16. nóv. 2009

Friðlýsingar í Garðabæ kynntar

Skipulagsstjóri Garðabæjar kynnti stefnu Garðabæjar í verndun náttúru- og menningaminja á norrænni ráðstefnu í byrjun nóvember.
  • Séð yfir Garðabæ

Arinbjörn Vilhjálmsson, skipulagsstjóri  kynnti stefnu Garðabæjar í verndun náttúru- og menningaminja á norrænni ráðstefnu í Köge rétt sunnan Kaupmannahafnar í byrjun nóvember. Arinbjörn ræddi þar sérsaklega um friðlýsingar á eldstöðinni Búrfelli og Búrfellshraunum.

 

Ráðstefnan bar yfirskriftina „Den gode hverdag“ og er liður í samnorrænu verkefni sem kallast „Nýting náttúru og menningararfs við svæðisbundna nýsköpun og þróun“. Verkefnið er styrkt af Norræna ráðherraráðinu og Norðurlandaráði. Af Íslands hálfu eru það Umhverfisstofnun og Fornleifavernd ríkisins sem taka þátt í verkefninu. Að beiðni þeirra kynnti skipulagsstjóri stefnu og aðgerðir Garðabæjar í verndun mikilvægra náttúru-og menningarminja í sveitarfélaginu.

Gott dæmi um aðgerðir sveitarfélaga

Friðlýsingaráform Garðabæjar voru kynnt sem gott dæmi um það hvernig sveitarfélag getur stuðlað að varðveislu náttúruverðmæta til framtíðar og um leið auðveldað aðgengi að svæðunum með skipulagningu þeirra sem útivistarsvæða. Íbúum er þannig gert kleift að njóta þeirra gæða sem náttúran býr yfir í daglegu lífi. Kynningin bar yfirskriftina „Lavaelvebyen Garðarbær. Fra krater til kyst“ með vísan í þá miklu hraunelfi Búrfellshraun sem „rennur“ í gegnum Garðabæ.

Stórt svæði friðlýst

Frá árinu 2007 hefur Garðabær í samvinnu við Umhverfisstofnun friðlýst Vífilsstaðavatn, nyrsta hluta Gálgahrauns og Skerjafjörð samkvæmt náttúruverndarlögum. Stærð friðlandanna er 338 hektarar á landi og 427 hektarar á grunnsævi. Samkvæmt áformum bæjarstjórnar er fyrirhugað að friðlýsa eldstöðina Búrfell og hrauntröðina Búrfellsgjá sem friðland og það sem eftir er af Búrfellshraunum sem fólkvang eða alls 601 hektara.

Í framhaldi af friðlýsingum verða svæðin deiliskipulögð sem útivistarsvæði og verða því  1190 hektarar í Garðabæ friðlýstir og nýttir sem útivistarsvæði í framtíðinni. Það nemur tæplega þriðjungi bæjarlandsins þvert í gegnum miðju höfðuborgarsvæðisins.

Sérstaða Búrfellshrauns

Sérstaða Búrfellshrauns er mikil þar sem að ekki eru nema örfá dæmi þess að innan bæjarmarka sveitarfélags í þéttbýli sé að finna eldstöð og hraun sem eru að hluta ósnortin og að enn megi greina hraun frá eldstöð til hraunjaðars við strönd. Stór hluti hraunsins sem er 18 km2 að stærð hefur lent undir byggð,  í Hafnarfirði og Garðabæ, en verkefnið snýst um að varðveita það sem eftir er af hrauninu með áherslu á að viðhalda samhengi þess frá gíg til strandar.

Verkefni frá Norðurlöndunum kynnt


Á ráðstefnunni voru ýmis verkefni frá öllum norðurlöndum kynnt s.s. útivstarsvæði í Jakobsstad í Finnlandi, varðveisla menningarlandslags í Örkelljunga á Skáni, landlagsgarður í Herand við Harðangursfjörð, endurnýting gamallar kalknámu í Málmey, notkun grænna svæða í kennslu í grunnskólum í Nacka við Stokkhólm , umhverfisstefna sveitarfélagsins Vága í Færeyjum o.fl.

 

Frá undirskrift um friðlýsingu Gálgahrauns og Skerjafjarðar

Frá undirskrift um friðlýsingu Gálgahrauns og Skerjafjarðar í október 2009.