26. jan. 2018

Niðurstöður úr viðhorfskönnun um jafnréttismál, starfsþróun og endurmenntun

Haustið 2017 var gerð viðhorfskönnun meðal starfsfólks Garðabæjar um jafnréttismál, starfsþróun og endurmenntun. Könnunin var unnin sem liður í jafnréttisáætlun Garðabæjar fyrir árin 2014-2018. Markmið jafnréttisáætlunar Garðabæjar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

  • Menntadagur
    Menntadagur

Haustið 2017 var gerð viðhorfskönnun meðal starfsfólks Garðabæjar um jafnréttismál, starfsþróun og endurmenntun.   Könnunin var unnin sem liður í jafnréttisáætlun Garðabæjar fyrir árin 2014-2018.  Markmið jafnréttisáætlunar Garðabæjar er að koma á og viðhalda jafnrétti og jöfnum tækifærum kvenna og karla og jafna þannig stöðu kynjanna á öllum sviðum samfélagsins.

Í öðrum kafla jafnréttisáætlunarinnar er fjallað um sveitarfélagið Garðabæ sem atvinnurekanda og þar segir:  „Við úthlutun verkefna, tilfærslur í störfum og uppsagnir skal þess gætt að kynjum sé ekki mismunað. Gæta skal þess að konur og karlar njóti sömu kjara og starfsaðstæðna. Starfsþróun og símenntun skal nýta til aukins jafnréttis kynja. Auðvelda skal bæði konum og körlum að samræma einkalíf, fjölskylduábyrgð og starf. Það telst ekki mismunun að taka sérstakt tillit til kvenna vegna þungunar, barnsburðar og umönnunar ungbarna“.  

Viðhorf starfsmanna til samræmingar atvinnu- og einkalífs

Samkvæmt jafnréttisáætluninni er kveðið á um að leggja skuli könnun fyrir starfsfólk sveitarfélagsins til að meta hvernig það upplifi jafnrétti í starfi og möguleika til starfsþróunar og símenntunar.  Í könnuninni sem var lögð fyrir starfsmenn í haust var einnig reynt að fá fram viðhorf starfsmanna til samræmingar atvinnu- og einkalífs og starfsfólk var beðið um að koma á framfæri tillögum eða ábendingum um viðfangsefni könnunarinnar. 

Könnun unnin í samráði við Jafnréttisstofu

Viðhorfskönnun sem var lögð fyrir starfsmenn Garðabæjar var unnin af Ingu Þóru Þórisdóttur, mannauðsstjóra Garðabæjar í samráði við Jafnréttisstofu sem bar ábyrgð á varðveislu og úrvinnslu gagna.  Könnunin var rafræn og send á 921 starfsmenn í t-pósti á 40 skilgreinda vinnustaði Garðabæjar. Svör bárust frá 395 og telst svörun því 43%. Konur voru 329, eða 83% þátttakenda í könnuninni og karlar 66 eða 17%.

Niðurstöður úr könnuninni voru kynntar fyrir stuttu í bæjarráði Garðabæjar.
Hér má sjá helstu niðurstöður könnunarinnar (pdf-skjal)