27. maí 2016

Andrea Magnúsdóttir er bæjarlistamaður Garðabæjar

Andrea Magnúsdóttir fata- og tískuhönnuður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2016.
  • Séð yfir Garðabæ

Andrea Magnúsdóttir fata- og tískuhönnuður er bæjarlistamaður Garðabæjar árið 2016. Tilkynnt var um val á bæjarlistamanni á menningaruppskeruhátíð Garðabæjar sem var haldin í samkomuhúsinu á Garðaholti fimmtudaginn 26. maí sl.

Þetta var í fimmta sinn sem sérstök menningaruppskeruhátíð er haldin á vegum menningar- og safnanefndar Garðabæjar. Gunnar Valur Gíslason, formaður menningar- og safnanefndar Garðabæjar, setti hátíðina sem haldin er til að fagna því góða starfi sem listamenn og félög vinna að til að efla menningu og auðga mannlífið í bænum. Á hátíðinni var einnig tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna, veittar voru viðurkenningar fyrir merkt framlag til menningar og lista í Garðabæ og skrifað undir samstarfssamning við félagið Grósku.

Andrea Magnúsdóttir fata- og tískuhönnuður

Andrea lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Garðabæ árið 1995 þar sem hún tók fyrstu áfangana í fatahönnun undir leiðsögn Ásdísar Jóelsdóttur. Árið 2009 útskrifaðist Andrea með fyrstu einkunn í diplómanámi í fatahönnun frá Margrete-Skolen í Kaupmannahöfn. Andrea hefur frá unglingsaldri starfað í tísku- og fatageiranum. Hún starfaði til margra ára hjá NTC lengst af sem innkaupastjóri ásamt því að hanna fatnað/fatalínur og taka þátt í framleiðslu þeirra. Árið 2005 stofnaði Andrea fatamerkið og fyrirtækið Júníform ásamt Birtu Björnsdóttur sem tók við rekstri þess þegar Andrea hélt utan til náms árið 2007.

Þegar Andrea var við nám í fatahönnun í Kaupmannahöfn hóf hún að hanna og selja fatnað undir eigin nafni AndreA. Að loknu námi flutti hún aftur heim í Garðabæ og opnaði árið 2009 verslun og saumastofu með hönnun sinni við Strandgötu í Hafnarfirði. Undir merkinu AndreA er hannaður kvenfatnaður og fylgihlutir eins og töskur og skart og einnig er hún með sérstaka heimilislínu með teppum úr íslenskri ull og púðum. Einnig hafa vörumerkið By Black og barnafatalínan Mínímí litið dagsins ljós.

Andrea hélt sína fyrstu tískusýningu vorið 2014 fyrir fullu húsi í Hafnarborg í Hafnarfirði. Sýningin bar yfirskriftina ,,I‘m coming out“. Árið 2015 var Andrea í hópi tíu hönnuða/listamanna sem tóku þátt í samsýningunni Villt hreindýr sem var sett upp í Hörpu. Það ár vann Andrea einnig samvinnuverkefni með íþróttavöruframleiðandanum Nike undir nafninu Nike x Andrea. Þá hannaði hún kjól sem Signý Guðlaugsdóttir, hönnuður og ljósmyndari klæddist á Óskarsverðlaunahátíðinni það árið. Einnig hefur Andrea hannað fatnað á konur á öllum aldri fyrir hin ýmsu tilefni. Umsvif og hróður Andreu sem fatahönnuðar hafa vaxið hratt samhliða eftirspurn eftir hönnun hennar og fatnaði.

Úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna

Á hátíðinni var tilkynnt um úthlutun úr Hvatningarsjóði ungra listamanna í Garðabæ. Í ár fengu tveir hópar styrki úr Hvatningarsjóðnum. Hljómsveitin Hórmónar úr Garðabæ sem sló í gegn á Músíktilraunum í vor og fór þar með sigur af hólmi, fékk styrk til plötuútgáfu og tónleikahalds. Gospelkór Jóns Vídalín sem er opinn ungu fólki á aldrinum 16-30 ára fékk styrk til uppsetningar á söngleiknum GODSPELL sem verður frumsýndur í Vídalínskirkju í byrjun júní.

Merkt framlag til menningar og lista

Að þessu sinni voru tveir einstaklingar heiðraðir fyrir merkt framlag til menningar og lista í Garðabæ. þau Guðfinna Dóra Ólafsdóttir og Guðmundur Norðdahl.

Guðfinna Dóra Ólafsdóttir gerðist tónmenntakennari í Flataskóla árið 1975. Hún var alla tíð ötull frumkvöðull í tónlistarlífi skólans og stofnaði m.a. Skólakór Garðabæjar í desember 1976. Starfsemi kórsins var öflug og hélt hann fjölmarga tónleika og söngskemmtanir bæði heima og erlendis. Auk starfa í Garðabæ kenndi Guðfinna Dóra kennslufræði við tónmenntadeild Tónlistarskólans í Reykjavík um árabil. Guðfinna Dóra var meðal stofnenda kórsins Hljómeykis sem enn starfar við góðan orðstír. Fyrir tuttugu árum eða árið 1996 var Guðfinna Dóra útnefnd bæjarlistamaður Garðabæjar og árið 2007 hlaut hún riddarakross fálkaorðunnar fyrir störf í þágu tónlistar og kórmenningar.

Guðmundur Norðdahl var upphafsmaður tónlistarkennslu í Garðahreppi en árið 1964 stofnaði hann barnamúsíkskóla í hreppnum. Síðar var stofnaður tónlistarskóli sem upphaflega var rekinn af Tónlistarfélagi Garðahrepps.Guðmundur Nordahl var ráðinn fyrsti skólastjóri Tónlistarskóla Garðabæjar og gegndi því embætti til ársins 1975. Guðmundur kenndi þar á blásturshljóðfæri en einnig kenndi hann tónfræði og hljómfræði. Guðmundur var frumkvöðull að stofnun lúðrasveitar í Garðahreppi og var einnig fyrst um sinn ásamt Guðfinnu Dóru stjórnandi Skólakórs Garðabæjar. Eftir að Guðmundur lét af skólastjórn Tónlistarskólans í Garðahreppi stundaði hann tónlistarkennslu víða um land um langt árabil.

Samstarfssamningur við Grósku

Á menningaruppskeruhátíðinni var undirritaður samstarfssamningur við Grósku, samtök myndlistarmanna og áhugamanna um myndlist í Garðabæ, til þriggja ára. Markmið samningsins er að styðja við starfsemi félagsins. Gróska hefur haft veg og vanda af árlegri Jónsmessugleði í samstarfi við Garðabæ auk þess sem félagið stendur að mörgum sýningum og fræðslustarfi. Á meðan á dagskránni stóð gátu gestir einnig skoðað örmyndlistarsýningu Grósku sem var sett upp á Garðaholti í tilefni dagsins.