11. nóv. 2015

Erasmus+ verkefni í Garðaskóla

Garðaskóli er einn af 13 leik-, grunn- og framhaldsskólum á landinu sem hlutu í haust styrk til nýs Erasmus+ samstarfsverkefnis
  • Séð yfir Garðabæ
Um margra ára skeið hefur Garðaskóli tekið þátt í sameiginlegum verkefnum nokkurra Evrópulanda með styrk frá Evrópusambandinu. Verkefnin hafa verið margvísleg og hafa bæði nemendur og kennarar skólans tekið þátt. Mest hefur verið unnið með skólum í Þýskalandi, Frakklandi, Spáni, Ítalíu og Finnlandi og í tveimur verkefnum kom skóli frá Kína inn í samstarfið. Útkoman úr samstarfinu hefur einnig verið breytileg. Alltaf hefur þó verið haft að leiðarljósi að auka skilning og virðingu fyrir menningu og margbreytileika annarra Evrópuþjóða.

Gagnkvæmar nemendaheimsóknir

Mikilvægur hluti af hverju samstarfsverkefni eru gagnkvæmar nemendaheimsóknir. Þar hefur nemendum Garðaskóla og hinna þátttöku skólanna gefist tækifæri til þess að heimsækja jafnaldra sína, setjast á skólabekk erlendis, njóta gestrisni heimamanna og fá innsýn í menningu og siði annarrar Evrópuþjóðar. Þessi nemendaskipti hafa verið mjög gefandi og þroskandi. Sé litið yfir þátttöku nemenda Garðaskóla í Comenius samstarfi undanfarin 15 ár má ætla að yfir 100 nemendur hafi tekið þátt nemendaskiptunum og a.m.k. þrisvar sinnum fleiri lagt hönd á plóg í sameiginlegu verkefnunum. Vinnutungumálið í öllum þessum samskiptum er enska. Evrópusamstarfsverkefnin hafa verið vettvangur þverfaglegs starfs í Garðaskóla þar sem fjöldi kennara hafa komið að vinnunni á einn eða annan hátt.

Erasmus + samstarfsverkefnið

Í janúar á síðasta ári var nýrri samstarfsáætlun sem tekur við af Comenius, hleypt af stokkunum. Þessi nýja áætlun sem heitir Erasmus+, setur mennta-æskulýðs og íþróttamál undir einn hatt og stendur til ársins 2020. Markmið Erasmus+ er annarsvegar að styðja við verkefni sem eiga að auka færni og hæfni einstaklinga til að takast á við störf framtíðarinnar og hinsvegar að stuðla að nútímavæðingu mennta-og æskulýðskerfa meðal þátttökulandanna þrjátíu og þriggja.

Haustið 2015 var Garðaskóli einn af 13 leik-, grunn- og framhaldsskólum víðsvegar af landinu sem hlaut styrk til nýs Erasmus+ samstarfsverkefnis. Skrifað var undir samning þess efnis við Landsskrifstofu Erasmus+ á Íslandi þann 10. október sl. Samstarfsskólarnir koma frá Þýskalandi, Ítalíu, Spáni, Finnlandi og Grikklandi. Verkefnið sem unnið verður 2015-2017 nefnist „From Raw Material to Final Product, a contribution to the curriculum“  og hófst það formlega þegar skólastjórar og verkefnisstjórar samstarfsskólanna hittust í Garðabæ dagana 3.-8. nóvember til að ræða og skipuleggja frekar það starf sem er framundan.

Nýting íslensku ullarinnar

Í íslenska hluta verkefnisins sem nefnist „from sheep to sweater“ verður lögð áhersla á nýtingu íslensku ullarinnar á fjölbreytilegan og skapandi hátt. Einnig er stefnt að því að leita til fyrirtækja í bænum til að nemendur fái að kynnast því ferli sem liggur að baki fullunninni vöru, auk þess sem þeir munu taka þátt í skapandi vinnu undir handleiðslu kennara meðan á nemendaheimsóknum stendur. 

Verkefnið verður kynnt fljótlega innan Garðaskóla en rúmlega tuttugu nemendum í 9. bekk mun standa til boða að taka þátt í verkefninu og nemendaheimsóknum til Finnlands, Þýskalands og Spánar. Umsóknarferli um þátttöku í verkefninu mun fara fram á næstu vikum og í kjölfar þess fer vinna nemenda og kennara af stað af fullum krafti.

Á meðfylgjandi myndum með frétt má sjá skólastjóra og verkefnisstjóra samstarfsskólanna í Erasmus-verkefninu í heimsókn í Hönnunarsafni Íslands þar sem bæjarstjóri Garðabæjar tók á móti hópnum og einnig er mynd af hópnum að störfum í Garðaskóla.