9. okt. 2014

Skólahúsið á Bjarnastöðum 100 ára

Laugardaginn 4. október sl. var haldið upp á aldarafmæli skólahússins á Bjarnastöðum á Álftanesi. Í hátíðarsal íþróttahússins þar útfrá fór fram hátíðardagskrá þar sem fyrirlesarar fluttu áhugaverð erindi tengd skólasögu Álftaness og félagslegu og menningarlegu hlutverki Bjarnastaða í gegnum tíðina.
  • Séð yfir Garðabæ

Laugardaginn 4. október sl. var haldið upp á aldarafmæli skólahússins á Bjarnastöðum á Álftanesi.  Í hátíðarsal íþróttahússins þar útfrá fór fram hátíðardagskrá þar sem fyrirlesarar fluttu áhugaverð erindi tengd skólasögu Álftaness og félagslegu og menningarlegu hlutverki Bjarnastaða í gegnum tíðina.  Meðal fyrirlesara voru frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrum forseti Íslands, Guðmundur Andri Thorsson rithöfundur, Pétur H. Ármannsson arkitekt og Anna Ólafsdóttir Björnsson, sagnfræðingur og höfundur Álftanessögu sem kom út 1996.  Síðari hluti dagskrárinnar nefndist Minningar frá Bjarnastöðum og þar voru skemmtilegar frásagnir af skólahaldi og menningarviðburðum á Bjarnastöðum.

Fjölmenni mætti til að hlýða á þessi áhugaverðu erindi og kunnu vel að meta.  Að lokinni dagskrá í hátíðarsalnum fóru gestir yfir að Bjarnastöðum þar sem búið var að setja upp sýningu með myndum og munum tengdum Bjarnastaðaskóla. Margir stöldruðu lengi við og rifjuðu upp gamla tíma úr skólanum.  Mikil vinna var lögð í undirbúning dagskrárinnar en skipuleggjendur voru Félag áhugamanna um sögu Bessastaðaskóla og Fugla- og náttúruverndarfélag Álftaness í samstarfi við Garðabæ. 

Merkileg bygging reist árið 1914

Bjarnastaðir, frumteikning af skólahúsinu

Skólahúsið á Bjarnastöðum var reist á aðeins fimm mánuðum á árinu 1914. Það er eitt þeirra skólahúsa sem Rögnvaldur Á. Ólafsson, arkitekt, teiknaði ásamt aðstoðarmanni sínum, Einari Erlendssyni. Þeir tveir, ásamt Guðjóni Samúelssyni,  húsameistara ríkisins 1920-1950, eru taldir helstu frumherjar í íslenskri húsagerðarlist. Rögnvaldur, sem er með réttu nefndur fyrsti íslenski arkitektinn enda þótt veikindi hafi komið í veg fyrir að hann lyki háskólaprófi, var frá 1907 til æviloka árið 1917 ráðunautur landsstjórnarinnar í húsagerð.
 
Rögnvaldur Á Ólafsson, arkitekt, 1874-1917

Flest þeirra skólahúsa sem Rögnvaldur teiknaði eru nú horfin eða mikið breytt vegna viðbygginga. Skólahúsið á Bjarnastöðum er eitt af þeim fáu sem haldið hefur ytra útliti og formi í nokkurn veginn upprunalegri mynd.  Rögnvaldur Á. Ólafsson teiknaði margar merkar byggingar, t.d. kirkjur á Húsavík og í Hafnarfirði en stærsta einstaka verkefnið hans var berklahælið á Vífilsstöðum sem var reist 1908-1910, fyrsta stórhýsið þar sem allir þættir hönnunar, eftirlits og smíða voru í höndum innlendra fagmanna.
Á Bjarnastöðum var barnaskóli fram til ársins 1978 þegar skólinn var orðinn of lítill og skólahald fluttist yfir í Álftanesskóla sem tók til starfa um haustið það ár. Innréttingu gamla skólahússins var þá breytt til að koma mætti hreppsskrifstofu fyrir í húsinu.  Skrifstofa sveitarfélagsins Álftaness var síðan á Bjarnastöðum allt þar til sveitarfélagið sameinaðist Garðabæ í ársbyrjun 2013.

Hlutverk Bjarnastaða í framtíðinni

Á síðustu mánuðum hefur verið unnið að viðhaldi innanhúss og gagngerum endurbótum utanhúss á Bjarnastöðum, múrverk að utan hefur verið lagað og næsta ár verður húsið málað á ný.  Á hátíðardagskránni sl. laugardag kom fram í máli Sturlu Þorsteinssonar, forseta bæjarstjórnar, að nú tæki við nýr kafli í sögu hússins og að bæjarstjórn Garðabæjar hafi sl. vor ályktað um að í framtíðinni geti félög fengið aðstöðu á Bjarnastöðum til fundahalds og félagsstarfa. Af því tilefni afhenti hann Gunnari Val Gíslasyni, formanni menningar- og safnanefndar Garðabæjar, lyklavöldin að Bjarnastöðum með þeirri ósk að menningar- og safnanefnd taki að sér að móta nánar hugmyndir og reglur um notkun hússins og auglýsa eftir félögum sem hafa áhuga á að nýta sér húsið til félagsstarfa.