3. okt. 2013

Nýr Álftanesvegur þjónar fjölmennri íbúðabyggð

Nýr Álftanesvegur mun þjóna fyrirhugaðri byggð í Garðaholti auk Álftanessins. Norðan vegarins verður víðáttumikið óbyggt svæði..
  • Séð yfir Garðabæ

Garðaholt í Garðabæ er eitt ákjósanlegasta svæðið fyrir íbúðabyggð sem enn er óbyggt á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt aðalskipulagi Garðabæjar er gert ráð fyrir byggð þar, sem verður þjónað með nýjum Álftanesvegi. Það ræðst af þéttleika byggðarinnar hver íbúafjöldinn verður en hann gæti orðið allt að 5000-6000 manns.
Meðfylgjandi uppdráttur sýnir byggðamynstur mögulegrar byggðar í Garðaholti. Uppdrátturinn hefur verið lagður verið ofan á landnýtingaruppdrátt aðalskipulags Garðabæjar 2004-2016. Tilgangurinn er að sýna á áþreifanlegri hátt hvernig byggð í Garðaholti gæti þróast ef byggt verður í samræmi við gildandi aðalskipulag og hvernig fyrirhugaður Álftanesvegur þjónar þeirri byggð.

Íbúðabyggð sunnan vegarins

Á uppdrættinum kemur vel fram að nýr Álftanesvegur er ekki látinn kljúfa væntanlega íbúðarbyggð sem er að öllu leyti fyrir sunnan veginn. Íbúðarbyggðin í Garðahrauni, á Hleinum við Hrafnistu, í Garðahverfi, á Garðaholti og á Álftanesi, þar sem nú búa um 2500 manns, mynda þannig eitt byggðarsvæði sem vegurinn mun þjóna í framtíðinni. Hafa ber hugfast að hér er um hugmyndauppdrátt að ræða sem gerir ráð fyrir svipuðum þéttleika í byggðinni og er til staðar í núverandi byggð í Garðabæ.

Uppdráttur sem sýnir mögulega byggð í Garðaholti og legu nýs Álftanesvegar

Ósnert svæði norðan vegarins

Norðan við veginn er gert ráð fyrir þjónustusvæði í landi Selskarðs og víðáttumiklu óbyggðu svæði í Gálgahrauni og við Lambúsatjórn.

Falli sem best að landslaginu

Við val á veglínu nýs Álftanesvegar var horft til tveggja meginsjónarmiða, þ.e. annars vegar að bæta umferðaröryggi og tryggja gott vegsamband við Álftanes, Garðahraun og aðra fyrirhugaða íbúðabyggð sunnan vegarins. Hins vegar að verja náttúru- og menningarminjar. Horft var sérstaklega til þess að vernda merkar menningarminjar og hraunmyndanir eins og kostur er. Bæjarráð hefur jafnframt beint því til Vegagerðarinnar að mannvirkin falli sem best að landslaginu t.d. með hleðslu veggja úr hraungrýti, í bland við önnur efni og að fjallasýn skerðist ekki umfram það sem nú er.
Rétt er að árétta að veglagningin farið í gegnum vandað umhverfismats- og aðalskipulagsferli lögum samkvæmt.