7. maí 2010

Lýðræðisstefna samþykkt

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í gær lýðræðisstefnu bæjarins og var þar með fyrstur íslenskra sveitarfélaga til að setja sér stefnu í lýðræðismálum
  • Séð yfir Garðabæ

Bæjarstjórn Garðabæjar samþykkti í gær lýðræðisstefnu bæjarins og var þar með fyrstur íslenskra sveitarfélaga til að setja sér stefnu í lýðræðismálum.

Tilgangurinn  með því að setja bæjarfélaginu lýðræðisstefnu er að stuðla að auknum möguleikum íbúa til að taka þátt í stefnumótun og ákvarðanatöku í málefnum bæjarins og jafnframt að hvetja þá til þess.

Í inngangi að lýðræðisstefnunni segir m.a.: "Bæjarstjórn Garðabæjar hefur um árabil lagt áherslu á samráð við íbúa í mörgum málaflokkum. Þetta samráð hefur verið framkvæmt með ólíkum hætti, t.d. með íbúafundum, rafrænum könnunum og rýnihópum. Með samþykkt lýðræðisstefnu er þessi vilji bæjarstjórnar til samráðs við íbúa skjalfestur og settur um hann rammi. Lýðræðisstefnan felur einnig í sér vilja til að gefa íbúum fleiri tækifæri til að taka þátt í ákvarðanatöku og stefnumótun í málefnum sveitarfélagsins og skuldbindur stjórnendur og starfsmenn til að vera sífellt vakandi fyrir því að leita nýrra leiða til þess. Það er trú bæjarstjórnar að með virku samráði við íbúa séu meiri líkur á að niðurstaða náist í þeim málefnum sem unnið er að hverju sinni og að sátt verði verði um hana í samfélaginu.

Með samþykkt lýðræðisstefnu markar Garðabær braut í starfi sveitarfélaga á Íslandi. Fjölmörg norræn sveitarfélög hafa farið þessa leið og hefur verið litið til þeirra eftir fyrirmyndum við gerð stefnunnar."

Stýrihópur skipaður af bæjarstjórn hélt utan um vinnu við gerð stefnunnar. Í honum sátu bæjarfulltrúarnir Stefán SnæR Konráðsson og Steinþór Einarsson, Áslaug Hulda Jónsdóttir, Guðjón Erling Friðriksson bæjarritari og Helgi Grímsson, skólastjóri Sjálandsskóla.Upplýsingastjóri starfaði með hópnum.

 

Lýðræðisstefna Garðabæjar.