16. maí 2014

Námsbók leikskólabarnsins

Skóladeild Garðabæjar vann í samstarfi við Háskóla Íslands, að þróunarverkefni veturinn 2013 – 2014 um mat á námi barna. Verkefnið sem ber heitið Námsbók barnsins var unnið með styrk frá Sprotasjóði.
  • Séð yfir Garðabæ

Skóladeild Garðabæjar vann í samstarfi við Háskóla Íslands, að þróunarverkefni veturinn 2013 – 2014 um mat á námi barna. Verkefnið sem ber heitið Námsbók barnsins var unnið með styrk frá Sprotasjóði.

Verkefnið var þríþætt; í fyrsta lagi var boðið upp á fræðslu um skráningu námssagna, í öðru lagi snerist verkefnið um að finna og meta leiðir til að skrá og meta nám barna og í þriðja lagi um miðlun á þekkingu og reynslu til samstarfsfólks.

Anna Magnea Hreinsdóttir, leikskólafulltrúi segir að í verkefninu hafi falist svokallaður starfendarannsóknarvinkill. "Leikskólakennarar, sem taka þátt í starfendarannsóknum, beina athyglinni að eigin starfi um leið og þeir móta og prófa sig áfram með nýjar leiðir. Þannig læra þeir af eigin reynslu og gera þá reynslu aðgengilega fyrir aðra." 
 
Alls tóku 26 deildarstjórar þátt í verkefninu, frá leikskólanum Ökrum, leikskóladeild Barnaskóla Hjallastefnunnar, heilsuleikskólanum Holtakoti, Hæðarbóli, Kirkjubóli, náttúruleikskólanum Krakkakoti, Lundabóli og Sjálandi. Þeir hittust á mánaðarlegum fundum veturinn 2013 - 2014 undir stjórn Önnu Magneu og Kristínar Karlsdóttur, lektors við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Deildarstjórarnir fengu fræðslu um námssöguskráningar sem þróaðar voru í Nýja Sjálandi. Þátttakendur deildu eigin reynslu m.a. af námssöguskráningum og hvernig þær geta nýst til að skipuleggja leikskólastarf sem tekur mið af áhuga og þörfum barna sem nýtast í samstarfi við fjölskyldur þeirra. Einnig fengu deildarstjórarnir fræðslu um mismunandi skráningaaðferðir, svo sem með ljósmyndum og myndböndum, með spjaldtölvum (iPad) eða á pappír og hvaða aðferðir eru heppilegastar til að gefa sem besta heildarmynd af námi barna í leikskólum. Þátttakendur höfðu mismikla þekkingu og reynslu af skráningum og því urðu skoðanaskipti og miðlun reynslu afar gefandi á þessum fundum. 

Lokaskýrslu um verkefnið má nálgast hér