9. okt. 2014

Spjaldtölvur í leikskólum Garðabæjar

Nú hefur hver leikskóladeild í leikskólum Garðabæjar yfir einni spjaldtölvu að ráða í starfi með börnum. Spjaldtölvan er nýtt til samskipta, myndatöku og í kennslu í stærðfræði, málörvun og hugtakaskilningi svo eitthvað sé nefnt. Nýverið hélt Rakel G. Magnúsdóttir námskeið fyrir starfsfólk leikskóla um notkun iPad í almennu námi leikskólabarna.
  • Séð yfir Garðabæ

Nú hefur hver leikskóladeild í leikskólum Garðabæjar yfir einni spjaldtölvu að ráða í starfi með börnum. Spjaldtölvan er nýtt til samskipta, myndatöku og í kennslu í stærðfræði, málörvun og hugtakaskilningi svo eitthvað sé nefnt.

Námskeið fyrir starfsfólk leikskóla

Sveitarfélögin í Kraganum: Garðabær, Hafnarfjörður, Kópavogur, Mosfellsbær og Seltjarnarnes hafa verið í samstarfi um fræðsludagskrá fyrir starfsfólk leikskóla.  Nýverið hélt Rakel G. Magnúsdóttir námskeið fyrir starfsfólk leikskóla um notkun iPad í almennu námi leikskólabarna. Farið var yfir notkun á helstu forritum, ljósmyndun, og hvernig á að búa til myndbönd og rafbækur. Einnig var fjallað um Facetime og aðra samskiptamöguleika iPad.  Að lokum kynnti Rakel vefinn www.appland.is  en þar er hægt að nálgast upplýsingar um öpp sem gott er að nota í skólastarfi. Annað námskeið fyrir leikskólakennara í Kraganum verður haldið eftir áramót. Rakel G. Magnúsdóttir hefur áralanga reynslu af kennslu í leik- og grunnskólum. Hún er nemandi í tölvunarfræði við Háskólann í Reykjavík og starfar einnig í Kelduskóla.

iLek samstarfsverkefni vinabæja Garðabæjar

Nokkrir leikskólakennarar í Garðabæ eru í samstarfi um notkun spjaldtölva í leikskólastarfi við leikskóla í vinabæjum Garðabæjar, Asker í Noregi, Eslöv í Svíþjóð og Jakobstad í Finnlandi. Verkefnið er styrkt af Nordplus sprog  http://www.rannis.is/sjodir/menntun/nordplus/nordplus-sprog-tungumal/  en sjóðurinn styrkir margvísleg verkefni sem tengjast norrænum tungumálum, svo sem námsefni, leiki, rannsóknir, fræðslu, ráðstefnur o.fl. Einnig styrkir sjóðurinn skóla til að stofna samstarfsnet á sviði norrænna tungumála.  Leikskólakennararnir hittust á samstarfsfundi í Eslöv í Svíþjóð í september sl. og fóru þar yfir verkefni sem þau hafa unnið að  í vetur í leikskólunum.  Á meðal verkefna voru rafbækur unnar í smáforritinu Book Creator þar sem stuðst var við sögur eftir höfunda frá þátttökulöndunum. Í vetur ætla þátttakendur í verkefninu iLek m.a. að vinna með orð um fatnað og mat á norrænum tungumálum með smáforritinu Bitsboard í starfi með leikskólabörnum í hverjum skóla.  Einnig fá börnin að kynnast hátíðum og hefðum innan hvers lands með smáforritinu Puppet Pals.  Ilek verkefnið hófst haustið 2013 og lýkur vorið 2015.