8. okt. 2014

Fallegt haustveður í fornleifa- og sögugöngu á Álftanesi

Fornleifa- og söguganga umhverfisnefndar við Skógtjörn og Hlið undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings var farin sl. sunnudag, 5. október, í fallegu veðri
  • Séð yfir Garðabæ
Vel var mætt í fornleifa- og sögugöngu umhverfisnefndar við Skógtjörn og Hlið sl. sunnudag sem farin var undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings. Göngumenn fengu fallegt haustveður og sólin skein.

Gangan hófst í landi Melhúsa og gengið var um vestanverða ströndina, í landi Skógtjarnar og Brekku. Með ströndinni er að finna afar forvitnilegar minjar af kotunum sem stóðu þar á 19. öld, Gíslakoti, Eysteinskoti, Hólakoti, Dómhildarkoti og Lásakoti. Þar eru einnig minjar eftir sjóvarnargarða, kálgarða, túngarða, brunna og bæjarstæði. Lásakot er einstaklega vel varðveitt og dæmigert fyrir öll kotin sem voru á Álftanesi en eru nú flest horfin.

Eftir að kotin höfðu verið skoðuð var farið með rútu að Hliði. Þar var mest útræði á Álftanesi, konungsútgerðin sjálf. Að Hliði má víða finna minjar en hefur þó margt farið í sjóinn vegna landbrots. Ekki fer á milli mála, samt sem áður, að þar leynast víða minjar undir sverðinum, sem mætti afhjúpa með fornleifarannsókn. Á Hliði eru jafnframt friðlýstar fornleifar, Skjónaleiði, en á því er flatur steinn og á hann letrað:

1807

HEIGDAN
SKIONA HIER EG TEL
HESTEN BEST AD
LIDE ÞESSE JÖRSA
ÞIENTE VEL ÞEGAR HAN
BIO A HLIDE

(Heygðan Skjóna hér ég tel, /hestinn best að liði, /þessi Jörsa þénti vel, /þegar hann bjó á Hliði).
Átt er við Jörund Ólafsson, bónda á Hliði, d. 1843.

Að skoðun lokinni tók Jóhannes Viðar Bjarnason, veitingamaður á Hliði, á móti göngufólki ásamt dóttur sinni Unni Ýri og bauð öllum í heitt kakó og meðlæti.