4. des. 2015

Fjárhagsáætlun 2016-2019 samþykkt

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árin 2016-2019 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær. Hvatapeningar hækka í 30 þúsund krónur á ári.
  • Séð yfir Garðabæ

Fjárhagsáætlun Garðabæjar fyrir árin 2016-2019 var samþykkt á fundi bæjarstjórnar í gær.

Helstu breytingarnar frá fyrri umræðu eru að samþykkt var að verja 350 milljónum króna í framkvæmdir við Sundlaug Garðabæjar í Ásgarði á árinu 2016. Sama ár er áætlað að verja 50 milljónum króna í hönnun á nýju fjölnota íþróttahúsi á Ásgarðssvæðinu og á árinu 2017 eru 500 milljónir króna ætlaðar í framkvæmdir við nýja íþróttahúsið.

Fjárhagsstaða Garðabæjar er áfram sterk og skuldir eru vel undir þeim viðmiðunarmörkum sem sett eru í sveitarstjórnarlögum. Gert er ráð fyrir að rekstrarniðurstaða verði jákvæð sem nemur 330 milljónum árið 2016 en að hún verði yfir 500 milljónir árin 2017, 2018 og 2019. Útsvarshlutfallið verður óbreytt 13,66% sem er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu og álagningarhlutfall fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði lækkað á árinu 2016 úr 0,24% í 0,235%.

Fræðslu- og uppeldismál eru stærsti málaflokkur sveitarfélagsins en til hans er áætlað að verja ríflega 55% af skatttekjum á árinu 2016. Kostnaður vegna málaflokks fatlaðs fólks hækkar um tæp 10% einkum vegna fjölgunar á íbúðum fyrir fatlað fólk og hækkunar launa á heimilum fyrir fatlað fólk. Hvatapeningar vegna æskulýðs- og íþróttastarfs barna hækka úr 27.500 krónum á ári í 30.000 krónur fyrir hvert barn.

Í byrjun næsta árs verða liðin fjögur ár frá sameiningu sveitarfélaganna Garðabæjar og Álftaness. Áætlanir um rekstur og efnahag hafa gengið eftir og gott betur en það sem endurspeglast í nýsamþykktri fjárhagsáætlun.

Skýringar á myndum:

Mynd 1: Kökurit sem sýnir skiptingu tekna sveitarfélagsins 2016. Þar sést að útsvar myndar 70% af tekjum, fasteignaskattur 12%, Jöfnunarsjóður 7%, lóðarleiga 2% og aðrar tekjur eru 9%.

Mynd 2: Kökurit sem sýnir skiptingu kostnaðar vegna fræðslusviðs 2016. Þar sést að 57,4% kostnaðar eru vegna reksturs grunnskóla, 31,11% vegna leikskóla, 4,21% vegna tónlistarskóla og 7,29% er annar kostnaður.

Mynd 3: Kökurit sem sýnir skiptingu útgjaldaliða félagsþjónustu 2016. Þar sést að 48,2% útgjalda eru vegna málefna fatlaðs fólks, 9,2% eru vegna félagslegrar heimaþjónustu, 7,8% eru vegna rekstrar fjölskyldusviðs, 5,5% vegna fjárhagsaðstoðar, 5% er innri leiga hjúkrunarheimilis, 7,2% renna til tómstundastarfs eldri borgara og 15,4% önnur félagsleg þjónusta.

Mynd 4: Kökurit sem sýnir skiptingu kostnaðar við æskulýðs- og íþróttamál. Þar er skiptingin eftirfarandi, rekstur íþróttahúsa 51,35%, Stjarnan og Stjörnuvellir 20,73%, félagsmiðstöðvar og vinnuskólinn 10,20%, Bláfjöll, Vífill, Sprettur, GKG 5,80%, hvatapeningar 4,68%, ÍTG, tómstundabíll og aðrir styrkir 5,88% og leikvellir og skólagarðar 1,37%.