8. okt. 2013

Norræna samstarfsverkefnið Ilek

Ilek er heitið á norrænu samstarfsverkefni leikskóla sem Garðabær hefur umsjón með. Þátttakendur í verkefninu eru leikskólar frá vinabæjunum Asker í Noregi, Eslöv í Svíþjóð og Jakobstad í Finnlandi. Auk þess taka tveir leikskólar frá Garðabæ þátt í verkefninu, Bæjarból og Hæðarból.
  • Séð yfir Garðabæ

Ilek er heitið á norrænu samstarfsverkefni leikskóla sem Garðabær hefur umsjón með. Þátttakendur í verkefninu eru leikskólar frá vinabæjunum Asker í Noregi, Eslöv í Svíþjóð og Jakobstad í Finnlandi. Auk þess taka tveir leikskólar frá Garðabæ þátt í verkefninu, Bæjarból og Hæðarból.  Verkefnið hlaut á þessu ári styrk frá Nordplus áætluninni til að koma á samskiptum á milli þeirra leikskóla sem taka þátt, bjóða upp á námskeið og fundi til að þróa verkefnið í sameiningu.

Námskeið í Garðabæ

Fulltrúar allra leikskóla sem taka þátt hittust í lok september á fundi í Garðabæ þar sem verkefnið var kynnt og einnig var haldið námskeið þar sem kennarar lærðu á ýmis smáforrit sem verða notuð í samstarfinu. Leikskólarnir ætla í sameiningu að þróa kennslu á iPad með því að vinna að sameiginlegum verkefnum eins og norrænum söngvum, sögum og menningu og miðla því á milli leikskóla. Nemendur í leikskólunum fá að taka virkan þátt í verkefninu undir leiðsögn kennara. 

 

Samstarf framundan

Kennarar samstarfsleikskólanna verða í samskiptum sín á milli og miðla af reynslu sinni á meðan á verkefninu stendur árin 2013-2015.  Fleiri fundir og námskeið verða haldin hjá þeim vinabæjum sem taka þátt þar sem fulltrúar leikskólanna hittast og fara yfir árangur og móta í sameiningu verkefnið áfram.  Kennarar sem taka þátt í verkefninu frá Bæjarbóli og Hæðarbóli munu miðla af reynslu sinni af þessu verkefni til annarra leikskóla í Garðabæ.

 

Markmið verkefnisins

Markmið verkefnisins eru m.a. að
• styrkja norræn vinarbæjartengsl leikskóla í gegnum þróun kennslu með iPad í leikskólum.
• koma á samstarfsneti kennara og gagnkvæmum heimsóknum
• stuðla að notkun iPad til að viðhalda vinarbæjartengslum og fræða ung börn um norrænar rætur 
• koma á jöfnum tækifærum barna til að tileinka sér nýjustu tækni í námi
• styrkja norræna málvitund meðal leikskólabarna og auka þekkingu og skilning á norrænum rótum, menningu og lífsháttum með því að kenna ungum börnum meðal annars norræna söngva og sögur