8. feb. 2016

Góð stemning á Safnanótt

Stöðugur straumur fólks var á Bókasafnið við Garðatorg á safnanótt
  • Séð yfir Garðabæ

Hin árlega Safnanótt var haldin föstudagskvöldið 5. febrúar sl. Safnanótt er hluti af Vetrarhátíð og þetta var í sjöunda sinn sem söfn í Garðabæ tóku þátt í hátíðinni.  Hönnunarsafn Íslands, burstabærinn Krókur á Garðaholti og Bókasafn Garðabæjar á Garðatorgi og á Álftanesi voru með opið hús frá kl. 19 til miðnættis á Safnanótt.

Í Bókasafninu á Garðatorgi var stöðugur straumur fólks allt kvöldið og skemmtileg dagskrá fyrir alla aldurshópa. Gestir kunnu vel að meta þá nýjung að fá tíma hjá spákonu á Safnanótt og á meðan beðið var eftir spákonunni var gluggað í bækur og tímarit á safninu. Fjölbreytt tónlistardagskrá var í boði og á síðari hluta kvöldsins var boðið upp á stutta tónleika með þeim Valdimari Guðmundssyni og Ómari Guðjónssyni. Í Bókasafninu á Álftanesi var boðið upp á origami föndursmiðju, tónlistaratriði og í lok kvölds var hægt að horfa á japanska verðlaunateiknimynd. 

Fjölmargir lögðu einnig leið sína út á Garðaholt til að skoða bæinn Krók sem var með opið hús í tilefni kvöldsins. Krókur er lítill bárujárnsklæddur burstabær sem var endurbyggður úr torfbæ og þar er opið fyrir almenning alla sunnudaga á sumrin.

Í Hönnunarsafni Íslands voru fjórir nemendur úr Fjölbrautaskólanum í Garðabæ í stóru hlutverki sem leiðsögumenn.  Nemendurnir gripu gesti safnsins glóðvolga og sögðu frá munum úr safneign safnsins sem þau höfðu sjálf valið að segja frá. Sköpuðust ágætar samræður milli þeirra og gestanna. Einnig voru hefðbundnari leiðsagnir um sýningar safnsins og gestir á öllum aldri gátu föndrað tröll í smiðjuhorni safnsins.

Á fésbókarsíðum Hönnunarsafnsins og Bókasafns Garðabæjar er hægt að sjá skemmtilegar myndir frá Safnanótt.  Einnig eru myndir á fésbókarsíðu Garðabæjar.