17. júl. 2012

Drög að stefnu liggja fyrir

Drög að stefnu í málefnum fatlaðs fólks á þjónustusvæði Garðabæjar og sveitarfélagsins Álftaness liggja nú fyrir. Íbúar eru hvattir til að senda inn ábendingar varðandi stefnuna.
  • Séð yfir Garðabæ

Stýrihópur hefur á undanförnum mánuðum unnið drög að stefnumótun í málefnum fatlaðs fólks á þjónustusvæði Garðabæjar og sveitarfélagsins Álftaness. Drög að stefnunni liggja nú fyrir og er hægt að nálgast þau hér. Íbúar á þjónustusvæðinu eru hvattir til að senda inn ábendingar varðandi stefnuna.

Drög að stefnu í málefnum fatlaðs fólks í Garðabæ og á Álftanesi

Þjónustusvæðið 

Með tilfærslu málefna fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011 fluttist ábyrgð á skipulagi og framkvæmd þjónustunnar við fatlað fólk frá ríki til sveitarfélaga. Garðabær og Sveitarfélagið Álftanes mynduðu sameiginlegt þjónustusvæði um þá þjónustuþætti sem fluttust frá ríki til sveitarfélaga með tilfærslunni. Garðabær er í þessu samstarfi leiðandi sveitarfélag sem veitir fötluðum á svæðinu öllu þjónustu.

Sú þjónusta sem Garðabær sinnir skv. samningum fyrir þjónustusvæðið er:

• Ráðgjöf og önnur stuðningsþjónusta við fatlaða og fjölskyldur þeirra.
• Rekstur herbergjasambýla.
• Þjónusta til stuðnings sjálfstæðri búsetu (frekari liðveisla).
• Dagþjónusta, hæfing, vernduð vinna og atvinna með stuðningi.
• Stuðningsfjölskyldur.
• Skammtímavistun.

Stefnumótun og framtíðarsýn


Garðabær leit á tilfærsluna sem tvíþætt verkefni, annars vegar úrlausnarefni þar sem lögð var áhersla á að notendur yrðu fyrir sem minnstum óþægindum vegna breytinganna og hins vegar úrlausnarefni sem felur í sér stefnumótun og framtíðarsýn sveitarfélagsins í málaflokknum.
Haustið 2011 hófst stefnumótunarvinna formlega með íbúafundi þar sem fatlað fólk, aðstandendur, stjórnmálamenn, starfsfólk og aðrir áhugasamir úr Garðabæ og sveitarfélaginu Álftanesi komu saman til að ræða þjónustuna og framtíðarsýn í málefnum fatlaðs fólks. Tillögur þær sem fram komu á fundinum hafa verið vegvísir í áframhaldandi vinnu.


Stýrihópur um stefnumótun var skipaður með erindisbréfi skv. ákvörðun bæjarstjórnar 1. mars 2012. Samkvæmt erindisbréfi er hlutverk hópsins að vinna drög að stefnumótun Garðabæjar í málefnum fatlaðs fólks ásamt framkvæmdaáætlun fyrir tímabilið 2012 – 2015. Gert er ráð fyrir að hópurinn skili drögum að stefnumótun til bæjarstjóra í september 2012.


Í stýrihópi sitja:
Sturla D. Þorsteinsson, formaður, bæjarfulltrúi Garðabæ
Jóna Sæmundsdóttir, bæjarfulltrúi Garðabæ
Bergþóra Sigmundsdóttir, bæjarfulltrúi Garðabæ
Hjördís J. Gísladóttir, bæjarfulltrúi Álftanesi
Anna Kristín Daníelsdóttir, fulltrúi notenda
Skúli Steinar Pétursson, fulltrúi notenda

Verkefnisstjóri er Bergljót Sigurbjörnsdóttir, félagsmálastjóri Garðabæjar og aðrir starfsmenn eru Sólveig Steinsson, þroskaþjálfi, fjölskyldusviði Garðabæjar, Margrét Björk Svavarsdóttir, forstöðumaður fræðslu- og menningarsviðs Garðabæjar og Guðrún Hrefna Sverrisdóttir, félagsráðgjafi Álftanesi.

Til að tryggja að stefnan endurspegli áherslur og sýn fatlaðs fólks hefur verið lögð áhersla á að eiga samtöl við fatlað fólk, aðstandendur þeirra og hagsmunasamtök í ferlinu.

Undirstöður

Fyrirliggjandi drög að stefnumótun um málefni fatlaðs fólks byggja á lögum um málefni fatlaðs fólks nr. 59/1992 með síðari breytingum, reglugerðum og reglum sveitarfélagsins.

Í 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks kemur fram eftirfarandi:
“Markmið þessara laga er að tryggja fötluðu fólki jafnrétti og sambærileg lífskjör við aðra þjóðfélagsþegna og skapa því skilyrði til þess að lifa eðlilegu lífi.“

Jafnframt byggir stefnumótunarvinnan á framkvæmdaáætlun Velferðarráðuneytis í málefnum fatlaðs fólks til ársins 2014 og samningi Sameinuðu þjóðanna um réttindi fatlaðs fólks og er það í samræmi við 2. mgr. 1. gr. laga um málefni fatlaðs fólks.

Í 3. gr. samningsins koma fram almennar meginreglur sem horft hefur verið til og varða m.a.
• virðingu fyrir sjálfræði og sjálfstæði einstaklingsins
• bann við mismunun
• virðingu fyrir mannlegum fjölbreytileika
• virka þátttöku í samfélagi án aðgreiningar
• jöfn tækifæri.



Drögin eru nú birt á heimasíðu Garðabæjar í þeim tilgangi að kalla eftir frekari ábendingum og athugasemdum frá íbúum Garðabæjar og sveitarfélagsins Álftaness og er fólk hvatt til þess að kynna sér drögin og koma sjónarmiðum sínum og athugasemdum á framfæri með því að senda tölvupóst í netfangið: gardabaer@gardabaer.is . Farið er fram á að athugasemdir berist í síðasta lagi 20. ágúst 2012.


Þegar stefnan hefur verið afgreidd í bæjarstjórn verður hafin vinna við framkvæmdaáætlun sem gert er ráð fyrir að ljúki í september 2012.