18. júl. 2017

Endurheimt votlendis við Urriðavatn

Umhverfisráðherra tók fyrstu skóflustunguna að samstarfsverkefni Toyota á Íslandi, Urriðaholts, Landgræðslu ríkisins, Byggingarfélags Gylfa og Gunnars og Garðabæjar um endurheimt votlendis við Urriðavatn.
  • Séð yfir Garðabæ
Fimmtudaginn 20. júlí var undirritaður samningur á milli Garðabæjar, Toyota á Íslandi ehf, Urriðaholts ehf, Landgræðslu ríkisins og Byggingarfélags Gylfa og Gunnars hf um endurheimt votlendis við Urriðavatn í Garðabæ. Viðstaddir undirritunina voru umhverfisráðherra, Björt Ólafsdóttir, sem tók fyrstu skóflustunguna við uppfyllingu skurða á gröfu, samningsaðilar sem eru Toyota, Urriðaholt ehf og landeigendur, bæjarstjórn Garðabæjar, fulltrúar umhverfisnefndar Garðabæjar, fulltrúar frá Strendingi og Verkís, fulltrúar Landgræðslu ríkisins og Garðabæjar.

Urriðavatn og umhverfi er á náttúruminjaskrá og markmið verkefnisins er að færa land í átt til fyrra horfs og skapa lífsskilyrði fyrir gróður og dýralíf sem áður ríkti og skapa einnig aukið svigrúm fyrir útivistaraðstöðu í umhverfi Urriðavatns.

Toyota á Íslandi hafði frumkvæði að verkefninu

Toyota á Íslandi hafði frumkvæði að endurheimt votlendis við Urriðavatn og styrkir framkvæmdina að stærstum hluta. Garðabær undirbjó verkefnið og sér um framkvæmd þess ásamt aðilum samstarfssamningsins. Urriðaholt ehf leggur til efni í fyllingu skurðanna, Byggingarfélag Gylfa og Gunnars hf er landeigandi og leggur til svæði við endurheimt votlendis og Landgræðsla ríkisins tekur þátt í verkefninu með ráðgjöf, vöktun og vinnu við árangursmat.

Samstarf ýmissa aðila á svæðinu

Verkið felst í uppfyllingu skurða sem eru 815 lengdarmetrar með aðfluttu efni úr næsta nágrenni eða frá Urriðaholti, ásamt efni á bökkum skurðanna. Með tímanum ætti endurheimt votlendi að binda kolefni í stað þess að losa það út í andrúmsloftið en votlendi geyma verulegan hluta kolefnisforða jarðarinnar. Verkið verður unnið með sama hætti og framkvæmd við endurheimt votlendis við Kasthúsatjörn á Álftanesi sem einnig var styrkt af Toyota á Íslandi og Landgræðslu ríkisins.

Endurheimt votlendis við Urriðavatn er framhald á samstarfi Garðabæjar og Toyota á Íslandi en vatnið er í nærumhverfi fyrirtækisins sem er staðsett í Kauptúni í Garðabæ. Samhliða framkvæmdum við endurheimt votlendisins verður farið í gerð stígs sem er framhald útivistarstígs sem liggur nú sunnan byggðar í Urriðaholti. Stígur umhverfis Urriðavatnið er á aðalskipulagi Garðabæjar.

Umhverfisstofnun segir í umsögn sinni um verkefnið að framkvæmdin sé til þess fallin að hafa jákvæð áhrif á svæðið. Árangur við endurheimt votlendis verður metinn og fylgst verður með framvindu svæðisins og fuglalífi þar.