27. apr. 2007

Vel sóttir tónleikar til heiðurs þeim Ólafi Stephensen og Árna Elfar

Vel sóttir tónleikar til heiðurs þeim Ólafi Stephensen og Árna Elfar
  • Séð yfir Garðabæ


Lokatónleikar Jazzhátíðar Garðabæjar fóru fram laugardaginn 21. apríl sl. Hinn ungi og efnilegi jazzpíanóleikari Agnar Már Magnússon flutti ásamt tríói sínu tónlist til heiðurs þeim Ólafi Stephensen og Árna Elfar.  Á dagskránni voru m.a. flutt lög eftir þá Ólaf og Árna.  Í lok tónleikanna voru þeir heiðursfélagar Ólafur og Árni kallaðir upp á svið til að taka við viðurkenningu frá Garðabæ.  Jóna Sæmundsdóttir, formaður menningar- og safnanefndar þakkaði þeim félögum fyrir framlag sitt til jazztónlistar í Garðabæ á árum áður.

 


Árni Elfar og Ólafur Stephensen fengu afhenta viðurkenningu frá Garðabæ.


Agnar Már Magnússon á píanó, Þorgrímur Jónsson á kontrabassa og Erik Qvick á trommunum.


Flutt var tónlist til heiðurs þeim Ólafi og Árna í glæsilegum sal Tónlistarskóla Garðabæjar.


Fjölmargir Garðbæingar sem og aðrir áhugasamir tónlistarunnendur fjölmenntu á jazzhátíðina sem var í boði menningar- og safnanefndar og Glitnis.

 



Ólafur Stephensen kom fram á sjónarsviðið sem píanóleikari á sjötta áratug síðustu aldar.  Hann starfaði meðal annars með Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar og stofnaði Harmónikkuhljómsveit Reykjavíkur ásamt Guðmundi Ingólfssyni. Þekktastur er Ólafur þó fyrir tríóið vinsæla sem hann leiddi í tæpan áratug með Tómasi R. Einarssyni og Guðmundi R. Einarssyni.  Beinskeittur stíll Ólafs fellur vel að því skemmtilega og um leið göfuga markmiði hans að leika stundum jazz fyrir fólk sem hlustar ekki á jazz.  Ólafur stóð fyrir jazzviðburðum í Garðabæ og skrifaði um tíma jazzgagnrýni fyrir DV. Auk tónlistarinnar er Ólafur þekktur sem frumkvöðull og framámaður í íslenskum auglýsingabransa.

 

 

Árni Elfar er máttarstólpi í sögu íslensks jazzpíanóleiks.  Vernharður Linnet, jazzgagnrýnandi Morgunblaðisin, hefur kallað hann fyrsta módernistann á meðal íslenskra jazzpíanóleikara. Árni varð fyrst þekktur þegar hann gekk í raðir hljómsveitar Björns R. Einarssonar árið 1946, en hún var þá ein fremsta og vinsælasta hlómsveit landsins.  Á næstu áratugum lék Árni með öllum sem nöfnum tjáir að nefna í íslensku jazzlífi, m.a. með hljómsveit Gunnars Ormslev.  Árni er reyndar ekki bara framúrskarandi jazzpíanóleikari, heldur líka landsþekktur teiknari og mjög liðtækur básúnuleikari, en sem slíkur starfaði hann um áratugaskeið í Sinfóníuhljómsveit Íslands.