Barnasáttmálinn í Garðabæ
Ákvæði barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna verða innleidd á markvissan hátt í stjórnsýslu og stofnunum Garðabæjar á næstu misserum. Bæjarstjórn samþykkti samhljóma tillögu þess efnis á fundi sínum 15. mars sl. Þetta á sérstaklega við um þau ákvæði sem lúta að vernd og umönnun barna svo og virkri þátttöku barna í ákvörðunum er þau varða.
Áslaug Hulda Jónsdóttir, forseti bæjarstjórnar Garðabæjar lagði tillöguna fram. Áslaug segir að þrátt fyrir að sáttmálinn um réttindi barnsins hafi verið fullgiltur á Íslandi árið 1992, hafi umboðsmaður barna á Íslandi lýst áhyggjum sínum af því að hann hafi ekki verið innleiddur á markvissan hátt í stjórnsýsluna. Leikskólanefnd hafi fengið kynningu á málinu og tekið það upp á sína arma.
Garðabær tekur forystu
„Þetta mál stendur sveitarfélögum nærri enda bera þau ábyrgð á mörgum málaflokkum sem varða börn og þeirra daglega líf. Það á t.d. við um daggæslu og leik- og grunnskóla. Við berum líka ábyrgð á skipulagsmálum en þau tengjast málefnum barna á marga vegu, t.d. hvað varðar umferðaröryggi, örugg leiksvæði o.fl.“ segir Áslaug. Hún bætir því við að í skýrslu til Barnaréttarnefndar Sameinuðu þjóðanna hafi umboðsmaður barna sérstaklega lýst áhyggjum sínum af starfsháttum sveitarstjórna, nefnda og ráða sem sveitarstjórnir kjósa og starfsmanna sveitarfélaga sem sinna verkefnum er varða börn. „Ég tel brýnt að sveitarfélög bregðist við þessum ábendingum og innleiði sáttmálann í stjórnsýslu sína á markvissan hátt. Með samþykkt tillögunnar hefur Garðabær tekið forystu í þeim efnum.“
Virkir þátttakendur í samfélaginu
Barnasáttmálinn hefur vissa sérstöðu þar sem enginn annar sáttmáli hefur hlotið jafn mikinn stuðning frá alþjóðasamfélaginu. „Í sáttmálanum felst ný sýn á réttarstöðu barna þar sem litið er á þau sem virka þátttakendur í samfélaginu og mannréttindi þeirra eru höfð að leiðarljósi. Þessi sýn þýðir að við þurfum að horfa á og koma fram við börn á annan hátt en áður og hefur aðra þýðingu en almennur velvilji gagnvart börnum sem við búum nú flest yfir.“
Auka þátttöku barna í ákvörðunartöku
Næsta skref eftir samþykkt bæjarstjórnar er að mati Áslaugar að búa til verkefnisáætlun og kynna verkefnið fyrir bæjarbúum og þeim starfsmönnum Garðabæjar sem málið varðar. „Eitt af markmiðunum er að auka þátttöku barna í ákvörðunum sem þau varða en það rímar sérlega vel við lýðræðisstefnu Garðabæjar og því erum við ágætlega á veg komin í þeirri hugsun. Í Svíþjóð hefur sáttmálinn verið innleiddur markvisst og þar er hann nýttur sem verkfæri sem tryggir gæði í ákvörðunum og aðgerðum sem varða börn. Mörg spennandi verkefni hafa jafnframt fæðst í kjölfar innleiðingar sáttmálans. Ætlun okkar er að vinna að innleiðingunni í samvinnu við þá sem vel þekkja til, innanríkisráðuneytið, umboðsmann barna og Hjördísi Þórðardóttir meistaranema og fyrrverandi bæjarfulltrúa m.a. þegar kemur að fræðslu fyrir starfsfólk Garðabæjar,“ segir Áslaug að lokum.
Börn í 1. og 2. Hofsstaðaskóla velta fyrir sér réttindum barna og barnasáttmálanum út frá annarri grein hans sem fjallar um bann við mismunun