3. jún. 2014

Landnámsgarðurinn á Hofsstöðum

Tíu ár eru liðin frá því að minjagarðurinn á Hofsstöðum var vígður 21. maí 2004 en þar bjuggu frumbyggjar Garðabæjar í reisulegum skála á landnámsöld. Þetta stórbýli frá lokum 9. aldar ber vott um stórhug fyrstu íbúa landsins. Niðurstöður fornleifarannsókna á þessum stað varpa mikilvægu ljósi á líf og starf fólks við upphaf byggðar hér á landi á seinni hluta víkingaaldar.
  • Séð yfir Garðabæ
Tíu ár eru liðin frá því að minjagarðurinn á Hofsstöðum var vígður 21. maí 2004 en þar bjuggu frumbyggjar Garðabæjar í reisulegum skála á landnámsöld. Þetta stórbýli frá lokum 9. aldar ber vott um stórhug fyrstu íbúa landsins. Niðurstöður fornleifarannsókna á þessum stað varpa mikilvægu ljósi á líf og starf fólks við upphaf byggðar hér á landi á seinni hluta víkingaaldar. Í ljósi þess hversu merkar fornminjarnar á Hofsstöðum eru ákvað bæjarstjórn Garðabæjar að þær skyldu varðveittar og umhverfi þeirra gert aðlaðandi og aðgengilegt almenningi.

Fræðsluganga um Hofsstaði og Urriðakot

Umhverfisnefnd og menningar- og safnanefnd sameinuðust um að halda upp á afmæli minjagarðsins í lok maí með fræðslugöngu undir leiðsögn Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings en hún annaðist uppgröftinn á sínum tíma. Safnast var saman í minjagarðinum þar sem Ragnheiður rakti feril fornleifarannsókna á Hofsstöðum sem hófust árið 1994 þegar fundust þar minjar af landnámsskála sem er með þeim stærstu sem hefur verið grafin upp á Íslandi.

Hofsstaðaskálinn var um 30 metrar á lengd og 8 metrar á breidd að utanmáli en gólfflötur hans um 170 fermetrar. Veggir voru hlaðnir úr torfi og grjóti, hellur lagðar í anddyrið og stétt framan við skálann. Moldargólf og langeldur var eftir miðjum skálanum. Stafverkið var úr viði og ekki ólíklegt að svefnloft hafi verið í bænum. Líklega hefur skálinn verið þiljaður með viði að innan.

Garðurinn er á lóð Tónlistarskólans að Kirkjulundi í miðbæ Garðabæjar. Ragnhildur Skarphéðinsdóttir, landslagsarkitekt hjá Hornsteinum ehf., hannaði hann í samráði við Ragnheiði með það að markmiði að hann yrði verðugur minnisvarði um landnámsmennina og vekti athygli og áhuga á uppbyggingu landsins ekki síður en bæjarfélagsins, sem átti sér lengri sögu en nokkurn óraði fyrir með því að höfðingjans á Hofsstöðum er hvergi getið í rituðum heimildum.

Fróðleik um Hofsstaði til forna og fornleifarannsóknina hefur verið miðlað með snertiskjáum í sérhönnuðum stöndum í garðinum. Garðabær og samstarfsfyrirtækið Gagarín hlutu norrænu verðlaunin NODEM árið 2004 fyrir sýninguna að Hofsstöðum. Árni Páll Jóhannsson sýningahönnuður annaðist útfærslu sýningarinnar fyrir Garðabæ, en Nýherji tæknilega þætti verkefnisins. Vélsmiðjan Héðinn smíðaði standana. Þessa dagana er unnið að endurbótum á tölvubúnaði í garðinum.

Urriðakot

Leiðsögn Ragnheiðar hélt áfram í rútu í Kauptún, en þaðan var gengið að Urriðakoti, þar sem hún stýrði einnig fornleifarannsóknum 2010–2011. Þar fundust leifar af seljum og má sjá þróun þeirra allt frá 10.öld og fram á 14.öld eða allt að því að bærinn að Urriðakoti byggðist upp úr selstöðunni. Elsta selið var kúasel með litlum skála, fjósi og vinnsluhúsi, en þá tóku fjársel við með þremur húsum, baðstofu, búri, eldhúsi og stekk.
Ragnheiður hefur kenningar um tengsl milli selstöðunnar og Hofsstaðabæjarins, en segir að vísbendingar séu ekki nógu ljósar til að slá neinu föstu um það. Hún er ásamt samstarfsfólki sínu að vinna að frágangi á gögnum fyrir fornleifarannsóknina á Hofsstöðum, en það er einnig samstarf nefndanna tveggja. Ragnheiður vonast til að fornleifarannsóknin á Hofsstöðum komi út á bók innan tíðar.
Þátttakendur voru ánægðir með útivistina í kvöldkyrrðinni og höfðu mikinn áhuga á að fræðast af Ragnheiði.