29. jún. 2009

Fundað í Garðabæ

Dagana 21. – 23. júní sl. stóð Rannsóknastofa um stærðfræðimenntun á Menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um sögu stærðfræðimenntunar. Ráðstefnan var haldin í Fjölbrautaskólanum í Garðabæ.
  • Séð yfir Garðabæ

Dagana 21. – 23. júní  sl. stóð Rannsóknastofa um stærðfræðimenntun á Menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrir alþjóðlegri ráðstefnu um sögu stærðfræðimenntunar. Er þetta fyrsta samkoman í heiminum þar sem eingöngu koma saman fræðimenn til að fjalla um rannsóknir á sviði sögu stærðfræðináms og –kennslu.

 

Alls héldu 19 fyrirlesarar frá 12 löndum erindi á ráðstefnunni, þar af tveir Íslendingar, Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor við Verkfræði- og raunvísindasvið og Kristín Bjarnadóttir, dósent við Menntavísindasvið.


 

Ráðstefnan var haldin í húsakynnum Fjölbrautaskólans í Garðabæ. Framkvæmdastjóri ráðstefnunnar var Kristín Bjarnadóttir, fyrrum áfangastjóri við skólann. Í skólanum er afbragðs aðstaða til ráðstefnuhalds, bæði fyrir stærri og smærri ráðstefnur. Allir erlendu gestirnir gistu á Hótel Smára sem er í göngufæri frá skólanum.


Gestir fóru í skoðunarferð um Garðabæ í boði bæjarstjóra Garðabæjar og þágu kvöldverð á Garðaholti. Ennfremur var farið í kynnisferð til Þingvalla og í Hellisheiðarvirkjun. Stærðfræðimenntun hefur ætíð verið undirstaða tæknilegra framfara og hrifust gestir mjög af tækni sem þar var kynnt, enda fáir kunnugir húshitun með fjarvarmaveitu eða raforkuframleiðslu með jarðvarma.

 

Ennfremur fengu gestir að sjá húskynni Lærða skólans á Bessastöðum í boði Forseta Íslands, en bókin Tölvísi eftir Björn Gunnlaugsson, sem kenndi stærðfræði í Bessastaðaskóla á árunum 1822–1846, var tekin til fræðilegrar umfjöllunar á ráðstefnunni.