4. júl. 2013

Fjölbreytt verkefni ungmenna í sumarstörfum

Hjá umhverfisstjóra starfa tæplega 200 manns, 17 ára og eldri, að fjölbreyttum verkefnum í júní og júlí.
  • Séð yfir Garðabæ

Hjá umhverfisstjóra starfa tæplega 200 manns, 17 ára og eldri, að fjölbreyttum verkefnum  í júní og júlí. Unnið er í um 10 manna hópum og fer flokksstjóri fyrir fyrir hverjum hóp, auk þess sem einn yfirverkstjóri er starfandi. Hóparnir dreifast um bæjarlandið ofan byggðar, vestursvæðin og Álftanes.

Fleiri myndir frá sumarstörfunum eru á facebook síðu Garðabæjar

Hefting lúpínu

Stærstu verkefnin eru hefting á útbreiðslu lúpínu í bæjarlandinu með orfaslætti og klippingu og ruslatínsla í útmörk þ.e. við strendur, læki, vötnin, hraunin og á útivistarsvæðum ofan byggðar. Í friðlandi Vífilsstaðavatns er t.d. gætt að verndun fuglalífs yfir varptímann þar sem unga fólkið fylgist með hvort flórgoðavarpið fær næði. Þau sem vinna að slætti á lúpínu umhverfis Vífilsstaðavatn þurfti líka að taka tillit til þess.

Á Urriðaholti og Kauptúni var hreinsað til í nýjum trjábeðum og svæðið snyrt. Þá hafa ungmennin unnið við heyrakstur og hirðingu grassvæða á opnum svæðum og hjóðmönum ásamt málningarverkefnum.

Stór verkefni að klárast

Grænt gras þekur nú lóð Ísafoldar, hjúkrunarheimilis og umhverfis þess þar sem tveir hópar 17 ára ungmenna eru að skila af sér frábæru verki. Þetta verkefni sýnir að þau geta vel leyst stór verkefni.

Annað stórt verkefni er uppgræðsla á á nýjum áhorfendabrekkum umhverfis keppnisvelli á Kjóavöllum, félagssvæði Hestamannafélagsins Spretts. Það verkefni er á lokastigi en búið er að raka grjót niður miklar manir og leggja þökur á hluta svæðisins. Meginhluti svæðisins er sprautusáð eftir grjóthreinsunina. Áhorfendabrekkurnar munu skrýðast grænu grasi er líða tekur á sumarið.

Útikennslusvæði skólanna við Jötunheima er einnig sérstakt verkefni sumarsins. Þar hefur hópur aðstoðað hönnuð svæðisins við að græða það upp, þökuleggja og leggja stíga. Þetta nýja útikennslusvæði ætti að verða grænt og gróið til notkunar fyrir útikennslu í vetur.

Á Álftanesi hafa leiksvæði og leikskólalóðir fengið andlitslyftingu með málningu og hreinsun illgresis, einnig hafa stætóskýli verið löguð.

Ráðist að skógarkerflinum

Á meðal fjölda annarra verkefna sem krakkarnir leysa er t.d. að uppræta skógarkerfilinn í bæjarlandinu, sem er brýnt svo hann yfirtaki ekki landssvæði í kjölfar lúpínunnar. Kerfillinn skýtur upp sínum hvítu blómum víða um bæinn þessa dagana, er þá ráðist á hann og hann stunginn upp. Gott væri ef bæjarbúar gættu að hvort kerfill blómstrar í nærumhverfinu.

Mosi hefur verið tíndur af svæði þar sem fyrirhugað er að leggja göngustíg í Garðahrauni vestan Reykjanesbrautar. Mosinn er síðan tættur í trjákurlara og honum dreift á röskuð svæði meðfram stígköntum.

Útivistarstígar yfirfarnir

Nú er hafið síðara tímabil atvinnuátaks sumarsins, þá eru útivistarstígar yfirfarnir, það er stígurinn umhverfis Vífilsstaðavatn og stígar á skógræktarsvæðunum í Smalaholti, Sandahlíð og Vífilsstaðahlíð. Njólinn er síðsumarsverkefni.

Frístundaúrræði fyrir fötluð ungmenni

Öll ungmenni í Garðabæ sem sóttu um starf fengu tilboð um starf hjá bænum. Fötluðum ungmennum hefur að auki staðið til boða sérstakt frístundaúrræði eftir hádegi að verkefnum loknum þar sem þau geta dvalið saman í góðu yfirlæti hjá verkefnisstjóra sumarstarfa fatlaðra ásamt stuðningsaðilum verkefnisins. Úrræðið hefur mælst vel fyrir.

Bækistöðvar sumarstarfa umhverfisstjóra eru í Flataskóla og við Jörfaveg á Álftanesi.

Fleiri myndir á facebook