14. apr. 2011

Vísindanám í leikskólum

Leikskólakennarar hjá Garðabæ sóttu námskeið nú nýlega um vísindanám og hvernig kynna má ungum börnum vísindi svo sem eðlisfræði, líffræði og forritun.
  • Séð yfir Garðabæ

Leikskólakennarar hjá Garðabæ sóttu námskeið nú nýlega um vísindanám og hvernig kynna má ungum börnum vísindi svo sem eðlisfræði, líffræði og forritun. Námskeiðið tengist samstarfssamningi Garðabæjar og fyrirtækisins Marel um eflingu vísinda í leikskólum í Garðabæ. Samkvæmt honum hefur Marel gefið búnað í alla leikskóla í Garðabæ til vísindanáms.

Kennarar úr Háskóla Íslands

Öflugur hópur kennara úr Háskóla Íslands sá um námskeiðið til að efla starfsfólk leikskóla í vísindakennslu.

Haukur Arason dósent í eðlisfræði fjallaði um vísindaleiki og eðlisfræðikennslu ungra barna. Leikirnir sem Haukur kynnti fjalla um hraða, ljós og skugga, ljós og spegla og ljós og liti.

Stefán Bergmann dósent í líffræði og umhverfismennt kynnti verkefni sem tengdust notkun víðsjá og skoðuðu þátttakendur meðal annars grábjöllur og ánamaðka. Í sumar skapast ótal tækifæri fyrir börn í leikskólum að nýta víðsjá og skoða bæði náttúru og skordýr nánar.

Býfluga sem börnin forrita

Torfi Hjartarson lektor í kennslufræði og upplýsingatækni kynnti leikjamöguleika Beebot býflugnaþjarksins, en hann forrita börnin sjálf. Honum er ætlað að þjálfa rökhugsun ungra barna og efla áhuga þeirra á möguleikum forritunar. Þátttakendur voru sammála um að sá búnaður sem Marel gaf leikskólunum og námskeiðið komi til með nýtist þeim vel í starfi.

Leikskólakennarar fræðast um vísindanám

Beebot býflugnaþjarkurinn er til þess ætlaður að kveikja áhuga barna á forritun.