3. júl. 2015

Frjómælingar í Garðabæ

Náttúrufræðistofnun Íslands annast frjómælingar á tveimur stöðum á landinu í Garðabæ og á Akureyri. Fyrstu mælingar á þessu ári hófust um miðjan apríl og niðurstöður mælinga eru birtar vikulega á vef Náttúrufræðistofnunar, www.ni.is.
  • Séð yfir Garðabæ

Náttúrufræðistofnun Íslands annast frjómælingar á tveimur stöðum á landinu í Garðabæ og á Akureyri. Fyrstu mælingar á þessu ári hófust um miðjan apríl og niðurstöður mælinga eru birtar vikulega á vef Náttúrufræðistofnunar, www.ni.is. Markmiðið með frjómælingunum er meðal annars að veita sem bestar upplýsingar til þeirra sem þjást af frjóofnæmi.  Í frétt á vef Náttúrufræðistofnunar er greint frá niðurstöðum mælinga í Urriðaholti í Garðabæ síðasta mánuðinn.  Í Urriðaholti var vorið kalt og frjótölur mjög lágar í apríl og maí. Um leið og hlýnaði um miðjan júní fjölgaði frjókornunum. Frjó mældust alla daga mánaðarins utan 7. júní og fór frjótala þrisvar yfir 100 frjó/m3, dagana 25., 27. og 29. júní. Heildarfrjótala júnímánaðar er 949 frjó/m3. Hafa frjókorn einu sinni áður mælst færri í júní síðan mælingar hófust árið 2011 en það var árið 2012. Meðalfrjótala í júní árin 2011-2014 er 1589 frjó/m3.

Birkifrjókorn eru undir meðallagi

Fyrsta birkifrjókornið mældist 11. júní og hafa þau mælst nánast á hverjum degi síðan. Flest voru þau í lofti 26. júní með frjótöluna 64 frjó/m3. Þeim fækkaði síðan nokkuð snögglega og lýkur frjótíma birkis væntanlega núna í byrjun júlí. Í júní mældust birkifrjó aldrei yfir 100 frjó/m3 en þau fóru tvisvar yfir 50 frjó/m3. Heildarfrjótala birkis í júní 2015 er 411 frjó/m3, en meðalfrjótalan í júní árin 2011-2014 er 835 frjó/m3. Þetta er annað árið í röð sem meðalfrjótala birkis er undir meðallagi.

Grasfrjókorn fara hægt af stað

Grasfrjókorn fara hægt af stað en eru að aukast jafnt og þétt. Aðalfrjótími þeirra er framundan, í júlí og ágúst. Heildarfrjótala grass í júní 2015 er 187 frjó/m3 sem er töluvert minna en í júní í fyrra en þá blómstraði grasið óvenju snemma. Meðalfrjótalan fyrir júní 2011-2014 er 377 frjó/m3.
Í hlýju og þurru lofti og smá golu dreifast frjókornin helst og þá er best fyrir þá sem hafa frjókornaofnæmi að sleppa því að þurrka þvottinn úti og sofa við lokaðan glugga. Hafa ber í huga að með því að slá grasið fyrir blómgun þá myndast ekki frjókorn. Fari frjótölur grass yfir 10-20 frjó/m3 á einum degi má búast við að ofnæmiseinkenna verði vart en það er þó einstaklingsbundið hversu næmt fólk er og nálægð þess við blómstrandi grasið.
Algengustu frjógerðir í Urriðaholti í júní 2015 voru birki- gras- og furufrjó.

Sjá einnig frétt á vef Náttúrufræðistofnunar Íslands