13. ágú. 2009

Áætlanir um lykilþjónustu

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og stofnanir á vegum þeirra eru að leggja lokahönd á samræmdar áætlanir um hvernig tryggja má órofna lykilþjónustu á meðan inflúensufaraldur
  • Séð yfir Garðabæ

Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og stofnanir á vegum þeirra eru að leggja lokahönd á samræmdar áætlanir um hvernig tryggja má órofna lykilþjónustu á meðan inflúensufaraldur gengur yfir. Viðbúnaðurinn snertir nær alla þætti í starfsemi sveitarfélaganna og er gert ráð fyrir gagnkvæmri aðstoð við að ná markmiðunum ef þörf krefur. Samstarf og samræming hafa auðveldað vinnu sveitarfélaganna mjög og tryggja að viðbúnaður sé með sambærilegum hætti á svæðinu öllu. Náið samráð er einnig haft við sóttvarnalækni og lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu sem gegna lykilhlutverki af hálfu ríkisvaldsins.

Sóttvarnalæknir hefur upplýst að inflúensufaraldurinn sé tiltölulega vægur. Samkvæmt landsáætlun vegna heimsfaraldurs getur faraldur þó valdið miklum forföllum í röðum starfsmanna. Aðilar sem annast samfélagslega mikilvæg verkefni sem lúta að grunnstoðum, öryggi og velferð þurfa því að gera sérstakar ráðstafanir og skipulagsbreytingar til að tryggja að þeir geti áfram veitt þá lykilþjónustu sem þeim hefur verið treyst fyrir og íbúarnir reiða sig á.

Sveitarfélögin Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Mosfellsbær, Seltjarnarnes og Álftanes hafa unnið að áætlunum um viðbúnað á undanförnum mánuðum í samræmi við landsáætlun. Framkvæmdastjórar sveitarfélaganna, sem jafnframt skipa stjórn Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS), fólu slökkviliðsstjóra að samhæfa vinnu sveitarfélaganna við gerð áætlana. Slökkviliðsstjóri og starfsmenn hans hafa á undanförnum vikum og mánuðum unnið mjög náið með starfsfólki sveitarfélaga og stofnana þeirra að skipulagningu og samræmingu viðbúnaðar.

Áætlanir sveitarfélaganna og stofnana þeirra miða að því að tryggja að lykilstarfsemi rofni ekki í inflúensufaraldri. Hér er meðal annars átt við starfsemi veitna, almenningssamgöngur, rekstur skóla og leikskóla, heimaþjónustu og heimahjúkrun, eldvarnir, sjúkraflutninga og fleira sem sveitarfélögin bera ábyrgð á.

Til að ná markmiðum sveitarfélaganna getur þurft að grípa til ráðstafana sem hafa áhrif á dagleg störf starfsfólks þeirra. Mikil áhersla verður lögð á að kynna áætlanirnar fyrir starfsfólki og íbúum þegar þær liggja fyrir.

Sjá einnig upplýsingar á vefslóðinni www.influensa.is.