10. jún. 2016

Fjölmenn söguganga um Fógetastíg

Hátt í 200 manns mættu í sögugöngu þar sem farið var um Fógetastíg í Gálgahrauni fimmtudaginn 9. júní sl. Gengið var um Fógetastíg nyrðri að Garðastekk og göngunni lauk við Grástein á Álftanesi.
  • Séð yfir Garðabæ

Hátt í 200 manns mættu í sögugöngu þar sem farið var um Fógetastíg í Gálgahrauni fimmtudaginn 9. júní sl. Gengið var um Fógetastíg nyrðri að Garðastekk og göngunni lauk við Grástein á Álftanesi.  Við upphaf göngunnar flutti Gunnar Einarsson bæjarstjóri ávarp þar sem hann bauð alla velkomna í gönguna í tilefni af 40 ára afmæli bæjarins á þessu ári.  Í vikunni var bæklingi dreift í hús í Garðabæ þar sem gönguleiðir í Gálgahrauni eru kynntar og þar á meðal er hin forna leið um Fógetastíg.  Við upphaf göngunnar opnaði bæjarstjóri einnig gönguleið um Gálgahraun í Wapp-leiðsagnarappinu. Í leiðsagnarappinu er einnig hægt að nálgast fleiri söguleiðir um Garðabæ án endurgjalds.  

Fornar leiðir um Gálgahraun (pdf-skjal)

Ragnheiður Traustadóttir fornleifafræðingur leiddi svo göngumenn sem voru á öllum aldri um Fógetastíginn og að Garðastekk, þar sem er að finna fjárrétt og tóftir gamla stekksins og við hann eru kennd Garðastekkstún. Frá Garðastekk var haldið áleiðis að Álftanesi þar sem gönguferðin endaði á Álftaneskaffi og þar var göngufólki boðið upp á kjötsúpu og kaffi.  Að lokinni vel heppnaðri göngu í góðu veðri var haldið aftur til baka með rútu að upphafsstað göngunnar. Fleiri fræðslu- og sögugöngur eru fyrirhugaðar síðsumars eða í haust og verða kynntar á vef Garðabæjar.

Fleiri myndir úr göngunni eru á fésbókarsíðu Garðabæjar.

Hátíðartillaga bæjarstjórnar um Fógetastíg og aðrar fornar leiðir í Gálgahrauni 

Á fyrsta bæjarstjórnarfundi í byrjun ársins var samþykkt hátíðartillaga þess efnis að á afmælisári Garðabæjar yrðu gerð gangskör að því að kynna hina fornu leið, Fógetastíg í Gálgahrauni og aðrar fornar leiðir í hrauninu.  Fógetastígurinn var allt fram á síðustu áratugi 19. aldar alfaraleið gangandi og ríðandi manna vestur á Álftanes og er einnig kallaður Álftanesgata. 

Gálgahraun var friðlýst árið 2009. Í framhaldi af því var Fógetastígurinn stikaður ásamt því að sett voru upp fræðsluskilti með kortum sem sýna legu hans. Í dag sjást greinilegir troðningar þar sem stígurinn lá á kafla en annars staðar er leiðin óljós. Vegna friðlýsingarinnar er ekki gert ráð fyrir óafturkræfum framkvæmdum við stíginn en að unnið verði markvisst að því að kynna hann og gera hann greiðfærari fyrir almenning til útivistar. Fógetastígurinn hefur ekki síst það gildi fyrir Garðbæinga í dag að vera forn leið sem tengir saman sveitarfélögin tvö sem nú hafa sameinast í eitt, Álftanes og Garðabæ. Sögulegt gildi stígsins er auk þess ótvírætt.
Í Sögu Garðabæjar eftir Steinar J. Lúðvíksson segir m.a. um Fógetastíginn:
Alfaraleið út á Álftanes hófst við Hraunsvik. Þaðan var haldið út á úfið hraunið og hefur sú leið ekki verið greiðfær í fyrstu en smám saman tróðust slóðir sem urðu sæmilega sléttar og vel færar fyrir gangandi og ríðandi menn. Þessi slóði nefndist Álftanesgata en fékk fleiri nöfn þegar tímar liðu og er nú oftast nefndur Fógetagata… Á löngum köflum leiðarinnar sjást djúpir troðningar sem eru eins og geil í hraunið um, 1 metra djúp og 1-2 metra breið. Ber slóðinn það með sér að hafa verið fjölfarinn.

Gálgahraun er nyrsti hluti svokallaðra Búrfellshrauna sem runnu frá eldstöðinni Búrfelli fyrir rúmum 7000 árum. Verndargildi Gálgahrauns liggur ekki síst í því hversu ósnortið það er þótt það sé í dag algróið fjölbreyttum gróðri. Í hrauninu eru margar menningarminjar, þ.á.m. fornar leiðir, Garðastekkur í hraunjaðrinum og aftökustaðurinn Gálgaklettur.