20. apr. 2007

Skrifað undir samstarfssamning um uppbyggingu Urriðaholts

Skrifað undir samstarfssamning um uppbyggingu Urriðaholts
  • Séð yfir Garðabæ


Frá undirritun samningsins föstudaginn 20. apríl 2007.

Gunnar Einarsson bæjarstjóri Garðabæjar og Geir Zoëga stjórnarformaður Urriðaholts ehf. skrifuðu í dag, 20. apríl, undir samsstarfssamning Garðabæjar og Urriðaholts ehf. um tíma­mótaverkefni í uppbyggingu á nýjum bæjarhluta – Urriðaholti. 

Á myndinni eru frá vinstri; Erling Ásgeirsson, formaður bæjarráðs Garðabæjar Gunnar Einarsson, Geir Zoëga og Ingjaldur Ásvaldsson stjórnmaður í Urriðaholti ehf.

Verkefnið um uppbyggingu Urriðaholts er sérstakt að mörgu leyti:

  • Mikil vinna hefur verið lögð í að skipuleggja Urriðaholt með það fyrir augum að íbúar fái sem best notið útivistar og nálægðar við náttúruperlurnar Urriðavatn og Heiðmörk. Grænir geirar ganga í gegnum hverfið og þjóna sem útivistarsvæði, gönguleiðir og skjólbelti trjáa.
  • Áhersla er lögð á að skapa fjölskylduvænt umhverfi, með gnægð af göngu- og hjólreiðastígum, svo og umferðargötum sem eru hannaðar sérstaklega til að tryggja hóflegan umferðarhraða.
  • Til að tryggja skjóta og vandaða uppbyggingu skóla, íþróttamannvirkja og sundlaugar hefur Urriðaholt ehf. skuldbundið sig til að leggja rúmlega 1,3 milljarða króna til þessara verkefna.
  • Unnið er með forsendur sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi og áhersla lögð á að Urriðaholt skari fram úr í umhverfismálum. Meðal annars má nefna að til að tryggja náttúrulegan vatnsbúskap í Urriðavatni er úrkoma ekki látin renna í hefðbundin niðurföll heldur beint út í jarðveginn. Enn fremur er kveðið á um í skilmálum að notuð verði vistvæn byggingarefni.
  • Skipulag gerir ráð fyrir miklum fjölbreytileika í húsagerð, til að draga úr þeirri einsleitni sem vill einkenna ný hverfi. Lóðir verða seldar undir einbýlishús, parhús, raðhús og lítil fjölbýli, með fjölbreyttar stærðir íbúða.
  • Sérstök áhersla er lögð á að tryggja markvissa uppbyggingu og koma í veg fyrir brask með lóðir, með skýrt afmörkuðum byggingartíma.
  • Samhliða því að vera í næsta nágrenni við náttúruperlur er Urriðaholt vel staðsett á höfuðborgarsvæðinu með greiðum umferðartengingum til allra átta og mislægum gatnamótum við Reykjanesbrautina.
  • Skipulag svæðisins hefur vakið athygli fagaðila, heima og erlendis og hefur hlotið verðlaun virtra arkitektasamtaka auk þess að vera framlag Íslands í sameiginlegt rannsóknarverkefni norrænna skipulagsyfirvalda og rannsókn­arstofnunar í skipulags- og byggðamálum, Nordregio, sem stofnuð var af Norrænu ráðherranefndinni.
  • Að skipulaginu hafa unnið breskir, bandarískir og íslenskir arkitektar og skipulagsfræðingar sem sérhæfa sig í því að skapa byggðinni sterkt svipmót rótgróins hverfis.

Aðstandendur verkefnisins

Oddfellowreglan hefur lengi átt landsvæði við Urriðavatn og Heiðmörk. Reglan tók höndum saman við Viskustein ehf., fyrirtæki bræðranna Sigurðar Gísla Pálmasonar og Jóns Pálmasonar um þróun Urriðaholtsins og saman standa þessir aðilar að fyrirtækinu Urriðaholti ehf.

