20. mar. 2015

Rannsókn á fuglalífi á Álftanesi

Á síðasta ári fór fram rannsókn á fuglalífi í fjörum, á grunnsævi og tjörnum á Álftanesi á vegum umhverfisnefndar Garðabæjar. Athugunartíminn stóð yfir frá mars til október 2014 og skoðunarsvæðin náðu frá Bala að Eskinesi. Nú er komin út skýrsla um rannsóknina eftir þá Jóhann Óla Hilmarsson og Ólaf Einarsson sem er aðgengileg hér á vef Garðabæjar.
  • Séð yfir Garðabæ

Á síðasta ári fór fram rannsókn á fuglalífi í fjörum, á grunnsævi og tjörnum á Álftanesi á vegum umhverfisnefndar Garðabæjar.  Athugunartíminn stóð yfir frá mars til október 2014 og skoðunarsvæðin náðu frá Bala að Eskinesi.  Nú er komin út skýrsla um rannsóknina eftir þá Jóhann Óla Hilmarsson og Ólaf Einarsson sem er aðgengileg hér á vef Garðabæjar

Fuglalíf í fjörum og grunnsævi á öllu Álftanesi hefur aldrei fyrr verið kannað með þessum hætti áður.  Einnig voru aðrir staðir vaktaðir þar sem farfuglar sýndu sig, en það var aðallega á túnum.  Reglulegar talningar á fuglum yfir háveturinn á 10 ára tímabili voru skoðaðar, ásamt vetrarfuglatalningu 2014 á Álftanesi.

Fuglatalningar

Fjöldi fugla í talningunum var frá rúmlega 2000 í tæplega 9000 á Álftanesi. Fæstir voru fuglarnir í mars, en flestir á fartíma um vorið, þá voru margæsir víða á Álftanesinu ásamt vaðfuglum og fleiri fuglum.  Minni toppur var síðsumars, en þá var „haustfarið“ hafið og sílaganga dró að sjófugla eins og kríur og fáeina lunda. Á veturna er ekki síður fjölbreytt fuglalíf á Álftanesi, í vetrartalningum 2005-2014 sáust að meðaltali 4500 fuglar frá Langeyri með ströndinni í Arnarnesvog.  Æðurin er mest áberandi að vetrarlagi, en snjótittlingur var næst algengasti fuglinn og sáust hópar víða við ströndina og við mannabústaði nærri henni.

Fjörur eru mikilvægt búsvæði fyrir fugla

Fjaran frá Bala að Hliðsnesi er vinsælt fuglasvæði, sérstaklega vaðfugla, en stokkönd, æðarfugl, hávella, dílaskarfur og máfar skipuðu sér á grunnsævi. Skógtjörn er mjög mikilvæg sem flóðsetur fyrir vaðfugla og kríu. Þar eru fæðustöðvar margæsa, sem sæka í sjávarfitjung, grágæsa í graslendi og æðarfugls og toppanda, sem kafa eftir botndýrum og fiski.

Frá Eyri að Rana eru fjölbreyttar fjörur og ein helsta leira Álftaness er í Seylunni, þangað sækja m.a. tjaldar og fleiri vaðfuglar. Stórt æðarvarp er í Bessastaðanesi og þar er jafnframt allstórt sílamáfsvarp og grágæsir tíðar. Við Lambhúsatjörn eru víðast þangfjörur, en í víkurbotnum leirublettir.  Æður, toppönd og hávella leita sér ætis á grunnsævinu, meðan margæs sækir á sjávarfitjar og grágæs í fjörur og graslendi kringum Lambhúsatjörn. Sílamáfar úr Gálgahrauni og Garðaholti eru algengir á sjó og í og við fjöruna.

Tjarnir og tún voru nýtt af þúsundum fugla

Þrjár tjarnir gera sig helst gildandi í fuglalíf Álftaness, er Bessastaðatjörn þeirra langstærst og með fjölbreyttasta fuglalífinu. Hinar eru einnig þekktar fuglatjarnir: Kasthúsatjörn og Breiðabólsstaðatjörn. Andfuglar eru einkennandi á öllum tjörnunum. Bessastaðatjörn er jafnt farstaður, varpstaður og fellistaður og er einn af lykilstöðum fugla á Álftanesi.
Fuglar voru taldir á nokkrum túnum og óræktarsvæðum, sérstaklega á þeim sem margæsir og grágæsir sóttu í, en ýmsir fuglar eins og heiðlóur, máfar og starar sóttu einnig í þetta búsvæði.

Mikilvægi Álftaness fyrir fugla

Árið 2014 fundust 70 tegundir af þeim 129 sem vitað er að hafi sést á Álftanesi.  Álftanes er sérstaklega mikilvægt fyrir margæsina, þar sem yfir 5% stofns kviðljósu undirtegundirnar hefur þar viðkomu á vorin á leið sinni til varpstöðva á túndrum Kanadísku íshafseyjanna. Nesið var mikilvægt fyrir rauðbrysting, en honum hefur fækkað þar og eins og annars staðar á Innnesjum á undanförnum árum af ókunnum ástæðum. Það er jafnframt mikilvægt fyrir æðarfugl, grágæs, hina sjaldséðu skeiðönd, skúfönd, æðarfugl, tildru, sílamáf og fleiri fuglategundir.

Lengri útgáfa af þessari frétt eftir Jóhann Óla Hilmarsson, Ólaf Einarsson höfunda fuglaskýrslunnar og Erlu Bil Bjarnardóttur umhverfissstjóra Garðabæjar (pdf-skjal)

Skýrsla um fuglalíf á Álftanesi – mars-október 2014, birt 2015 (pdf-skjal)