1. jún. 2017

Pétur Jóhann Sigfússon er bæjarlistamaður Garðabæjar

Pétur Jóhann Sigfússon er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2017. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti miðvikudaginn 31. maí sl

  • Pétur J'ohann Sigfússon var valinn bæjarlistamaður 2017
    Pétur J'ohann Sigfússon var valinn bæjarlistamaður 2017

Pétur Jóhann Sigfússon er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2017.

Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni Garðabæjar á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti miðvikudaginn 31. maí sl.

Þetta var í sjötta sinn sem sérstök menningaruppskeruhátíð er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Gunnar Valur Gíslason, formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar, setti hátíðina sem haldin er til að fagna því góða starfi sem listamenn og félög vinna að til að efla menningu og auðga mannlífið í bænum. Á hátíðinni var einnig tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna og veittar voru viðurkenningar fyrir merkt framlag til menningar og lista í Garðabæ.

Pétur Jóhann Sigfússon leikari, handritshöfundur og grínisti

Pétur Jóhann er fæddur árið 1972 og býr í Garðabæ.  Pétur Jóhann tók þátt og sigraði í keppninni ,,Fyndnasti maður Íslands“ árið 1999 og með því má segja að opinber ferill hans sem grínisti eða uppistandari hafi byrjað.   Pétur Jóhann hefur um árabil verið einn vinsælasti skemmtikraftur landsins og komið víða fram á alls konar skemmtunum.   En Pétur Jóhann hefur ekki bara kveðið að sér sem grínisti og dagskrárgerðarmaður heldur einnig tekist á við alls konar hlutverk í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum auk þess sem hann hefur oft komið að handritsgerð þeirra.  

Meðal kvikmynda sem Pétur Jóhann hefur leikið í má nefna myndina Bjarnfreðarson frá árinu 2010 þar sem hann var líka einn af handritshöfundum. Einnig lék hann sem aukaleikari í Astrópíu (frá 2007)  og sem aðalleikari í Stóra planinu (frá 2006).   Nýjasta sjónvarpsþáttaverkefni Péturs Jóhanns á þessu ári er Asíski draumurinn en þættirnir voru sýndir á Stöð 2.
Pétur Jóhann hefur tekið þátt í ótal mörgum sjónvarpsþáttum  m.a. sem dagskrárgerðarmaður, leikari og meðhöfundur og þar má nefna Spilakvöld, Evrópska drauminn, Heimsendi, Hlemmavideo og Svínasúpuna.  Pétur Jóhann sló í gegn í hinum geysivinsælu sjónvarpsseríum Næturvaktinni, Fangavaktinni og Dagvaktinni sem einn af aðalleikurum og meðhöfundum.  En seríurnar eru meðal vinsælustu sjónvarpsþátta Íslendinga frá upphafi.  
Fjölmargir sjónvarpsþættir og kvikmyndir sem Pétur Jóhann hefur leikið í og komið að handritsgerð hafa fengið tilnefningar til Eddu-verðlaunanna í gegnum árin.  Auk þess hefur Pétur Jóhann sjálfur fengið tilnefningar til Eddu- verðlauna sem leikari og núna síðast í vor var hann tilnefndur til Eddu-verðlaunanna sem aukaleikari í þáttaröðinni Borgarstjórinn.  Árið 2008 hlaut hann Eddu-verðlaunin sem sjónvarpsmaður ársins. 
Pétur Jóhann hefur einnig staðið að leikhússýningum eða svo kölluðum ,,comedy shows“ uppistandssýningum og þar má nefna einleikinn Sannleikann frá árinu 2008 sem var sýndur í Bogarleikhúsinu.  Núna í vor hefur Pétur Jóhann ferðast víða um land með grínsýninguna sína ,,Pétur Jóhann óheflaður“ þar sem hann lætur gamminn geysa eins og honum er lagið. 

Úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna

Á hátíðinni var tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna í Garðabæ. Í ár fengu tveir hópar styrki úr Hvatningarsjóðnum og tveir einstaklingar. Ragnhildur Róbertsdóttir og Kolbrún Brynja Róbertsdóttir vegna stuttmyndaverkefnis. Pétur Geir Magnússon, vegna myndlistarverkefnis.
Jónas Roy Bjarnason, vegna handritagerðar.Jón Rúnar Ingimarsson,  Eyrún Engilbertsdóttir  og Pétur Emil Júlíus Gunnlaugsson vegna tónlistarverkefnis. 

 

Merkt framlag til menningar og lista

Að þessu sinni voru þrír einstaklingar heiðraðir fyrir merkt framlag til menningar og lista í Garðabæ. 
Albína Thordarson arkitekt var heiðruð fyrir frumkvöðlastarf, merkt framlag og ríkuleg áhrif á sviði skipulagmála og íslenskrar byggingarlistar.
Steinar J. Lúðvíksson, höfundur ritverksins "Saga Garðabæjar" sem út kom 2015 var heiðraður fyrir merkt framlag til varðveislu menningararfleifðar sem komandi kynslóðir munu búa að til framtíðar.
Hannes Pétursson skáld var heiðraður fyrir merkt framlag til íslenskrar ljóðagerðar og fræðirit um þjóðlega sagnaþætti og skáldskap.