Uppbygging Urriðaholts er sameiginlegt verkefni Urriðaholts ehf. og Garðabæjar. Garðabær annast gatnagerð og innheimtir gatnagerðargjöld, en Urriðaholt selur byggingarrétt.

Uppbygging

Á Urriðaholti er gert ráð fyrir u.þ.b. 1.625 íbúðum og 4.400 íbúum. Íbúðabyggð verður í suðurhlíð holtsins, ofan við Urriðavatn.

Gert er ráð fyrir um 150 þúsund fermetrum atvinnu- og þjónustuhúsnæðis, í viðskipta­stræti á norðanverðu holtinu. Farið verður að ráðstafa þessu svæði í haust og er áætlað að fjögur til fimm þúsund manns muni starfa þar í framtíðinni.

Á svæðinu munu því búa og starfa á bilinu átta til tíu þúsund manns.

Rammaskipulag Urriðaholts er um 101 hektari. Fyrir liggur samþykkt deiliskipulag fyrir fyrsta áfanga Urriðaholts, sem gerir ráð fyrir um 377 íbúðum.

Nánar um samstarfssamninginn

Urriðaholt ehf. selur byggingarréttinn að lóðum á svæðinu ásamt tilheyrandi leigulóð­ar­réttindum á grundvelli sérstakra söluskilmála sem Garðabær hefur samþykkt. Sala á lóðum hefst 15. maí næstkomandi.

Samkomulag er um að Urriðaholt ehf. taki þátt í kostnaði við uppbyggingu skóla og íþróttamannvirkja í Urriðaholti sem nemur kr. 1.338.000.000. Framlagið greiðist hlutfallslega á hverja íbúð jafnóðum og byggingarleyfi fyrir einstakar lóðir eru gefin út.

Þessi fjárhagslega þátttaka Urriðaholts ehf. í upbyggingu á skóla- og íþrótta­mann­virkjum eykur möguleika á að standa enn betur að þjónustu fyrir íbúa hverfisins. Ennfremur er samkomulag um að Urriðaholt ehf. verði virkur þátttakandi í undirbúningi þessarar uppbyggingar.

Í samræmi við Staðardagskrá 21, umhverfistefnu Garðabæjar og markmið Garðabæjar um að verða í fremstu röð bæjarfélaga á sviði umhverfismála, hefur við gerð skipulags fyrir Urriðaholt verið lögð sérstök áhersla á umhverfismál. M.a. hefur verið lögð áhersla á sérkenni Urriðaholts í þeim efnum s.s. með sjálfbærum ofanvatnslausnum og verndun Urriðavatns, notkun umhverfisvænna byggingarefna og áherslu á góðar tengingar við útivist og náttúru.

Samningsaðilar munu vinna sérstaklega að ofangreindum áherslum í Urriðaholti m.a. með því að virkja vitund væntanlegra íbúa í Urriðaholt á sviði umhverfismála þannig að hverfið og íbúar þess verði í fararbroddi á sviði umhverfismála. Aðilar eru sammála um að vinna saman að áætlun um vöktun og verndun Urriðavatns.

Garðabær fer með skyldur sveitarfélags gagnvart svæðinu, sem felast m.a. í því að hafa forræði á skipulagsmálum svæðisins, veita byggingarleyfi, annast byggingar­eftirlit og vinna að sameiginlegum velferðarmálum fyrir væntanlega íbúa svæðisins eftir því sem lög og reglur ákveða og fært þykir á hverjum tíma.

Garðabær hefur þegar látið hefja vinnu við hönnun gatna ofl. á vesturhluta Urriða­holts. Framkvæmdir við gatnagerð o.fl. vegna vesturhluta Urriðaholts verða boðnar út nú í vor og fyrstu lóðir verða afhentar í byrjun næsta árs.