29. maí 2015

Karólína Eiríksdóttir tónskáld er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2015.

Karólína Eiríksdóttir tónskáld er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2015. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar árið 2015 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti fimmtudaginn 28. maí.
  • Séð yfir Garðabæ

Karólína Eiríksdóttir tónskáld er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2015. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar árið 2015 á Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti fimmtudaginn 28. maí. Allt frá árinu 1992 hefur Garðabær veitt styrk til listamanns eða listamanna. Sá aðili sem fyrir valinu verður hefur fengið þann heiður að vera nefndur bæjarlistamaður Garðabæjar.
Þetta var í fjórða sinn sem sérstök menningaruppskeruhátíð er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar og í ár var sérstaklega horft til framlags kvenna í Garðabæ til menningarmála í tilefni af 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna á Íslandi árið 2015.  Gunnar Valur Gíslason formaður menningar- og safnanefndar setti hátíðina og þakkaði öllum þeim listamönnum í Garðabæ sem hafa lagt sitt af mörkum til menningarmála í Garðabæ. Því næst stigu á svið ungir og efnilegir Garðbæingar þau Aron Örn Óskarsson og Ingibjörg Fríða Helgadóttir og fluttu tvö lög fyrir gesti. Á meðan á dagskránni stóð gátu gestir einnig skoðað örmyndlistarsýningu Grósku, félags myndlistarmanna og áhugamanna um myndlist í Garðabæ, sem var sett upp á Garðaholti í tilefni dagsins.

Á hátíðinni voru veittar viðurkenningar til ungra og efnilegra listamanna í Garðabæ sem fengu úthlutaða styrki úr Hvatningarsjóði ungra listamanna vorið 2015. Í ár voru það þrír einstaklingar og einn hópur sem fengu úthlutun úr Hvatningarsjóðnum, Silja Hinriksdóttir fyrir áframhaldandi þróun á hönnun fatalínu, Kolbeinn Þórsson fyrir tónleikahald með hljómsveitinni Lucy in Blue, Inga Huld Hákonardóttir fyrir kynningarsýningu á dansverki og Gospelkór Jóns Vídalíns fyrir tónleikahald. Kvennakór Garðabæjar var einnig heiðraður fyrir öflugt menningarstarf í 15 ár og kórinn steig á svið á menningaruppskeruhátíðinni og flutti nokkur vel valin lög eftir konur þar á meðal verk eftir Karólínu Eiríksdóttur.

Karólína Eiríksdóttir – bæjarlistamaður Garðabæjar 2015

Karólína Eiríksdóttir stundaði nám við Tónlistarskólann í Reykjavík og hélt svo til framhaldsnáms við University of Michigan þaðan sem hún lauk meistaraprófi í tónlistarsögu og -rannsóknum árið 1976 og meistaraprófi í tónsmíðum árið 1978. Hún hefur frá árinu 1979 unnið við tónsmíðar, kennslu og margvísleg önnur tónlistarstörf. Karólína hefur verið í stjórnum Íslenskrar tónverkamiðstöðvar, Tónskáldafélags Íslands, Listahátíðar í Reykjavík og Listaháskóla Íslands. Tónverk Karólínu hafa verið flutt víðsvegar um heim m.a. á norrænum tónlistarhátíðum og á Íslandi. Verkin eru af fjölbreyttum toga, níu verk fyrir sinfóníuhljómsveit, fjórar óperur, verk fyrir kammerhljómsveitir, kammer- og einleiksverk, verk fyrir einsöngvara og kóra og raftónlist.

Meðal verka hennar í gegnum tíðina má nefna hljómsveitarverkið ,,Sónans“ sem var flutt við opnun Scandinavia Today í Washington D.C. árið 1980. Ríkissjónvarpið pantaði verkið ,,Sinfonietta“ fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands árið 1985. Óperan ,,Någon har jag sett“ var pöntuð og flutt af Vadstena Akademien í Svíþjóð og hefur síðan verið flutt í Reykjavík, Lundúnum og Greifswald.  Árið 1992 var Karólína eitt þeirra tónskálda sem kynnt voru á Norrænu tónlistarhátíðinni í Gautaborg. Toccata fyrir hljómsveit var pöntuð og flutt af Orkester Norden árið 1999, m. a. við opnun Norrænu sendiráðanna í Berlínar Fílharmoníu tónlistarhúsinu sama ár. Kammeróperan ,,Maður lifandi“ var flutt í Reykjavík árið 1999 og tilnefnd til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs árið 2000.  Óperan ,,Skuggaleikur“ við texta eftir Sjón var frumflutt í Íslensku Óperunni í samvinnu við Strengjaleikhúsið í nóvember 2006 og sú ópera var einnig tilnefnd til tónskáldaverðlauna Norðurlandanna. Einnig má nefna verk unnin í samvinnu við myndlistartvíeykið Ólaf Ólafsson og Libiu Castro: ,,Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands“ (2008), ,,Caregivers“ (2008) og ,,Landið þitt er ekki til“ (2011), sem hafa öll verið sýnd víða um heim. ,,Stjórnarskrá Lýðveldisins“ og ,,Landið þitt er ekki til“ voru framlag Íslands á Feneyjatvíæringnum árið 2011. 
Auk þessa hefur tónlist Karólínu verið flutt við ýmis tækifæri, t.d. af BBC Scottish Symphony Orchestra í Glasgow, Arditti Strengjakvartettinum í London, Íslensku kammerhljómsveitinni í Kennedy Center, Washington D.C., á Norrænum músíkdögum, Kuhmo hátíðinni í Finnlandi, Myrkum músíkdögum, raftónlistarhátíðum í Svíþjóð og á Íslandi, ISCM í Moldavíu og Sinfóníuhljómsveitinni í Santa Fé í Argentínu. Verk Karólínu er að finna á fjölmörgum geisladiskum í flutningi ýmissa listamanna og hljómsveita.  Nýjasta verk Karólínu er óperan ,,Magnús María“, sem var frumflutt á Álandseyjum í júlí 2014 og hefur í kjölfarið verið sýnd í Svíþjóð og Finnlandi.  Óperan var frumsýnd í óperunni í Osló 23. maí sl. og í Ystad í Svíþjóð 27. maí. 

Listahátíð í Reykjavík í ár er innblásin af verkum kvenna á mörgum sviðum í tilefni af 100 ára kosningaafmæli kvenna og verk Karólínu eru þar á meðal.  Þrjú verk eftir Karólínu Eiríksdóttur eru sýnd á Listahátíð í Reykjavík sem nú stendur yfir og óperan MagnusMaria verður sýnd 3. júní nk. í Þjóðleikhúsinu.