnin voru fjölmörg og fjölbreytt, unnið var í fimm hópum, 10-12 manna undir stjórn flokkstjóra. Ungmenni fædd 1994 störfuðu í við ýmiskonar hreinsun s.s. á fjörum og lækjum t.d. var mikið verk að hirða spýtnareka og fokrusl í Gálgahrauni. Eins var unnið við heyrakstur á opnum svæðum, heftingu á útbreiðslu lúpínu með klippingu og slætti og þau stungu upp njóla í bæjarlandinu. Þau merktu einnig gamlar leiðir í Gálgahrauni. Veggjakrot var afmáð af eignum bæjarins undir stjórn málara.

Ungmenni 18 ára og eldri störfuðu í útmörkinni í skógræktarhópum að fjölbreyttum verkefnum. Tíu hópar með um 10 manns hver undir leiðsögn flokkstjóra. Samningur var gerður milli Skógræktarfélags Íslands, Garðabæjar og Skógræktarfélags Garðabæjar um samstarf. Samningurinn var styrktur af Skógræktarfélagi Íslands með endurgreiðslum á aðföngum og efniskostnaði við verkefnin. Vinnumálastofnun styrkti einnig nokkur launuð störf.
Helstu verkefni voru lagning nýrra útivistarstíga í Smalaholti, yfirlagning eldri stíga s.s. í Vífilsstaðahlíð, að Maríuhellum, að Búrfellsgjá, endurnýjaður var timburstigi niður Hjallamisgengið á gönguleið að Búrfellsgjá. Nýr stígur að Náttúrufræðihúsi á Urriðaholti að eldri slóða milli hrauns og hlíðar. Hefting útbreiðslu lúpínu með klippingu og slætti t.d. í friðlandinu við Vífilsstaðavatn og við gönguleiðir í útmörkinni.

Gróðursettar voru trjáplöntur í Smalaholti, Tjarnholti og Urriðaholti, auk áburðargjafa á eldri trjágróður. Í Smalaholti var unnið að vísi að trjásýnireit þar sem fjölbreyttar tegundir trjáa og runna voru gróðursettar til að gleðja göngufólk og til fróðleiks merktar með heiti. Einnig voru merkistaurar í trjásýnireitnum í Vífilsstaðahlíð endurnýjaðir.
Tínt var mikið magn af rusli austan Reykjanesbrautar, en yngri hóparnir hreinsuðu svæðin vestan megin.
Matthías Ólafsson stýrði þessum fjölmennu hópum í sumar. Hann naut faglegs liðsinnis Gústafs Jarls Viðarssonar skógfræðings sem Skógræktarfélagið lagði til í verkefnið.

Erla Bil Bjarnardóttir, garðyrkjustjóri