21. des. 2017

Forkynningarfundur um endurbætur Hafnarfjarðarvegar

Fimmtudaginn 14.desember sl. var haldinn opinn fundur þar sem tillögur um endurbætur Hafnarfjarðarvegar á milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss/Lækjarfitjar og Vífilsstaðavegar að Litlatúni voru kynntar. Fundurinn var boðaður af skipulagsnefnd og tækni-og umhverfissviði Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ
Fimmtudaginn 14.desember sl. var haldinn opinn fundur þar sem tillögur um endurbætur Hafnarfjarðarvegar á milli Vífilsstaðavegar og Lyngáss/Lækjarfitjar og Vífilsstaðavegar að Litlatúni voru kynntar. Fundurinn var boðaður af skipulagsnefnd og tækni-og umhverfissviði Garðabæjar.

Á fundinum gerði Sigurður Guðmundsson formaður skipulagsnefndar Garðabæjar grein fyrir stöðu undirbúnings fyrihugaðra framkvæmda sem verða fyrst og fremst á vegum Vegagerðarinnar en hluti af þeim verður á vegum Garðabæjar.  Sigurður lagði á það áherslu að stjórnvöld í Garðabæ hefðu margsinnis lýst þeirri skoðun sinni að umferðarástand við Hafnarfjarðarveg á álagstímum sé óásættanlegt með öllu og brýnt að ráða bót á því sem fyrst.  Baldur Grétarsson verkefnisstjóri hjá Vegagerðinni gerði grein fyrir hönnun og verktíma framkvæmdanna.

Hvergi hvikað frá markmiðum aðalskipulags

Fram kom að þær endurbætur sem nú verður ráðist í eru endurbætur og styrking á núverandi útfærslu gatnakerfisins á þessum stað. Formaður skipulagsnefndar tók skýrt fram að þó svo að nú verði ráðist í þessar endurbætur þá sé hvergi hvikað frá markmiðum Aðalskipulags Garðabæjar um mislæg gatnamót og vegstokk frá Vífilsstaðavegi að Lyngási.  Sú stefna hefur verið sett fram í Aðalskipulagi Garðabæjar 2004-2016 og er óbreytt í því nýja aðalskipulagi sem samþykkt hefur verið og bíður nú afgreiðslu Skipulagsstofnunar. Auk þess hefur nýverið verið samþykkt rammaskipulag fyrir Lyngássvæði og Hafnarfjarðarveg sem gerir einnig ráð fyrir vegstokk og uppbyggingu miðbæjarsvæðis sem nýtir sér þá möguleika sem stokkur skapar.

Formaður skipulagsnefndar gerði grein fyrir því að þrátt fyrir áherslur Garðabæjar sem fylgt hefur verið eftir allar götur frá árinu 2006 þá hafa ekki fengist fjárveitingar í svo kostnaðarsama útfærslu en Hafnarfjarðarvegur er stofnbraut og því undir forræði Vegargerðarinnar og þá ríkisvaldsins.  Nú hefur Vegagerðin ráðstafað fjármagni til þess að ráðast í endurbæturnar og fagnar Garðabær því að það verði gert sem fyrst. Stefnt verður að því að ráðast í framkvæmdirnar næsta vor.

Bætt umferðarflæði

Endurbæturnar hafa það að markmiði að bæta umferðarflæði inn á Hafnarfjarðarveg úr byggð í Garðabæ, auka umferðaröryggi bæði akandi og gangandi vegfarenda og liðka fyrir almenningssamgöngum á álagstíma.

Tillögurnar eru enn í mótun en Garðabær leggur áherslu á að vera í góðu samráð við lóðarhafa og almenning í tengslum við tillögugerðina og síðar framkvæmdina.

Til þess að unnt verði að veita framkvæmdaleyfi þá verða kynntar breytingar á 5 deiliskipulagsáætlunum aðliggjandi svæða og nýtt deiliskipulag fyrir Vífilsstaðaveg. Endurbæturnar á Hafnarfjarðarvegi og gatnamótunum verða kynntar sem framkvæmdaleyfisumsókn þar sem að þær eru endurbætur á núverandi ástandi en ekki í samræmi við endanlegt markmið Garðabæjar.

Kynningin nú er svokölluð forkynning en í kjölfar forkynningar verðar tillögur unnar áfram og tekin afstaða til þeirra ábendinga sem borist hafa. Unnt er að skila inn ábendingum til tækni-og umhverfissviðs Garðabæjar til 2.janúar.

Stefnt er að því að tillögurnar, bæði deiliskipulagsáætlanirnar og framkvæmdaleyfisumsóknin verði vísað til auglýsingar seinni hluta janúar eða í febrúar. Þá gefst almenningi kostur á að gera athugasemdir innan tilskilins 6 vikna frests og verður þeim svarað með rökstuðningi bæjarstjórnar eins og lög gera ráð fyrir.

Forkynning - auglýsing - gögn