11. okt. 2013

Heilsueflandi leikskólar í Garðabæ

Þrír leikskólar í Garðabæ, Bæjarból, Sjáland og Sunnuhvoll eru tilraunaskólar í verkefninu Heilsueflandi leikskólar á vegum Landlæknisembættisins.
  • Séð yfir Garðabæ

Þrír leikskólar í Garðabæ, Bæjarból, Sjáland og Sunnuhvoll eru tilraunaskólar í verkefninu Heilsueflandi leikskólar á vegum Landlæknisembættisins. Þróunarstarfinu er ætlað að styðja skóla í að vinna markvisst að heilsueflingu í starfi sínu og þar með að uppfylla hlutverk sitt á sviði heilbrigðis og velferðar. Gert er ráð fyrir að heilsueflandi leikskóli setji sér heildræna stefnu um heilsueflandi skólastarf, ásamt tímasettri aðgerðaáætlun og að í skólanámskrá sé tekið mið af stefnunni. Stefnt er að því að reynsla tilraunaskólanna nýtist Landlæknisembættinu í gerð viðmiða um heilsueflandi leikskólastarf sem gefin verða út að ári.

Sérstök áhersla er lögð á að vinna með átta lykilþætti sem tengjast skólastarfinu en þeir eru: hreyfing, mataræði, geðrækt, öryggi, tannheilsa, fjölskylda, nærsamfélag og starfsfólk. Í skólanámskrá hvers skóla á að fjalla sérstaklega um þessa þætti. Hver áhersluþáttur fær sinn sérstaka kafla í handbók sem þróuð verður í tilraunaverkefninu. Þar verður farið yfir þau lágmarks viðmið sem uppfylla þarf í heilsueflandi leikskólastarfi og gerð gátlista yfir atriði sem hyggja þarf að til að ná viðmiðunum.

Bæjarból – hreyfing

Bæjarból mun einbeita sér að þróun viðmiða um hreyfingu, en á leikskólanum er lögð áhersla á hreyfingu og eiga börnin að fá tækifæri til æfinga og leikja sem efla líkams- og hreyfiþroska. Hreyfiþjálfun fer fram í íþróttasal hússins þar sem unnið er eftir markvissri skipulagðri hreyfiáætlun sem tekur mið af aldri barnanna. Hvert barn fer í skipulagða hreyfistund einu sinni í viku í upphitun, aðalefni, teygjur og slökun. Einnig er salurinn notaður í frjálsum leik en þá fá börnin tækifæri til að leika frjálst með þann búnað sem er í salnum. Útisvæðið er nýtt til þjálfunar á grófhreyfingum og fara börnin út einu sinni til tvisvar á dag. Á öllum deildum leikskólans er farið í gönguferðir einu sinni í viku. Starfsfólk er einnig hvatt til að huga að heilsunni allt árið og taka meðal annars þátt í hinu árlega lífshlaupi.

Sjáland – næring

Sjáland þróar viðmið um næringu. Frá opnun skólans hefur verið lögð áhersla á hollustu og góða næringu og því nýtist sú reynsla vel í þetta verkefni. Í skólanum er nánast allur matur unninn frá grunni, áhersla er á gæði hráefnis og samsetningu fæðunnar. Komið er til móts við sérþarfir barna, svo sem fæðuóþol eða ofnæmi og lífstíls- eða menningatengdar matarhefðir. Horft er til fjölbreytni varðandi samsetningu matseðils þannig að hver dagur uppfylli ekki bara lágmarkskröfu næringarþarfa heldur einnig að viðhaldið sé jafnvægi í blóðsykri, orkuþörf og úthaldi barna í leik og starfi allan daginn.

Sunnuhvoll – tannburstun

Sunnuhvoll sér um viðmið um tannvernd og tannburstun barna. Hefð er fyrir því að öll börn eru tannburstuð eftir hádegismatinn. Ferillinn er með þeim hætti að foreldrum er kynnt í fyrsta viðtali að þetta sé venja á Sunnuhvoli og óskað er eftir að barnið hafi með sér tannbursta og tannkrem. Allir foreldrar hafa tekið þessu fagnandi og því er verkefnið skemmtileg samvinna á milli skólans og heimilis til að viðhalda hreinum tönnum. Ákveðnir verkferlar eru í kringum burstunina og sér hópstjóri hvers barnahóps um sinn hóp. Inni á böðum eru tannburstaglös merkt hverju barni sem það sækir og fær aðstoð kennara síns við burstun. Eru allir á eitt sáttir um að gott er að vera með hreinar tennur eftir hádegismatinn og allir tilbúnir fyrir sögustund og hvíld í hádegi.