Markvisst forvarnastarf skilar góðum árangri
Áfengis- og vímuefnaneysla unglinga hefur dregist verulega saman á Íslandi á undanförnum árum sem má þakka markvissu forvarnastarfi. Fyrirtækið Rannsóknir og greining sem gerir árlegar rannsóknir á áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga og ýmsum öðrum þáttum tengdum líðan þeirra og heilsu hefur tekið saman skýrslu með niðurstöðum könnunarinnar í Garðabæ. Svör fengust frá 200 nemendum í 8. bekk, 213 nemendum í 9. bekk og 184 nemendum í 10. bekk, í Garðaskóla, Álftanesskóla og Sjálandsskóla. Heildarsvarhlutfall í Garðabæ var um 96,9%.
Almennt eru niðurstöður könnunarinnar jákvæðar og staðfesta þann góða árangur sem náðst hefur í forvarnastarfinu.
Á meðal helstu niðurstaðna má nefna:
- 3% nemenda í 10. bekk reykja daglega en sambærileg tala árið 2001 var 9%. Enginn í 8. eða 9. bekk segist reykja daglega.
- 28% nemenda í 10. bekk hafa drukkið áfengi einhvern tímann um ævina og 6% hafa orðið ölvuð sl. 30 daga. Sambærilegar tölur árið 2009 voru 58% og 16%.
- 24% nemenda í 9. bekk hafa drukkið áfengi einhvern tímann um ævina og 1% segist hafa orðið ölvað sl. 30 daga. Sambærilegar tölur árið 2009 voru 46% og 5%.
- Á meðal nemenda í 10. bekk er merkjanleg aukning á neyslu á hassi og marijúana frá árinu 2015. 5% nemenda í 10. bekk segjast nú hafa notað hass einu sinni eða oftar um ævina og 9% hafa notað marijúana einu sinni eða oftar.
- Ekki mælist aukning á noktun á hassi og marijúana á meðal nemenda í 8. og 9. bekk.
Þunglyndis- og kvíðaeinkenni
Eitt af því sem vekur athygli er að tíðni stúlkna sem skora hæst á þunglyndis- og kvíðakvörðum eykst á milli ára. Þessi þróun sést bæði í Garðabæ og þegar horft er til landsmeðaltals. Á landsvísu er líka örlítil aukning á tíðni þeirra drengja sem skora hæst á þessum kvörðum en sú aukning er minni á meðal stráka í Garðabæ. Aukningin á vanlíðan stúlkna er litin alvarlegum augum að sögn Katrínar Friðriksdóttur, deildarstjóra skóladeildar. Skýrslan hefur þegar verið send til nefnda bæjarins til skoðunar og munu þær setja fram tillögur að því hvernig bregðast megi við.
Góð þátttaka í íþrótta- og tómstundastarfi
Unglingar í Garðabæ eru virkir í íþrótta- og tómstundastarfi. Alls segjast 74% drengja og 54% stúlkna stunda íþróttir með íþróttafélagi að lágmarki einu sinni í viku. Að auki taka 50% drengja og 58% stúlkna þátt í skipulögðu tómstundastarfi að minnsta kosti einu sinni í viku. Eins og fram kemur hér fyrir neðan er skipulagt íþrótta- og tómstundastarf sterk forvörn gegn áfengis- og vímuefnaneyslu og því skiptir þessi mikla þátttaka verulegu máli.
Þrír þættir sem vegna þungt
Í viðtali við Ingu Dóru Sigfúsdóttur hjá Rannsóknum í greiningu í Kastljósi 2. maí sl. kom fram að samstillt átak margra aðila hefði stuðlað að þeim góða árangri sem náðst hefur hér á landi hvað varðar áfengis- og vímuefnaneyslu unglinga. Árangurinn hefði vakið athygli víða og hið svokallaða „íslenska módel“ væri nú notað sem fyrirmynd forvarnastarfs víðs vegar í Evrópu.
Inga Dóra nefndi einnig að komið hefðu í ljós þrír þættir sem skipta meginmáli þegar kemur að forvörnum:
- Stuðningur foreldra og eftirlit. Með því er átt við að foreldrar taki þátt í lífi barnanna, hafi áhuga á því sem þau gera og þekki vini þeirra.
- Magn tíma sem foreldrar verja með unglingum
- Skipulagt íþrótta- og tómstundastarf
Almennt séð sagði Inga Dóra mikilvægt að búa unglingum heilbrigð skilyrði til að lifa gefandi og skemmtilegu lífi.
Skýrsla Rannsóknar og greiningar með niðurstöðum rannsóknarinnar í Garðabæ. (Pdf-skjal 1,5 Mb)