30. jan. 2013

Staðsetning fornleifa skráð í gagnagrunn

Um 600 fornleifar sem fundist hafa í Garðabæ hafa verið skráðar í gagnagrunn sem er aðgengilegur í landupplýsingakerfi bæjarins. Með því er hægt að minnka verulega líkurnar á því að minjar verði fyrir raski þegar farið er í framkvæmdir.
  • Séð yfir Garðabæ

Um 600 fornleifar sem fundist hafa í Garðabæ hafa verið skráðar í gagnagrunn sem er aðgengilegur í landupplýsingakerfi bæjarins. Með því er hægt að minnka verulega líkurnar á því að minjar verði fyrir raski þegar farið er í framkvæmdir.

Gagnagrunnurinn er afrakstur tveggja ára vinnu Ragnheiðar Traustadóttur fornleifafræðings að landfræðilegum fornleifagrunni, fornleifaskráningu og hnitsetningu fornleifa í Garðabæ. Með gagnagrunninum hafa skipulagsyfirvöld í bænum aðgang að upplýsingum um nákvæma staðsetningu fornleifa í bæjarlandinu. Alls eru skráðar um 600 fornleifar og annars eins fjöldi er óhnitaður á Álftanesi.

Fornleifarnar sem fundist hafa í Garðabæ eru mjög fjölbreytilegar og margar afar merkilegar, þær elstu frá því um landnám. Flestar minjanna hafa eingöngu verið kannaðar á yfirborði við fornleifaskráningu en einnig hefur verið grafið á nokkrum stöðum. Stærstu uppgreftirnir hafa verið á Hofsstöðum við Kirkjulund og í Urriðakoti sunnan í Urriðaholti. Ýmsir athyglisverðir forngripir hafa fundist við þessar rannsóknir, til dæmis fannst bronsnæla frá 10. öld á Hofsstöðum og snældusnúður með rúnaletri frá 13. öld í Urriðakoti (sjá neðar). Fornleifafundir staðfesta því að hið tiltölulega unga bæjarfélag stendur á gömlum merg.

Á vef Garðabæjar er hægt að lesa grein eftir Ragnheiði Traustadóttur og Erlu Bil Bjarnardóttur umhverfisstjóra um hnitsetningu fornleifa í Garðabæ.

Á myndinni er snældusnúður frá 13. öld, sennilega gerður úr sandsteini úr Esjunni. Á honum er máð rúnaletur, stafrófsheitið fuþark. Ljósmynd: Ragnheiður Traustadóttir