9. okt. 2014

Húsafriðunarnefnd í heimsókn

Fulltrúar húsafriðunarnefndar og Minjastofnunar Íslands heimsóttu Garðabæ miðvikudaginn 1. október sl. Þau Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir umhverfisstóri fylgdu gestunum um bæinn
  • Séð yfir Garðabæ

Fulltrúar húsafriðunarnefndar og Minjastofnunar Íslands heimsóttu Garðabæ miðvikudaginn 1. október sl.  Þau Arinbjörn Vilhjálmsson skipulagsstjóri Garðabæjar og Erla Bil Bjarnardóttir umhverfisstóri fylgdu gestunum um bæinn, þó veðrið hafi ekki tekið vel á móti þeim þennan dag enda slagveðurs rigning með roki.  

Í heimsókninni var farið víða um Garðabæ og hópurinn byrjaði daginn á því að heimsækja Vífilsstaði þar sem þau skoðuðu aðalbygginguna, yfirlæknisbústaðinn og fjósið undir leiðsögn Hagerup Ísaksen, umsjónarmanns fasteigna á Vífilsstöðum.  Frá Vífilsstöðum var haldið á Garðaholtið þar sem boðið var upp á kjötsúpu á meðan skipulagsstjóri kynnti nýtt deiliskipulag Garðahverfis.  Að loknum hádegisverði heimsótti hópurinn bæinn Krók á Garðaholti undir leiðsögn Huldu Hauksdóttur upplýsinga- og menningarfulltrúa.  Þaðan var ekið út á Álftanes og Bessastaðakirkja heimsótt og Pétur H. Ármannsson arkitekt fór yfir helstu breytingar sem hafa verið gerðar á kirkjunni á síðustu öld.  Svo lá leiðin á Breiðabólsstaði á norðanverðu Álftanesi þar sem er gamalt steinhús í friðlýsingarferli.  Hópurinn kom svo við á Bjarnastöðum og skoðaði skólahúsið sem er 100 ára á þessu ári.  Frá Bjarnastöðum var komið við í Brekkuskógum hjá Manfreð Vilhjálmssyni arkitekt.  Að lokum var húsið að Bakkaflöt 1 skoðað.  Heimsókn sem þessi er afar gagnleg fyrir starfsmenn bæjarins þar sem þau kynnast betur þeim sérfræðingum sem eru í húsafriðunarnefnd og geta miðlað þekkingu og fróðleik sín á milli.

Minnispunkar frá Pétri H. Ármannsyni, framkvæmdarstjóra Minjaverndar,  í tilefni skoðunarferðar 1. október 2014:

Minjastofnun Íslands vinnur nú að undirbúningi tillögu um friðlýsingu Vífilsstaðaspítala og fleiri bygginga á staðnum í samráði við húsafriðunarnefnd. Heilsuhælið á Vífilstöðum, sem tekið var í notkun árið 1910, var stærsta verkefni fyrsta íslenska arkitektsins, Rögnvalds Ólafssonar, en á þessu ári eru liðin 140 ár frá fæðingu hans. Vífilsstaðahælið er fyrsta opinbera byggingin úr steinsteypu sem alfarið var hönnuð og byggð af Íslendingum. Rögnvaldur teiknaði ekki aðeins húsið heldur hafði hann eftirlit og umsjón með byggingu þess og sá um útvegun efnis og búnaðar. Hann ofbauð heilsu sinni við þetta umfangsmikla verkefni og var að sögn fyrsti sjúklingurinn sem lagður var inn á hælið. Seinustu sjö æviárin dvaldi Rögnvaldur löngum á Vífisstöðum og lést þar úr berklum langt um aldur fram árið 1917.

Vífilsstaðir eru tímamótabygging í margþættum skilningi. Bygging þess var tæknilegt afrek á sínum tíma auk þess sem staðurinn skipar veigamikinn sess í sögu íslenskra heilbrigðiskerfisins. Auk spítalans eru fleiri merkar byggingar á Vífisstöðum sem eðlilegt væri að friða um leið og aðalbygginguna. Má þar nefna læknisbústað eftir Guðjón Samúelsson frá árinu 1919, fjós og hlöðu eftir sama höfund frá 1924 og starfsmannabústað frá 1925, sem Guðjón Samúelsson og Einar Erlendsson teiknuðu. Saman mynda þessar byggingar sterka listræna og skipulagslega heild sem hefur tengingu við ósnortna náttúru á jaðri Heiðmerkursvæðisins. Staðarmynd Vífilsstaða er tilkomumikil og ber að huga vel að umhverfisgildi staðarins og samspili við náttúruna við mótun tillagna um friðun.

Í sveitarfélaginu Garðabæ er að finna friðlýstar byggingar frá ólíkum tímabilum byggingarsögunnar. Má þar nefna  Bessastaðastofu (1761-1767); Bessastaðakirkju (1777-1823); íbúðarhús við Brekkuskóga 8 (Vesturbæ) og Brekkuskóga 10 (Smiðshús) á Álftanesi eftir arkitektana Guðmund Kr. Kristinsson og Manfreð Vilhjálmsson (1963); Mávanes 4, íbúðarhús eftir Manfreð Vilhjálmsson arkitekt (1964); og Bakkaflöt 1, íbúðarhús eftir Högnu Sigurðardóttur arkitekt (1968). Tillaga um friðlýsingu gamla steinhlaðna íbúðarhússins á Breiðabólsstöðum á Álftanesi (1884) bíður staðfestingar ráðherra.