23. jún. 2017

Sláttur og umhirða opinna svæða

Í vor hefur verið mjög hlýtt og mikil grasspretta í Garðabæ sem og annars staðar. Það eru því mörg verkefni framundan hjá bænum við að slá og hirða um opin svæði bæjarins. Garðyrkjudeild bæjarins sér um slátt og hirðingu, umhirðu og viðhald á gróðurbeðum og grassvæðum á opnum svæðum, á leikskóla- og skólalóðum, á leiksvæðum og á stofnanalóðum bæjarins.
  • Séð yfir Garðabæ
Í vor hefur verið mjög hlýtt og mikil grasspretta í Garðabæ sem og annars staðar.   Það eru því mörg verkefni framundan hjá bænum við að slá og hirða um opin svæði bæjarins. 

Garðyrkjudeild bæjarins sér um slátt og hirðingu, umhirðu og viðhald á gróðurbeðum og grassvæðum á opnum svæðum,  á leikskóla- og skólalóðum,  á leiksvæðum og á stofnanalóðum bæjarins.  Önnur verkefni garðyrkjudeildar eru m.a. gróðursetning sumarblóma og rekstur skóla- og fjölskyldugarða.  Rekstur trésmíðadeildar bæjarins heyrir einnig undir garðyrkjustjóra. 

Upplýsingar um slátt á kortavef Garðabæjar

Upplýsingar um svæðin sem eru slegin má finna á kortavef Garðabæjar þar sem hægt er að sjá skiptingu svæða í bænum á ákveðin sláttustig.  Með því að haka við í kortinu þar sem stendur ,,Umhirða – grassláttur“ má sjá hvernig sláttusvæðum í bænum er skipt upp.

Á sláttustigi 1 (blátt á korti) er hvert svæði slegið 7 sinnum og það gildir um svæði sem eru í umhverfi miðbæjar, við Bæjarbraut og Vífilsstaðaveg.  Á sláttustigi 2 (grænt á korti) er hvert svæði slegið 5 sinnum og það eru öll önnur grassvæði.  Þessi svæði á sláttustigi 1 og 2 eru í verktöku hjá bænum.  Önnur svæði á kortinu eru gul, ljósgul svæði eru svæði Vegagerðarinnar sem eru í verktöku og appelsínugulur eða dekkri gulur litur eru í umsjón bæjarsláttar Garðabæjar. 

Sumarstarfsmenn komnir til starfa

Í garðyrkjudeild bæjarins eru tíu fastir starfsmenn og í ár eru 22 sumarstarfsmenn hjá deildinni.  Umhverfishópar bæjarins sem eru starfræktir á sumrin heyra einnig undir garðyrkjustjóra og í umhverfishópum sumarið 2017 eru um 30 ungmenni starfandi, yfirflokksstjóri og þrír flokkstjórar.  Mörg verkefni bíða sumarstarfsmanna og við bjóðum þau öll velkomin til starfa.   Gott samstarf hefur verið milli garðyrkjudeildar, áhaldahúss bæjarins, umhverfishópa og vinnuskóla Garðabæjar á liðnum árum og unnið að sameiginlegum verkefnum við að gera bæinn snyrtilegan. 

Gagnlegar upplýsingar um gróður á lóðum

Á vef Garðabæjar eru upplýsingar fyrir almenning um gróður á lóðum þar sem hægt er að lesa margvíslega fróðleiksmola um m.a. áburðargjöf, gróðursetningu, gróður á lóðamörkum, matjurtaræktun og margt fleira.   Sjá nánar hér.
Á hverju vori hefur umhverfisnefnd bæjarins staðið fyrir hreinsunarátaki þar sem bæjarbúar eru hvattir til að hreinsa til í nærumhverfi sínu og einnig hafa Garðbæingar verið hvattir til að hreinsa lóðir sínar í sameiginlegu átaki á vorin.  

Við hvetjum alla til að hugsa vel um bæinn með það að markmiði að Garðabær verði einn snyrtilegasti bær landsins.