5. apr. 2011

Líflegar umræður um Arnarnes

Nærri tvö hundruð manns mættu á íbúafund um gerð deiliskipulags í Arnarnesi sem haldinn var í Sjálandsskóla fimmtudaginn 31. mars síðastliðinn.
  • Séð yfir Garðabæ

Nærri tvö hundruð manns mættu á íbúafund um gerð deiliskipulags í Arnarnesi sem haldinn var í Sjálandsskóla fimmtudaginn 31. mars síðastliðinn. Skipulagsnefnd boðaði til fundarins. Í líflegum umræðum um málið að loknum kynningum var helst rætt um nýtingarhlutfall íbúðarlóða, skipulag opna svæðisins á háholtinu, trjágróður og göngu- og hjólreiðarstíga.

Af hverju nýtt deiliskipulag?

Stefán Snær Konráðsson, formaður skipulagsnefndar gerði grein fyrir ástæðum þess að bæjarstjórn Garðabæjar hefur ákveðið að ráðast í gerð nýs deiliskipulags fyrir gróna byggð í Arnarnesi. Á síðastliðnu ári komst úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála að þeirri niðurstöðu að skipulag hverfisins, sem unnið hefur verið eftir í hálfa öld, hefði í raun vægi aðalskipulags og gæti því ekki talist löggilt deiliskipulag. Að mati Garðabæjar og Skipulagsstofnunar hefur skipulagið þó talist fullgilt deiliskipulag. Vandað var til þess í alla staði á sínum tíma þótt það standist að ýmsu leyti ekki kröfur nútímans um gerð deiliskipulags. Til  að eyða allri óvissu um gildi skipulagsins hefur verið ráðist í deiliskipulagsgerðina.

 

Stefán minnti á sérstöðu Arnarness sem einbýlishúsabyggðar í landslagi sem væri næstum fullkomið með tilliti til legu, landlagshalla og stórkostlegrar náttúru sem umlykur það á þrjá vegu. Það eru gæði sem standa á vörð um.

Ábendingar berist skipulagsstjóra

Að loknu útboðsferli sem 12 arkitektastofur tóku þátt í var arkitektastofan Hornsteinar valin til þess að vinna að gerð deiliskipulagsins.
Stefán tók skýrt fram, að í samræmi við skipulagslög er skipulagsnefnd að láta kynna lýsingu á deiliskipulagsgerðinni, þ.e. með hvaða hætti vinna skal skipulagið, hvaða áherslur eru lagðar til grundvallar og hvaða álitamál það væru sem taka þyrfti tillit til. Hann hvatti alla þá sem vilja koma með athugasemdir eða ábendingar um útfærslu deiliskipulagsins til að koma þeim á framfæri við skipulagsstjóra á næstunni en í kjölfar fundarins verður unnið að því að fullgera deiliskipulagstillöguna.

Fjölbreytt byggingarlist

Ögmundur Skarphéðinsson arkitekt hjá Hornsteinum kynnti þá vinnu sem fram hefur farið á síðustu mánuðum. Vinnan hefur falist í því að safna öllum eldri skipulagsgögnum; uppdráttum, mæliblöðum, skilmálum og ákvæðum afsala lóðanna. Markmiðið væri að öll ákvæði fyrra skipulags héldu sér í nýju deiliskipulagi en taka þyrfti afstöðu til nokkurra atriða sem tækifæri væri til að færa til betri vegar með nýju skipulagi.

 

Samhliða deiliskipulagsgerðinni vinna deiliskipulagsráðgjafar að húsakönnun í samræmi við skipulagslög. Við húsakönnun er lagt mat á varðveislugildi einstakra húsa og hverfisins í heild sinni. Ögmundur benti á að hverfið hefði þá sérstöðu að vera mjög fjölbreytt með tilliti til byggingarlistar og að allir helstu arkitektar þjóðarinnar ættu þar verk. En þó að varðveislugildi einstakra húsa sé metið þá þýðir það ekki að hugmyndin sé að friða hús eða takmarka breytingar heldur að bæði bæjaryfirvöld og eigendur séu meðvitaðir um stöðu húsanna í byggingarsögulegu tilliti.

Undirstrika þarf gæði hverfisins

Ögmundur gerði grein fyrir þeim álitamálum sem taka þarf afstöðu til en þau eru fyrst og fremst ákvæði um nýtingarhlutfall og útfærsla göngu- og hjólreiðastíga. Skoða þyrfti möguleika til eðlilegrar endurnýjunar bygginga í hverfinu er taki mið af heildaryfirbragði hverfisins, án þess að raska gæðum þess og réttindum íbúa. Undirstrika þarf gæði hverfisins m.a. með tilliti til útsýnis, aðgengi að strönd og útivistarsvæðum svo og hljóðvistar.

 

Kynning Ögmundar

Rætt um álitaefni

Að lokinni kynningu skipulagsráðgjafans var orðið frjálst og spunnust líflegar umræður um skipulag hverfisins. Ýmis álitaefni voru reifuð og fundarmenn settu mál sitt fram á málefnalegan hátt.

 

Það sem helst þarf að skoða í kjölfar fundarins eru með hvaða hætti nýtt deiliskipulag getur tekið á nýtingarhlutfalli íbúðarlóða, skipulagi opna svæðisins á háholtinu, trjágróðri og göngu- og hjólreiðarstígum. Skipulagið þarf að skilgreina á skýran hátt hvaða hámarkshæðir séu á byggingarreitum og veita góða leiðsögn til framtíðar um þróun hverfisins.

 

Ragný Guðjohnsen og Auður Hallgrímsdóttir fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn áréttuðu þá skoðun sína að leggja þyrfti göngustíg meðfram ströndinni umhverfis nesið eins og gert væri ráð fyrir í aðalskipulagi. Stefán svaraði því til að í aðalskipulagi væri ekki gert ráð fyrir stíg fyrir nesið, hinsvegar væri þar skilgreind útivistarleið sem væri til þess að minna á að öllum væri heimil för meðfram ströndinni. Í upphaflegu skipulagi var ekki gert ráð fyrir stíg og því hefðu eigendur sjávarlóða verið í góðri trú um að skipulag héldi hvað þetta atriði varðar. Hann benti einnig á að hér er í raun um aðalskipulagsmál að ræða og að við gerð deiliskipulagsins væri horft til þess að það væri í samræmi við aðalskipulag Garðabæjar 2004-2016.


Að lokum minnti Stefán á að hægt væri að leita til Arinbjarnar Vilhjálmssonar, skipulagsstjóra Garðabæjar ef almenningur vill koma einhverjum ábendingum eða athugasemdum á framfæri áður en gengið verður frá deiliskipulagstillögu á næstu dögum.

Arinbjör Vilhjálmsson,  arinbjorn@gardabaer.is