6. sep. 2006

IKEA opnar í Garðabæ í september

IKEA opnar í Garðabæ í september
  • Séð yfir Garðabæ

IKEA opnar verslun sína í Kauptúninu í Urriðaholti síðar í þessum mánuði og flytur þá alla starfsemi sína á Íslandi þangað. Húsnæði IKEA verður samtals 20.600 fm sem er umtalsverð stækkun frá versluninni í Holtagörðum. Um 220 manns koma til með að starfa hjá IKEA í Garðabæ.

Jóhannes Rúnar Jóhannesson hjá IKEA segir að í nýju versluninni verði hægt að bjóða upp á mun breiðara vöruúrval í öllum flokkum auk þess sem hægt verði að sýna fleiri lausnir og uppsetningar.

Jóhannes Rúnar segir að mikið sé lagt upp úr góðri aðkomu að húsinu og að laga það sem best að umhverfinu. Hann segir staðsetninguna vera mjög góða enda sé miðja höfuðborgarsvæðisins að færast í átt að Garðabæ og svæðið sé hannað frá upphafi til þess að taka á móti fjölda gesta.

IKEA rekur í dag tæplega 230 verslanir í heiminum, starfsmenn fyrirtækisins eru um 90 þúsund og um 454 milljónir manna heimsækja IKEA verslanirnar á ári hverju.

Myndirnar eru teknar í skoðunarferð bæjarstjórnar um nýja IKEA húsið.