25. apr. 2016

Leitað að uppskriftinni að hamingjunni

Eldri borgarar á Ísafold hafa að undanförnu tekið þátt í lokaverkefni í diplómanámi í jákvæðri sálfræði þar sem leitað er að uppskriftinni að hamingjunni með því að draga fram hagnýta visku aldraðra.
  • Séð yfir Garðabæ

Eldri borgarar á Ísafold hafa að undanförnu tekið þátt í lokaverkefni í diplómanámi í jákvæðri sálfræði þar sem leitað er að uppskriftinni að hamingjunni með því að draga fram hagnýta visku aldraðra. 

Ingrid Kuhlman, framkvæmdastjóri Þekkingarmiðlunar er sú sem vinnur að lokaverkefninu í námi sínu sem er á meistarastigi í Háskóla Íslands. Verkefnið samanstendur bæði af ritgerð og af heimildamynd. Ingrid hefur tekið viðtöl við 13 aldraða um lykilinn að hamingjunni og það sem þeir hafa að miðla til yngri kynslóða. Í heimildarmyndinni koma fram hagnýtar ráðleggingar frá fólki með samtals meira en 930 ára lífsreynslu um það hvernig hægt er að ná sem mestu út úr lífinu. Viðtölin færa okkur jafnframt heillandi innsýn í það sem aldraðir gera til að auka vellíðan sína.

Í lýsingu á verkefninu segir m.a.:

Eftir því sem við eldumst öðlumst við mörg dýrmæta þekkingu á því hvernig á að lifa hamingjusömu lífi. Of oft kemur þessi þekking of seint þegar við erum búin að gera sársaukafull mistök eða höfum sóað dýrmætum tíma og orku. Dæmi um það er þegar fólk reynir að klifra upp metorðastigann í starfi sínu og nær góðum árangri, en er samt vansælt. Foreldrar læra stundum of seint hvað skiptir máli í uppeldi barnanna, sem segja má að sé eitt mikilvægasta verkefni fullorðinsáranna. Skilnaðartíðnin er há og margir væru eflaust þakklátir að vita galdurinn á bak við langt og farsælt hjónaband þannig að ekki þurfa að koma til skilnaðar.

Hví ekki að spyrja aldraða sem hafa öðlast ákveðna yfirsýn og skýrleika og ættu að vera sérfræðingar í því hvernig á að lifa hamingjusömu lífi? Hér er um að ræða einstaklinga sem hafa flestir þurft að takast á við alls kyns persónulegar áskoranir s.s. missi foreldra og maka, jafnvel barna, hæðir og lægðir í hjónabandinu, efnahagskreppur, uppeldisvandamál, starfsmissi, sjúkdóma, atvinnuleysi o.fl. Þeir hafa komist í gegnum mótlætið og eru oft hamingjusamari en ungt fólk eins og rannsóknir í jákvæðri sálfræði hafa sýnt okkur. Varla er hægt að finna betri ráðgjafa en þá og við getum eflaust lært mjög margt af þeim.

Sjá einnig á fésbókarsíðu Ísafoldar.