20. jan. 2011

Vel sóttur fundur um Garðaholt

Góð mæting var á opinn fund um gerð deiliskipulags í Garðahverfi sem skipulagsnefnd Garðabæjar hélt í félagsheimilinu Garðaholti miðvikudaginn 19. janúar. Fundarmenn tóku virkan þátt þegar orðið var gefið laust að lokinni kynningu.
  • Séð yfir Garðabæ

Góð mæting var á opinn fund um gerð deiliskipulags í Garðahverfi sem skipulagsnefnd Garðabæjar hélt í félagsheimilinu Garðaholti miðvikudaginn 19. janúar. Fundarmenn tóku virkan þátt þegar orðið var gefið laust að lokinni kynningu.

Stefán Snær Konráðsson, formaður skipulagsnefndar opnaði fundinn, greindi frá forsögu málsins og aðkomu Garðafélagsins og skipulagsráðgjafanna Alta ehf. Hann hvatti íbúa til að nýta sér tækifærið og koma með athugasemdir og ábendingar um deiliskipulagsgerðina.
Þá kynnti Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri þá vinnu sem fram hefur farið til þessa. Í máli hans kom fram að hann hefur ásamt skipulagsráðgjöfum heimsótt íbúa í Garðahverfi og rætt ýmis mál sem varða skipulag eins og landamörk, hugsanlegar gönguleiðir, náttúrufar o.s.frv.

Garðahverfi haldi sínu yfirbragði

Skipulagsráðgjafar hafa skilgreint forsendur skipulagsins með landlagsgreiningu og öflun upplýsinga um náttúrufar, menningarminjar og samfélag. Í drögum að deiliskipulagstillögu sem kynnt var á fundinum er gert ráð fyrir því að Garðahverfi haldi sínu yfirbragði og einkennum í framtíðinni. Gert verður ráð fyrir göngustígum meðfram ströndinni og einnig inni í byggðinni. Almenningi verður þar með auðveldaður aðgangur um hverfið án þess að það hafi truflandi áhrif. Skilgreindar verða leiðir sem leggja áherslu á náttúru og menningu með áfangastöðum sem eru athygliverðir á margan hátt.

Kirkjugarðurinn verði stækkaður

Í þeim drögum sem fyrir liggja er gert ráð fyrir stækkun kirkjugarðsins í Görðum til austurs og vesturs sem nemur einum hektara. Að mati tillöguhöfunda er sú stækkun hófleg og mun ekki raska þeim stærðarhlutföllum sem ástæða er til að virða í hinu gamalgróna Garðahverfi. Miðað við stækkunartillöguna verður hægt að fjölga legstöðum um 1750 eða úr 2391 í 4141. Þá er miðað við að um fimmtungur legstaða séu duftreitir. Ef hlutfall duftreita eykst mun garðurinn geta rýmt enn fleiri legstaði. Í dag eru 1306 legstaðir í notkun, þar af 83 duftreitir.

Skipulagsstjóri greindi einnig frá þeirri hugmynd að sköpuð verði aðstaða við hina fornu Garðavör neðan kirkjugarðsins. Þar yrði hægt verði að ýta sérútbúnum bát á flot og fólki gert kleift að dreifa ösku á sjó sem nú er heimilt samkvæmt lögum. Við naustið yrði síðan veggur þar sem nöfn þeirra sem dreift er á sjó kæmi fram.

Býli verði endurreist

Að lokum kynnti skipulagsstjóri hugmundir um byggingarreiti á svæðinu sem hafa það að markmiði að styrkja byggð í Garðahverfi og endurreisa býli sem hafa horfið á undanförnum áratugum. Grunnreglan yrði sú að á hverju býli yrði heimilt að reisa eitt lítið íbúðarhús 60 m2 að grunnfleti, kjallari hæð og ris eða að öllu leiti í samræmi við þau íbúðarhús sem fyrir eru. Settir yrðu skilmálar um byggingarefni og gluggagerð sem falla vel að byggðinni.

Forsagan og viðhorfsbreyting


Á fundinum kom fram að umtalsverðar breytingar hafa orðið í þeim drögum sem nú liggja fyrir að deiliskipulagi frá rammaskipulagi sem unnið var árið 2002. Það gerði ráð fyrir því að í Garðahverfi risu stórbyggingar sem myndu gjörbreyta svæðinu. Hluti af rammaskipulagsvinnunni var fornleifaskráning sem Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur stýrði. Meginniðurstaða þeirra rannsóknarvinnu var sú að það menningarlandslag sem fyrir væri í Garðahverfi væri einstakt og full ástæða til að varðveita það. Í kjölfarið urðu viðhorfsbreytingar sem höfðu áhrif við endurskoðun aðalskipulags. Í núgildandi aðalskipulagi sem samþykkt var í bæjarstjórn í mars 2006 var sú stefna sett að Garðahverfi er skilgreint sem minja- og íbúðasvæði. Þar er m.a. sett það markmið að "tryggt verði að byggð falli að umhverfi og stuðlað að útivist og náttúruskoðun og varðveislu verðmætra náttúru- og menningarminja." Það deiliskipulag sem nú er unnið að er því í fullu samræmi við áherslur aðalskipulagsins og hugmyndir Garðafélagsins ríma að öllu leyti við þær.

Hægt að koma ábendingum til skipulagsstjóra

Á eftir kynningu skipulagsstjóra var orðið laust og tóku margir fundarmenn til máls og lýstu flestir yfir ánægju sinni með þær áherslur sem skipulagsnefnd vinnur eftir við gerð skipulagsins. Formaður skipulagsnefndar benti á að þeir sem áhuga hafi á geti komið með ábendingar og athugasemdir til skipulagsstjóra á næstu dögum en nú er unnið að því að ganga frá deiliskipulagstillögunni.

Þeir sem áhuga hafa á því að fylgjast með framvindu verksins geta kynnt sér málið á heimasíðu verkefnisins http://gardar.alta.is  

Frá Garðaholti