7. mar. 2014

Trjágróður í Garðabæ - frétt frá umhverfisnefnd

Umhverfisnefnd vill leggja sitt af mörkum til þess að Garðabær sé snyrtilegur og aðlaðandi bær með fallegum og heilbrigðum gróðri í görðum og á opnum svæðum bæjarins.
  • Séð yfir Garðabæ
Umhverfisnefnd vill leggja sitt af mörkum til þess að Garðabær sé snyrtilegur og aðlaðandi bær með fallegum og heilbrigðum gróðri í görðum og á opnum svæðum bæjarins. 

Umhverfisnefnd og umhverfisstjóri leituðu af þeim sökum til ráðgjafa hjá verkfræðistofunni EFLU og garðyrkjustjóra til að setja saman markmið sem bærinn ætlar að vinna að til framtíðar. Þetta er tilraunaverkefni, sambærileg markmið hafa ekki verið sett hjá öðrum bæjarfélögun. Vonum við að verkefninu verði vel tekið og að það komi bæjarbúum að góðum notum. 

Verkefnið er fólgið í leiðbeiningum um það sem helst þarf að huga að við umhirðu garða. Leiðbeiningarnar má finna undir fyrirsögninni Gróður á lóðum vefslóðinni http://www.gardabaer.is/umhverfi/grodur-a-lodum/. Þar er fjallað um helstu handtök við umhirðu lóða. 

Leiðbeiningarnar fjalla meðal annars um meðferð trjágróðurs. Trjágróður getur veitt mikla ánægju þegar allt gengur vel. Hann er öflugur og veitir skjól og getur dregið að fugla. Vegna þess hve öflugur hann getur verið, þarf þó að hafa ýmislegt í huga þegar trjám og runnum er valinn staður og gæta þess að þau trufli ekki eðlilega umferð í grenndinni og valdi ekki hættu. Einnig þarf að gæta þess að ekki sé gengið á rétt nágranna með rótarkerfum trjáa eða trjám sem varpa óeðlilegum skugga á lóðir þeirra. Oft má koma í veg fyrir slíkt með því að klippa trén reglulega, en um slíkt er einmitt fjallað í leiðbeiningunum „Gróður í görðum“. Að sjálfsögðu gildir það sama um umhirðu trjágróðurs í bæjarlandinu. Þar ber bæjarfélaginu að sjá til þess að trjágróður sé í góðri hirðu og standist ofangreindar kröfur. 

Umhverfisnefnd mun bjóða upp á námskeið í samstarfi við Skógræktarfélagið, eina kvöldstund um umhirðu garðagróðurs og tegundaval. 

Garðyrkjustjóri gerir árlega könnun á trjágróðri á lóðamörkum og athugar hvort gróður vex út yfir gangstéttar og stíga. Þessar kannanir eru framkvæmdar fyrrihluta árs og eru afstaðnar nú. Þar kemur fram að fækkun er milli ára á þeim tilvikum þar sem þurft hefur að gera athugasemdir við garðeigendur vegna gróðurs á lóðamörkum. 

Ef Garðbæingar halda áfram í sömu átt, þá bæta þeir lífsgæði í bænum. 

Umhverfisnefnd

Trjágróður í Garðabæ, markmið og leiðir að þeim.