21. maí 2010

Afreksstyrkir afhentir

Átta afreksíþróttamenn fengu í vikunni styrki úr afrekssjóði íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar. Afreksstyrkir eru veittir árlega, íþróttamönnun sem hafa náð framúrskarandi árangri í íþrótt sinni
  • Séð yfir Garðabæ

Átta afreksíþróttamenn fengu í vikunni styrki úr afrekssjóði íþrótta- og tómstundaráðs Garðabæjar. Afreksstyrkir eru veittir árlega, íþróttamönnun sem hafa náð framúrskarandi árangri í íþrótt sinni, sem einstaklingar eða með liði. Styrkirnir eru allt í senn viðurkenning á afrekum, hvatning til frekari dáða og framfara og ætlað að mæta að hluta til útlögðum kostnaði vegna þjálfunar og keppni.

 

Við afhendingu styrkjanna sagði Ragnhildur Inga Guðbjartsdóttir, formaður íþrótta- og tómstundaráðs m.a. við íþróttamennina:  "Þannig hafið þið með afrekum ykkar aukið enn hróður Garðabæjar og berið öflugu íþróttalífi Garðabæjar glöggt vitni. Það sem ekki síður skiptir máli eru fyrirmyndirnar sem þið skapið sem og sú mikla hvatning sem árangur til allra þeirra barna og unglinga sem stunda íþróttir. Við sem að bæjarmálunum komum erum sannarlega stolt af starfi ykkar, metnaði og árangri."


Áður en styrkir voru afhentir úr afrekssjóði kallaði Ragnhildur Inga upp Florentinu Stanciu, íþróttamann Garðabæjar 2009 og afhenti henni 100 þúsund króna styrk sem hvatningu til frekari árangur. Ragnhildur færði Florentinu líka gestabók frá hátíðinni þar sem tilkynnt var um kjör hennar sem íþróttamanns Garðabæjar.

 

Átta íþróttamenn hlutu styrki úr afrekssjóði í ár. Allir fengu þeir 100 þúsund krónur fyrir frábæran árangur og sem hvatningu til frekari árangurs.

 

Hér fyrir neðan er útdráttur úr því sem fram kom við afhendingu styrkjanna til hvers og eins þeirra.

Ragnheiður Ragnarsdóttir

Ragnheiður Ragnarsdóttir er afar metnaðarfullur íþróttamaður sem stefnir hátt í sinni íþróttagrein. Árangur Ragnheiðar á árinu staðfestir að hún er ein besta sundkona sem Ísland hefur átt. Ragnheiður er afar góð fyrirmynd sundmanna. Hún er dugleg að hvetja yngri sundmenn til árangurs, einnig veitir hún þeim góða leiðbeiningar i sundinu og er góður félagi allra sinna æfingafélaga. Ragnheiður hefur stundað þjálfun yngstu sundhópa Stjörnunnar af mikilli gleði. Ragnheiður hefur náð lengt allra sundkvenna sem æft hafa með sunddeild KR frá upphafi þar sem hún hefur sett fjölda KR meta, Reykjavíkurmeta og Íslandsmeta i sínum greinum á Íslandi og á smáþjóðaleikunum. Ragnheiður er Íslandsmeistari i 50 m og 100 m skriðsundi í 50 m og 25 m laug.

Linda Björk Lárusdóttir

Linda æfir frjálsar íþróttir 8 sinnum í viku. Á árinu 2009 var Linda í A-landsliði Íslands og keppti í 100 m grindahlaupi og 4*100 m boðhlaupi á Smáþjóðaleikunum á Kýpur. Einnig tók hún þátt í Evrópubikarkeppni landsliða í Sarajevo þar sem hún keppti í 100 m grindahlaupi og 4*100 m boðhlaupi. Í grindahlaupinu varð Linda í 4. sæti en í boðhlaupinu hafnaði sveitin í 3. sæti. Linda hampar Íslandsmeistara- og bikarmeistaratitlum í 60 m hlaupi og grindarhlaupi.

Hanna Rún Óladóttir

Hanna Rún samkvæmisdansari hefur orðið Íslandsmeistari 14 ár í röð. Hún stundar æfingar af mikilli eljusemi. Árið 2009 varð Hanna Rún m.a. Íslandsmeistari í flokki fullorðinna, bikarmeistari og DSÍ meistari í sama flokki. Hanna Rún hefur einnig tekið þátt í sterkum mótum erlendis og má geta þess að hún er búin að vinna sér inn rétt til að keppa á Evrópumeistaramótinu sem verður haldið í Tékklandi og Evrópubikarmótinu sem fer fram í Ungverjalandi. Í nóvember verður svo haldið til New York þar sem Hannar Rún keppir á heimsmeistaramóti.


Thelma Ólafsdóttir

Thelma Ólafsdóttir kraftlyftingakona úr Breiðablik keppti á undanförnu ári tvívegis erlendis, á heimsmeistaramóti unglinga í Brasilíu og á Evrópumóti unglinga í Svíþjóð. Árangur Thelmu á þeim mótum var mjög góður. Markmið Thelmu er að bæta Íslandsmet sem og fyrri árangur og komast í topp 10 í hverjum flokki fyrir sig og hækka sig þannig á heimslistanum. Thelma leggur mikla vinnu á sig og stundar æfingar af miklum krafti.


Alfreð Brynjar Kristinsson


Alfreð hefur verið meðal bestu kylfinga landsins undanfarin ár og átti sitt besta tímabil í ár, sem var kórónað með stigameistaratitli. Alfreð hefur æft undanfarin 2 ár hjá GKG. Yfir vetrartímabilið æfir hann 3-5 sinnum í viku, en yfir keppnistímabilið (maí-sept) æfir hann 6-7 sinnum í viku. Alfreð endaði í 1. sæti í sveitakeppni GSÍ með sveit GKG, í 1. sæti í meistaramóti GKG og 2. sæti í mótaröð GSÍ. Hann náði 10. sæti í Opna finnska áhugamannameistaramótinu og 10. sæti með sveit GKG í Evrópumeistaramóti klúbbliða í Tyrklandi. Alfreð er frábær fyrirmynd annarra yngri sem eldri kylfinga, hann tekur þátt í uppbyggingarstarfi GKG sem unglingaleiðbeinandi, og er mjög vinsæll meðal nemenda sinna.

Kristján Einar Kristjánsson 

Kristján Einar er tvítugur ökuþór en hann byrjaði að æfa gokart 11 ára gamall og hóf keppnisferil 14 ára. Kristján Einar vinnur nú að undirbúningi fyrir opnu Evrópsku Formúlu 3. Kristján Einar hefur sýnt að hann býr yfir miklum hæfileikum og þrautseigju í keppnisgrein sinni. 


Guðrún María Pétursdóttir


Guðrún María Pétursdóttir, frjálsíþróttakona er 18 ára og hefur æft frjálsar íþróttir frá 10 ára aldri. Íslandsmeistaratilar hennar eru allmargir eða 15 talsins og þar af 3 í kvennaflokki. Hún sýndi fljótt mikinn árangur í hástökki og er það hennar helsta grein í dag.

Í dag er Guðrún María á öðru ári við nám við frjálsíþróttaskólan Fridrottgymnasiet í Falum í Svíþjóð á íþrótta- og heilsubraut jafnhliða því að æfa frjálsar við toppaðstæður. Æfingar og keppnir eru fjórðungur af námi hennar til stúdentsprófs. Árangur hennar á mótum í Svíþjóð og hér heima er glæsilegur, en hún skipar sér alltaf á verðlaunapall.